fbpx
 

Fundargerð

Landsfundur LEB – Landssambands eldri borgara 2023

haldinn í Hjálmakletti, Borgarnesi 9.maí 2023

 

Setning landsfundar

Guðrún Kristjánsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Borgarnesi, bauð fulltrúa landsfundarins og gesti velkomna á fundinn.

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, setti fundinn.

 

Hugvekja
Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í öldrunarþjónustu ræddi ítarlega um hjúkrunarmál eldra fólks og stöðu þeirra og skiptingu kostnaðar eða áherslur ríkis og sveitarfélaga. Sem þýðir tvö stjórnsýslustig og þá tveir greiðsluaðilar, sem flækir mál óþarflega. Einnig ræddi hún hvað biði okkar ef við töpum heilsu. Millistig búsetu og ýmsa möguleika í búsetuformi.

 

Niðurstaða Kjörbréfanefndar
Viðar Eggertsson skrifstofustjóri LEB tilkynnti að 121 lögmætir fulltrúar aðildarfélagar væru mættir. Fundinum er einnig streymt á netinu.

 

Kosning starfsmanna fundarins

Helgi Pétursson formaður lagði til að fundarstjórar yrðu Bettí Jóhannesdóttir og Ásgerður Pálsdóttir og fundarritarar Sverrir Örn Kaaber og Hildigunnur Hlíðar. Voru tillögur hans samþykktar samhljóma.

 

Skýrsla stjórnar LEB og umræður um hana
Formaður flutti skýrslu stjórnar LEB árið 2022-2023.
Kjaramál
Meginefni landsfundarins eru kjaramál í framhaldi af mikilli vinnu Kjaranefndar LEB undir formennsku Þorbjörns Guðmundssonar.  Á formannafundi í febrúar sl. voru drög að stefnumörkun LEB í kjaramálum lögð fram.  Stefnan tekur bæði til aðgerða sem mikilvægt er að ráðast í strax og hins vegar sem komi til framkvæmda í áföngum á næstu árum og skiptist í 2 megin flokka.  Annars vegar breytingar á lífeyri frá almannatryggingum og hins vegar breytingar á núverandi framkvæmd laganna.

Gott að eldast – endurskoðun á þjónustu við eldra fólk

Vinna verkefnisstjórnar þriggja ráðuneyta, LEB og Sambands íslenskra sveitarfélaga við endurskoðun þjónustu við eldra fólk hefur gengið framar vonum.
Heilsuefling 60+

Bjartur lífsstíll – verkefnið á fullri ferð.  Verkefnastjórar heilsueflingar 60+ hafa rætt við 30 sveitarfélög og hvatt þau til enn frekari heilsueflingar.

Grái herinn
Málum þriggja liðsmanna Gráa hersins vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu.  Þremenningarnir gera sér góðar vonir um að dómstóllinn taki málið fyrir.  Algengt er að ferlið taki um tvö ár.

Formannafundir og heimsóknir til félaga
Á starfsárinu heimsótti formaður nokkur félög á Austur- og Norðurlandi.

Afsláttarbók og Afsláttarapp 
LEB hefur um árabil gefið út Afsláttarbók fyrir félagsmenn í aðildarfélögum LEB í samstarfi við Leturstofuna í Vestmannaeyjum og FEB í Reykjavík.  Bókin er einnig tengd appi sem hefur tekist vel. Það hófst í fyrra og er nú starfrækt annað árið í röð í samvinnu við SPARA (áður Torgið).

Heimasíða LEB
Fjölbreytt efni á heimasíðu LEB.  Vakin er athygli á að mikið er af fróðlegu efni á heimasíðu landsambandsins – leb.is.

 

Umræða um skýrslu stjórnar
Guðrún Kristjánsdóttir formaður FEBBN sem er starfsmaður hjá TR spyr vegna hugmynda um hækkun almenns frítekjumarks í 100.000 kr. hvort ekki væri jafnvel vænlegra að berjast fyrir því að ellilífeyrir frá TR yrði án tekjuskatts. Frekari umræða geymd til umræðu um kjaramál síðar á fundinum.

 

Ársreikningar LEB og Styrktarsjóðs 2022 yfirfarinn

Sigrún Camilla Halldórsdóttir gjaldkeri LEB kynnti ársreikning sl. árs. og skýrði að skipt var um bókhaldsvinnslu  4 sinnum á tímabilinu. Síðan fór hún yfir reikninginn vel og vandlega.

Umræða um ársreikning LEB

  1. Elin Siggeirsdóttir frá FEB Biskupstungum spurði um inneign á debetkortareikningum vegna lágra vaxta. Því var svarað að inneignin var færð á betri reikning í byrjun árs 2023.
  2. Valgerður Sigurðardóttir FEB Hafnarfirði sagði frá og þakkaði fyrir styrk sem LEB veitti Félagi eldri borgara í Hafnarfirði,vegna erlendra eldri borgara sem hefði verið notaður til þýðingavinnu á upplýsingum um starfsemi félagsins bæði á heimasíðu og á einstökum viðburðum, bæði á pólsku og ensku. Sagði hún þetta góðan grunn sem önnur félög gætu nýtt sér.
  3. Finnur Birgisson formaður kjaranefndar FEB Reykjavíkvakti athygli á gífurlegum aðstöðumun á fjármálaveltu hjá LEB annars vegar og ÖBÍ öryrkjabandalaginu  hins vegar. Á árinu 2021 hafi veltan hjá ÖBÍ verið 1,3 miljarðar, meðan velta hjá LEB var um 37 milljónir.  Þarna munar um Lotto peninga sem ÖBÍ hefur aðgang að og gerir þeim kleift að heygja mun öflugri kjarabaráttu.
  4. Karl Guðmundsson FEB Akureyri vill fá reikninga senda fyrir fund en ekki bara á fundinum. Svarað var að reikningar voru á netinu viku fyrir fund eins og kveðið er á um í lögum LEB.

Stjórn LEB er að skoða hvað best er að gera við Styrktarsjóð til framtíðar.

Reikningar bornir upp og samþykktir fyrir báða sjóði, samhljóða.

Fjárhagsáætlun ársins 2023
Sigrún C. Halldórsdóttir gjaldkeri LEB lagði fram fjárhagsáætlun.

Umræður um styrki ofl.
a) Valgerður Sigurðardóttir FEBH spurði um hvort ekki væri hægt að fá fastan þjónustusamning við ráðuneyti um árlegt fjárframlag.
Viðar Eggertsson skrifstofustjórði skýrði styrki til reksturs LEB og sérverkefna.  Ríkistjórnin ákvað árið 2016 að leggja niður fjölmarga þjónustusamninga við félagasamtök, þ.á.m. LEB. Stjórn LEB hafi síðan árlega reynt að fá þjónustusamning að nýju, án árangurs. Síðan hafi LEB fyrstu árin á eftir sótt um styrki úr sérstakri fjárveitingu félagsmálaráðuneytis til afmarkaðra verkefna með ágætum árangri, en þeir litlu skilað til beins reksturs. En frá árinu 2021 hafi skrifstofa LEB lagt áherslu á að fá styrki úr þessari fjárveitingu til reksturs LEB með mun betri árangri fyrir reksturinn. Hafa þeir styrkir farið síhækkandi með hverju ári. Aftur á móti sé það ekki ígildi þjónustusamnings því sækja þarf um styrkina upp á von og óvon árlega.

 

Hækkun félagsgjalds
Tillaga um hækkun um kr.100, úr 800 kr. í 900 kr.
Samþykkt með 56 atkvæðum. Á móti voru 50.

 

Tillaga stjórnar um siðareglur
Siðareglur  LEB – Landsambands eldri borgara gilda fyrir starfsemi LEB en eru einnig hugsaðar sem fyrirmynd fyrir starfsemi aðildarfélaga þess.  Þessar siðareglur eru samkvæmt siðareglum Almannaheilla, samtök þriðja geirans, sem LEB er aðili að.
Tillaga stjórnar var samþykkt.

 

Starf málefnahópa

 

Kjaramál.
Þorbjörn Guðmundsson kynnti stefnumörkun um kjaramál. Kjaranefnd LEB hefur unnið mikið starf undir formennsku Þorbjarnar við að skilgreina og setja fram kröfur eldra fólks í kjaramálum.  Nefndina skipa auk Þorbjarnar Jón Ragnar Björnsson, Jóna Ósk Guðjónsdóttir, Ásgerður Pálsdóttir, Sigurbjörg Gísladóttir og Ingibjörg Sverrisdóttir.  Auk þeirra hafa Finnur Birgisson formaður kjaranefndar LEB og Þórólfur Matthíasson unnið með nefndinni.

Ályktun Landsfundar LEB 2023 um kjaramál
Eldra fólk getur  ekki beðið lengur. Nú verður að hefjast handa

Landssamband eldri borgara lýsir yfir miklum vonbrigðum með aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í kjaramálum eldra fólks. Þrátt fyrir yfirlýst markmið í stjórnarsáttmálanum og kosningaloforð um að draga  úr skerðingum og jaðarsköttum, hafa efndir engar orðið. Í drögum að fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 eru engin fyrirheit um lagfæringar á kjörum eldra fólks.

Í hópi eldra fólks er fjöldi sem býr við óásættanleg kjör sem fara nú síversnandi í stjórnlausri óðaverðbólgu. Landsfundur LEB 2023 krefst þess að strax verði gripið til aðgerða til að rétta hlut eldra fólks og hafin verði vinna við að draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu.

Umræða um kjaramál
a) Kjaramálanefnd landsfundar leggur til að halda Kjararáðstefnu í Reykjavík í haust, í opnu húsi með umræðum og kröfum sem tekið verður eftir.
b) Jón Ragnarsson bætir við Dropinn holar steininn.
c) Gunnar Kristjánsson ræddi um umræðu Viðars Eggertssonar um kjaragliðnun sem hann var málshefjandi að á dögunum á Alþingi sem varaþingmaður, og þakkaði honum vasklega framgöngu á þingi. Gunnar minnti einnig á launavísitalan væri alltaf öruggasta viðmiðið til lengri tíma þegar rætt er um vísitölubindingu ellilífeyris.
d) Sigurður Þorleifsson ræddi um vátryggingar bifreiða í gegnum samninga stórra félaga neytenda á norðurlöndum. Þannig næðust hagstæðari kjör og vildi hvetja LEB og verkalýðsfélög hér á landi að fylgja þessu fordæmi.
e) Sigríður Stefánsdóttir spurði hvort ætti að kjósa núna um 100.000 frítekjumark á ellilífeyri.
f) Sigurbjörg Gísladóttir spurði afhverju ekki 200.000, sama og frítekjumark á atvinnutekjur? Áfram með kröfurnar.
g) Karl Erlendsson sagði mikilvægt að samþykktum ályktunum yrði komið á framfæri. Sagði að í Kanada væri 18% skattar á alla, engin skattaþrep.
h) Finnur Birgisson sagði að útgjöld íslenska ríkisins væru 115 milljarðar til eldri borgara. Þetta eru 3% af vergri landsframleiðslu, Danir greiða 8% af vergri landsframleiðslu. Gerum kröfur.

Ályktun Landsfundar LEB 2023 um húsnæðismál

Á síðustu áratugum hefur eldra fólki farið fjölgandi og allt bendir til að sú þróun haldi áfram. Mikilvægt er að taka mið af þessari þróun m.a. við skipulagningu og uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Vel staðsettir íbúðakjarnar sem byggðir eru með þarfir eldra fólks gerir því mögulegt að búa lengur í sjálfstæðri búsetu.

Landsfundur eldri borgara 2023  varar við því andvaraleysi sem nú ríkir og krefst þess að tekið verði tillit til þarfa eldra fólks við mótun húsnæðisstefnu og beinir því til sveitarfélaga að þau tryggi við skipulagningu nýrra byggingasvæða, uppbyggingu húsnæðis og þjónustu fyrir eldra fólk.

Lagabreytingar

Drífa Sigfúsdóttir formaður laganefndar LEB stjórnaði umræðum um lagabreytingar.

Drífa kynnti frá laganefnd tillögu að breytingu á nafni félagsins úr Landssambandi eldri borgara -LEB,  í Landssambandélag eldra fólks – LEF.

Nokkrar umræður urðu um tillögur að lagabreytingum.

 

Lagabreytingar:

Tillagan um að breyta nafni Landssambands eldri borgara í eldra fólks var felld með miklum meirihluta atkvæða.

  1. gr. 1.1. stendur því óbreytt.

2.gr. Og  hlutlaust gagnvart trú og stjórnmálum. Samþykkt

2.gr 2.5 eldri borgara í landinu, Verði allra landsmanna eldri en 60 ára.  Samþykkt

4.gr 4.3 senda boð um landsfund og staðarval rafrænt til aðildarfélaga. Samþykkt

4.gr 4.Stjórn sendi dagskrá landsfundar og tillögur sínar með rafrænum hætti 3 vikum fyrir landsfund. Eldri setning fellur öll niður.  Samþykkt

4.6 við greinina bætist: Nefndin annast framkvæmd kosninga á landsfundi. Þeir sem hyggjast bjóða sig fram til setu í stjórn LEB þurfa að tilkynna framboð sitt í síðasta lagi einni viku fyrir aðalfund. Þeir geta sent upplýsingar um sig til skrifstofu en upplýsingarnar þurfa að hafa borist skrifstofu einni viku fyrir aðalfund. Kynningarefni má að hámarki vera half blaðsíða A4 með Times New Roman 12 punkta letri auk myndar. Samþykkt

5.gr. 5.1 Hvert aðildarfélag velur fulltrúa til þess að sitja landsfund LEB. Annað fellur niður.   Samþykkt

5.gr.2  Hvert aðildarfélag velur fulltrúa þannig að fyrir 1 – 300 félagsmenn fær félag tvo fulltrúa, síðan einn fulltrúa fyrir hverja 500 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu.    Samþykkt

  1. gr. 6.1 Skýrsla stjórnar um starfsemi sambandsins á liðnu starfsári. Samþykkt

 

Bókun málefnahóps um lagabreytingar:
Laganefnd sem starfaði á landsfundi LEB 9. maí 2023 samþykkir að beina því til stjórnar að hún skoði möguleika á því að haldinn verði formannafundur annað árið en stór landsfundur hitt árið.

Samþykkt samhljóða eftir afgreiðslu á lagabreytingum.

 

Kosningar til stjórnar og annarra trúnaðarstarfa

Engar tillögur bárust aðrar en tillögur uppstillingarnefndar og voru þær því samþykktar samhljóða:
Formaður til næstu 2ja ára: Helgi Pétursson (endurkjör).

2 aðalmenn í stjórn til 2ja ára: Drífa Sigfúsdóttir Reykjanesbæ (endurkjör) og Þorbjörn Guðmundsson Reykjavík (endurkjör).

3 varamenn í stjórn til 1 árs: Ásgerður Pálsdóttir Blönduósi (endurkjör), Jónas Sigurðsson Mosfellsbæ (endurkjör) og Magnús Jóhannes Magnússon Selfossi (nýtt kjör).

2 skoðunarmenn reikninga til 1 árs: Ástbjörn Egilsson og Hildigunnur Hlíðar.

2 varaskoðunarmenn reikninga til 1 árs: Guðrún Ágústsdóttir og Sverrir Örn Kaaber.

 

Fyrirlestur um Heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk – Gott að eldast

Fyrirlesturinn hélt Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir og formaður verkefnastjórnar.
Félags-og vinnumálaráðherra og heilbrigðisráðherra skipuðu verkefnastjórn sumarið 2022, sem í sat m.a. formaður LEB.  Markmiðið var að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi og mikilvægt er því að samþætta þjónustuna bæði til að auka lífsgæði og tryggja að þjónustukerfi hér á landi ráði við væntanlega fjölgun eldra fólks á næstu árum.  Áherslur verða lagðar á að bæta heimaþjónustu, bæta aðgengi að þjónustu og stuðla að andlegri, félagslegri og líkamlegri heilbrigðri öldrun.  Viljayfirlýsing um verkefnið var undirritað af fyrrnefndum ráðherrum auk fjármála-og efnahagsráðherra, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og formanni LEB.

Eldra fólk er virði en ekki byrði. Þingsályktunartillaga um verkefnið var til umræðu á Alþingi meðan á fyrirlestrinum stóð og var samþykkt á þinginu um það leiti sem Landsfundi LEB var slitið.
Að fyrirlestri loknum komu nokkrar fyrirspurnir.

 

Fyrirlestur um Öldungaráð
Maria Ingibjörg Kristjánsdóttir félagsþjónustufulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga flutti erindi um öldungaráð sem skipuð eru að loknum sveitastjórnarkosningum.
Hægt og bítandi gengur að skipa öldungaráð, en allur gangur á hversu áhrifamikil þau eru.

Sum sveitarfélög setja ekki upplýsingar á vefsíður sínar, þannig að erfitt er að mæla virkni og niðurstöður.

 

Önnur mál

  1. Ingibjörg Guðmundsdóttir FEB í Hafnarfirði benti á að fólk sem óskar að taka þátt í félagsstarfi í Hafnarfirði þurfi ekki að skrá sig í félagið í Hf sé það í eldri borgara félagi annarsstaðar.

Þá ræddu hún um heitið FEB Reykjavík og nágrenni og vakti athygli á að félög eldri borgara eru einnig starfrækt í öllum sveitarfélögunum sem liggja að Reykjavík.

Helgi Pétursson formaður sleit Landsfundi LEB 2023 með hvatningarræðu kl. 16:30

 

Nokkrir fundargestir fóru heim, aðrir fóru í stutta gönguferð um Borgarnes.

Sveitarsstjóri Borgarbyggðar hélt móttöku og í framhaldi var kvöldverður fyrir þá sem það kusu.

 

 

Fundargerð rituðu:  Sverrir Örn Kaaber og Hildigunnur Hlíðar