fbpx

Ég hef látið af launuðum  störfum og reiði mig á greiðslur úr lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun ríkisins. Ég hafði náð að leggja smá fyrir til efri áranna af launatekjum mínum, auk þess að eiga ásamt eiginkonu minni þokkalegt, skuldlítið raðhús í Grindavík, sem skjól fyrir okkur í ellinni og eins konar lífeyrissjóð.
Ég lagði í byrjun mars í fyrra inn á vaxtareikning í Landsbankanum 5 milljónir króna á ársvöxtum milli 8 og 9% til að vega upp á móti um 9% ársverðbólgu og reyna að halda verðgildi sparnaðarins. Vextir skyldu greiddir í árslok. Vextirnir námu 285.903 krónum, fjármagnstekjuskattur nam 62.899 krónum. Út úr krafsinu hafði ég því 223.044. Ég var nokkuð sáttur við það þó eignin hefði rýrnað aðeins meira en það miðað við verðbólguna. Nú í vor fékk ég rukkun frá Tryggingastofnun þar sem kom fram að ég hefði fengið ofgreiddan lífeyri frá stofnuninni sem næmi 223.004 krónum. Nánast upp á krónu þá vexti sem ég hafi fengið greidda frá Landsbankanum eftir skatt. Niðurstaðan er sú, að sparnaðurinn minn hefur í raun rýrnað.
Niðurstaðan er sú að fjármagnstekjur mínar á síðasta ári eru raun engar. Ríkið hefur hirt þær, annars vegar með skattlagningu og hins vegar með skerðingu á opinberum ellilífeyri, sem í raun ætti aldrei að skerðast vegna lágra árstekna. Ef svo heldur sem horfir verður verðgildi minna upphaflegu 5 milljóna að engu orðið þegar fram líður, hversu mikla vexti ég fæ. Þeir verða allir hirtir af mér. Það ætti að vera umhugsunarefni fyrir ráðamenn þjóðarinnar hvernig búið er að eldra fólki á eftirlaunum. Getur það verið sanngjarnt að skattleggja ekki aðeins atvinnutekjur, heldur líka tilraunir fólks til að vernda vernda fjármuni sína gegn verðbólgu svo það geti átt bærilegri elliár með minni áhyggjur af afkomu sinni. Ég er búinn að greiða skatt af umræddum 5 milljónum, af hverju þarf ég að greiða skatt af þeim aftur og af hverju þarf að skerða lögbundnar bætur til mín í ofanálag. Er þetta í lagi? Svar óskast. Þetta hvetur svo sannarlega ekki til ráðdeildar og sparnaðar fyrir eldri íbúa landsins. sem vilja tryggja sér áhyggjuminna ævikvöld en nú er boðið upp á.

 

Grein sem birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 22. júní sl.

Birt með góðfúslegu leyfi Hjartar Gíslasonar