fbpx

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB skrifar pistil til allra félagsmanna aðildarfélaga LEB:

 

Í lok ágúst mátti finna að hjólin væru farin að snúast hjá félögum eldri borgara vítt og breytt um landið. Mjög margir velta fyrir sér hvernig þessi vetur verði og hvernig megi vinna eitthvert félagsstarf miðað við gildandi reglur og sóttvarnir. Við hjá LEB höfum vísað í gildandi reglur inn  á Covid.is og til heilbrigðrar skynsemi sem er æði oft drjúg. Helstu leiðbeiningar er að finna HÉR

Nú rignir inn dagskrám hjá félögum eldri borgara þar sem þau hafa tekið sóttvarnarreglur almannavarna og sett sitt kerfi eftir þeim, miðað við aðstæður á hverjum og einum stað. Vissulega er allt stirðara, en nauðsynlegt að gera það sem hægt er til að lífið haldi áfram okkur öllum til eflingar.

LEB – Landsamband eldri borgara er einnig komið af stað í nefndarstörfum og öðrum félagsmálum. Fyrsti stjórnarfundurinn að loknum landsfundi að baki og ný stjórn farin að kynnast. Næsti fundur er ætlaður til að fara dýpra í stefnu fyrir komandi vetur. Fjálög eru í vinnslu og því mikilvægt að minna enn og aftur á eldri borgara og þeirra stöðu fjárhagslega. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki verið upptekin af okkar málefnum.

Eftir  eitt ár verða kosningar svo það er komin tími til að stjórnmálamenn kynni sér betur hvernig kjör og fleira tengt eldra fólki er í raun. Það verður eitt af verkefnum okkar í vetur.

Ný lög frá því í júni um félagslega aðstoð tóku þá gildi en fara í framkvæmd 1. nóvember. Með þessum lögum er verið að tryggja því fólki sem ekki hefur átt búsetu á Íslandi í 40 ár, viðbót við sínar tekjur ef þær eru til staðar en þó aldrei meiri réttur en 90% af almannatryggingum. Það er mikilvægt að félög finni með okkur þetta eldra fólk sem býr víðsvegar um landið. Meirihlutinn er af erlendum uppruna en þó nokkrir Íslendingar hafa búið í öðrum löndum þar sem ekki er almannatrygginakerfi og geta þá átt réttindi með þessum nýju lögum. Sveigjanleg starfslok eru núna öllum opin eftir breytinu laga um hálfan lífeyri.

Kennsluefni á spjaldtölvur hefur verið afar vinsælt og er enn til hjá okkur á skrifstofu LEB. Upplýsingar um kennslubæklingana, hvernig á að panta og greiða er að finna á heimasíðunni okkar HÉR

Í ástandi eins og nú hefur ríkt á þessu kórónuveiruári eykst hætta á einmanaleika og félagslegri einagrun innan okkar hóps.

Málþing LEB í samstarfi við Farsæla öldrun – Þekkingarmiðstöð sem ber heitið Veistu, ef þú vin átt, sem mun fjalla um þennan vanda, verður haldið 17. september n.k. kl. 13.00 – 17.00 á Hótel Hilton Nordica með öllum gildandi sóttvörnum samkvæmt bókinni. Nánari upplýsingar um málþingið, eins og dagskrá og hvernig skrá á þáttöku (sem þarf að gera vegna fjöldatakmarka) koma á heimasíðu okkar á næstu dögum.

Málþinginu verður streymt á netinu og munu upplýsingar um það jafnframt birtast fljótlega á heimasíðu okkar.

Málþingið er haldið með stuðningi frá heilbrigðisráðuneytinu.

Því er vert að minna alla okkar félaga á heimasíðu LEB:  www.leb.is
þar er fjölmargt að finna varðandi LEB og ýmsar aðrar gagnlegar upplýsingar.

Einnig er Facebooksíða LEB öflug upplýsingaveita  og hvetjum við alla til að vingast (læka) við hana og láta þetta berast sem víðast.

– Pistillinn var uppfærður 4.september 2020