fbpx

Ýmislegt fróðlegt er að finna í fréttabréfi Vöruhúss tækifæranna eins og endranær. Minnum einnig á ýmsa viðburði Háskóla 3ja æviskeiðsins, U3A, sem fræðast má um hér neðar í fréttabréfinu

 

Vöruhús tækifæranna
Fréttabréf í mars 2022
Efnisyfirlit

Í aðdraganda kosninga 2022
Kosningaloforð til eldri borgara

Það eru sveitastjórnarkosningar í aðsigi og málefni fólks á þriðja æviskeiðinu eru dregin fram einn ganginn enn og sett á loforðalista frambjóðenda. Tilvitnanir í tölfræði Hagstofu Íslands um að „hlutfall eldri borgara muni hækka ört á næstu árum“ og að „heilbrigðiskerfið geti ekki staðið undir þessari þróun“ hljóma næstum því einsog hamfaraspár. Þessi áskorun sem langlífi okkar borgaranna kallar á er rædd af miklum eldmóð í aðdraganda kosninga en öllu minna þess á milli. Helstu kosningaloforð pólitíkusa síðustu áratugi eru efling heimaþjónustu, dagþjónustu, heimahjúkrunar og fjölgun hjúkrunarrýma.

Það er óhætt að fullyrða að enginn hlakkar til að þurfa nýta sér ofangreind úrræði. Þvert á móti vill fólk helst njóta efri áranna án utanaðkomandi aðstoðar eins lengi og mögulegt er. Stærsta ógnin er vanheilsa, bæði líkamleg og andleg, en bein tengsl eru þar á milli. Rannsóknir sýna að neikvætt andlegt ástand getur valdið líkamlegum veikindum og ótímabæru andláti.

Einmanaleiki eldra fólks er vaxandi faraldur og hafa vísindamenn líkt afleiðingum hans við tóbaksreykingar. Eldri borgarar eru í meiri áhættu en aðrir að upplifa einmanaleika. Þegar þeir hætta að vinna, dregur úr samneyti við annað fólk og félagsnetið skreppur saman. Missir maka og það að búa einn eykur enn frekar á líkur um að viðkomandi upplifi einmanaleika og að andlegri heilsu þeirra hraki.

Því ættu stjórnvöld að endurskoða stefnu sína í málefnum eldra fólks og leggja aukna áherslu á heilsueflingu eldra fólks og forvarnir gegn einmanaleika eldri borgara. Fjárhagslegi ávinningurinn er augljós en bætt heilsa og aukin lífsgæði, samhliða virkri þátttöku í samfélaginu, verða ekki metin til fjár. Þannig væri hægt fresta þörf þessa hóps á heimaþjónustu, heimahjúkrun og hjúkrunarrýmum.

Sóknarfæri stjórnvalda er að halda fólki á þriðja æviskeiðinu virku í samfélaginu eins lengi og hægt er. ­Það felur m.a. í sér að berjast gegn aldursfordómum sem birtast m.a. á vinnumarkaðinum þar sem eldra fólk fær síður framgang í starfi og er skikkað til að hætta að vinna á tilteknum aldri.  Þá birtast aldursfordómarnir í umfjöllun fjölmiðla um málefni þessa hóps þar sem einkum er fjallað um hann sem vandamálahóp sem krefst útgjalda og skapar „fráflæðisvanda“.

Eldri borgarar eru ekki einsleitur hópur heldur einstaklingar með ólíkar langanir og mismunandi gildismat. Sú kynslóð sem nú er að komast á þriðja æviskeiðið  er með allt öðruvísi bakgrunn en kynslóðirnar sem á undan komu. Um 86% þeirra sem nú er 60 ára eða eldri eru með starfs – eða framhaldsmenntun og þar af eru 40% þeirra með háskólapróf. Þessi hópur hefur gjarnan ferðast um heiminn, sótt sér menntun erlendis og jafnvel unnið þar.

Þessi „nýja kynslóð“ sem er að komast á þriðja æviskeiðið er ekki tilbúin til að setjast í „helgan stein“ heldur vill það móta og njóta þriðja æviskeiðsins á eigin forsendum. Það getur falið í sér að feta nýjar slóðin í lífinu á einn eða anna hátt og láta drauma sína rætast. Hlutverk þeirra sem fara með málefni eldra fólks er að vinna saman í að  tryggja að þessi hópur hafi tækifæri til þess að vera áfram virkir samfélagsþegnar. Þau eru mannauður en ekki byrði.

Hvernig stóð á því að Kristján Gíslason hoppaði á mótorhjól 56 ára gamall?

Svarið er einfalt segir Kristján, ég var að leita að áhugamáli sem gæti komið í staðinn fyrir ástríðuíþróttina mína, golfið. En golfsveiflan framkallaði nístandi bakverk. Ég var greindur með brjósklos og talið var óhjákvæmilegt að spengja neðstu hryggjaliðina. Í miðju samtali við svæfingalækninn hætti ég hins vegar við aðgerðina, sem mér þótti ekki áhættunar virði.

Af tilviljun heyrði ég af skurðlækni, Jósepi Blöndal, sem taldi skurðaðgerðir vegna brjóskloss of algengar og bauð upp á annað meðferðarúrræði. Með ýtni var ég mættur til Jóseps á spítalann í Stykkishólmi. Jósep greindi mig og í framhaldinu gaf hann mér sterka von um að ég gæti lifað eðlilegu lífi – verkjalaus.

Næstu tvær vikurnar fóru í að kenna mér hvernig ég reisti mig upp á morgnana, tannburstaði mig, hvernig ég klæddi mig, hvernig ég lyfti hlutum, hvernig ég sit o.s.frv. Í raun var ég endurforritaður og fékk æfingu í því að endurtaka í sífellu þessar nýju aðferðir. Þetta reyndist mér ekki erfitt því ég fann hvað þetta gerði mér gott.

Hitt reyndist mér erfitt, en það var að segja skilið við golfið. Ekki aðeins golfið því ég þurfti líka að kveðja golfvinina – ég gat ekki einu sinni horft á golf í sjónvarpinu sem ég hafði unun af. Allt mitt félagslíf hafði snúist meira og minna um golfið sem ég varð núna að þurrka úr huga mínum. Án efa glímdi ég við þunglyndi á þessum tíma því ég gat ekki ímyndað mér að ég ætti eftir að finna annað áhugamál í stað golfsins.

Fyrir tilviljun hitti ég gamlan vin sem sagði: „Af hverju skellir þú þér ekki með okkur strákunum í mótorhjólaferðalag um Vestfirðina – ég á mótorhjólið og allar græjur fyrir þig?“ Ég sem hafði nánast aldrei stigið á mótorhjól lét vaða. Ég fann mig strax á mótorhjólinu. Þrátt fyrir mótorhjólaslys nokkru síðar, þar sem ég þurfti að gangast undir aðgerð á ökkla, þá fann ég að ég var kominn með ástríðu fyrir þessari nýju íþrótt – mótorhjólaíþróttinni.

Tveimur árum eftir að þetta afdrifaríka mótorhjólaferðalag, var ég á leiðinni einn í kringum jörðina á mótorhjólinu. Á þeim 10 mánuðum sem ferðin tók stóð ég nokkrum sinnum frammi fyrir þannig áskorunum að auðveldast hefði verið að snúa við. Það eru eðlileg viðbrögð og verða okkur eðlislægri eftir því sem við eldumst. En ef við leyfum okkur að tala okkur út úr aðstæðum þá er brautin bein inn í einhæfan lífsstíl. Eitt af því sem ég lærði á þessu jarðkringluferðalagi mínu var mikilvægi þess að storka sjálfum mér þegar á móti blés. Þannig tókst mér að ljúka ferðalaginu og uppskar eitt stórkostlegasta tímabil í lífi mínu.

Þetta vil ég heimfæra upp á lífið sjálft því við verðum að muna að þegar allt virðist vonlaust þá getum við verið fullviss um að önnur leið er til sem leiðir okkur inn á nýja braut þar sem lífsfyllingu er að finna. Orð föður míns: “Aldrei hætta að þora” eru hvatningarorðin sem hafa verið mitt haldreipi á erfiðum stundum.

Stelpan og eldri borgarinn

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff , skrifar reglulega skemmtilega pistla sem birtast í Fréttablaðinu undir heitinu „bakþankar.“ Einn slíkur pistill birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 19. febrúar s.l. undir fyrirsögninni „Stelpan og eldri borgarinn.“ Þar fjallar Margrét um þegar aldurinn læðist óvænt aftan að manni og sennilega kannast flest okkar við þá upplifun sem að hún lýsir hér.  Ef ske kynni að bakþankar Margrétar hafi farið framhjá einhverjum þá birtum við þá hér með góðfúslegu leyfi Margrétar.

„Magga – við eigum kannski 10 til 20 góð ár eftir!“  Ég hrökk við og horfði á vinkonu mína sem hafði kíkt í kaffi. „Hvaða vitleysa,“ sagði ég en fór síðan að reikna. Sextugsafmælið nálgast með ógnarhraða og 60+10 eru 70 og 60+20 eru 80, þannig að ljóst var að við vorum komnar vel inn í seinni hálfleik lífsins. Fyrir rúmum 20 árum hélt mamma upp á sextugsafmælið sitt og hélt fjölmennt konuboð. Það var mikið fjör og húllumhæ og ég man að við systkinin stóðum álengdar og horfðum kímin á þessar miðaldra konur.

Ég get ekki sagt að mér finnist þetta boð hafa gerst í gær – en að tæp 25 ár séu liðin er jafn óraun ­ verulegt. Það skrýtna er að þegar maður er ungur líður tíminn aldrei nógu hratt – en þegar við eldumst æðir tíminn áfram og á sífellt meiri hraða. Nú þegar sextugsafmæli jafnaldra minna hrúgast inn sé ég hvergi miðaldra konur lengur. Þetta eru bara við stelpurnar – grjótharðar sem aldrei fyrr! Erum löngu búnar að átta okkur á hvað lífið gengur út á og höfum ekki tíma fyrir neitt kjaftæði lengur. Erum komnar á þennan „fuck off“ aldur – enda tíminn fram undan ekki endalaus.

Seinni hálfleikur er svo sannarlega hafinn en það má hugga sig við að í alvöru boltaleikjum gerast hlutirnir fyrst af alvöru eftir hlé. Þegar ég læt hugann reika sé ég komandi ár umvafin gleði, golfi, bubblum og skemmtilegu fólki. Þó skyggir sú staðreynd á gleðina að réttur til að ganga í Félag eldri borgara eiga þau sem náð hafa 60 ára aldri. Þegar ég horfi í spegil – gleraugnalaus reyndar – sé ég enn sömu stelpuna og fyrr en hvergi verðandi eldri borgara. Ætli það sé hægt að láta taka sig út af póstlista Félags eldri borgara“?

Hugarsmíðin hún Katla okkar

Hugarsmíðin hún Katla okkar Óskarsdóttir er 55 ára kennari við einn af grunnskólum Reykjavíkur þar sem hún er búsett og hefur verið alla tíð. Katla býr ein og er barnlaus. Var áður í sambúð með Nonna bifvélavirkja og entist sú sambúð í aðeins tvö ár. Mest vegna þess að þó að Nonni væri hinn vænsti maður þá fannst Kötlu hann alltof rólegur, í raun hálfgert dauðyfli, ólíkt henni sjálfri sem vill helst vera á fullu. Hvað varðar pólitíkina er Katla mikill Evrópusinni og kýs samkvæmt því bæði til þings- og sveitarstjórna.

Katla passar vel upp á líkamann og andlegu hliðina, sofa nóg, borða hollt, hreyfa sig, virkja heilann og stunda hugleiðslu. Sem sagt allur pakkinn. Katla leikur að auki blak í frístundum með hópi vinkvenna og með sömu vinkonum sækir hún reglulega hina ýmsu menningarviðburði sem bjóðast. Er ein af svonefndum stoðum menningarlífsins í borginni. Reynir líka að sinna samfélagslegum skyldum sínum með þátttöku í allskonar félagsstarfi. Heimilisverkin tekur hún áður en hún fer til vinnu á morgnanna. Er sannkölluð ofurkona.

Katla er mjög metnaðargjörn og dugleg í hverju sem hún tekur sér fyrir. Áður en hún fór að kenna uppvartaði hún á veitingastað en fékk nóg af erfiðum og óreglulegum vöktum, skipti um og fór að vinna í leikskóla sem vakti áhuga hennar á að kenna. Dreif sig því í Kennnaraháskólann sem hún lauk með glans. Vill þó bæta við sig námi svo að hún geti orðið skólastjóri án þess að eyða of miklum tíma í það. Telur að þá fái hún ráðið meiru. Katla veltir árunum í starfslok ekki fyrir sér því hún er ákveðin að vinna að minnsta kosti til sjötugs.

Vöruhúsið, vöruhús tækifæranna.is, kom upp í hendurnar á henni í spjalli við eina vinkonuna og hún byrjaði strax að leita að tækifærum til þess að ná settu markmiði, skólastjóranum.  Rekkinn Færni í Vöruhúsinu var augljóst val og hillan Nám og fræðsla. Katla taldi að nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands myndi henta henni best og til þess að færast ekki of mikið í fang þá ákvað hún að byrja á að fara í diplómanámið. Ef allt gengi vel gæti hún svo farið í meistaranám og fengið diplómanámið sitt metið til fulls þar. Í meistaranáminu gefst svo tækifæri að velja sér sérsvið eins og stjórnun menntastofnana en hver veit nema Katla færi sig um set og finni sér nýtt markmið?

Horft til lengri framtíðar þá langar Kötlu að láta reyna á hvort hún geti farið í nám eða til vinnu erlendis og horfir þá helst til Evrópu, sá Evrópusinni sem hún er. Og viti menn: Í Vöruhúsinu er einmitt upplagt tækifæri, Nám og vinna í Evrópu, í rekkanum Færni á hillunni Einstaklingsfærni. Tækifærið heitir Europass sem er fyrir alla sem vilja skjalfesta nám sitt eða reynslu innan 32 landa Evrópu. Þar er líka að finna gagnlegar upplýsingar fyrir þá sem eru að leita að námi og vinnu í Evrópu. Katla sér fram á bjarta tíma framundan og ný markmið að stefna að. Aldrei of seint að gera eitthvað í sínum málum!

Katla á stóra fjölskyldu en hefur ekki mikið samband við hana og kýs helst að nota tómstundir sem gefast til þess að rækta sjálfa sig og umgangast vini sína. Allt í góðu þó og foreldrar hennar duglegir að hringja og segja henni fréttir af fjölskyldunni og öllum nýju systkinabörnunum sem fæðast.

„Ég er fullorðinn en ekki fábjáni“

Sunnudaginn 13. febrúar 2022 flutti Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður, áhugaverðan pistil á Bylgjunni um eldri borgara á Spáni sem er ósáttur við þjónustu, eða réttara sagt skort á þjónustu, við eftirlaunaþega. Líkt og hér á landi hefur útibúum banka fækkað um nálægt 50% síðan 2008 og starfsmönnum þeirra um hátt í 60%. Á sama tíma hafa bankarnir dregið úr persónulegri þjónustu og beint viðskiptavinum sínum inn á Netið á meðan vaxtamunur og þjónustugjöld sem viðskiptavinir greiða hafa skapað bönkunum drjúga tekjulind. Á sama tíma og persónuleg þjónusta bankanna versnar skila bankarnir methagnaði.

„Ég er fullorðinn, en ég er ekki fábjáni“ sagði Carlos San Juan, eldri borgari á Spáni, sem er yfirskrift herferðar sem hann hefur stofnað til, til þess að þrýsta á banka landsins á að veita eldra fólki betri þjónustu. Um 600.000 manns hafa nú þegar tekið undir kröfur hans.

Í pistli sínum bendir Jóhann Hlíðar að munurinn á Spáni og Íslandi sé í reynd sá að á Spáni hefur þessi 78 ára gamli eftirlaunaþegi, Carlos San Juan, skorið upp herör gegn síversnandi þjónustu bankanna og krafist úrbóta. Svo vitnað sé í pistil Jóhanns: „Carlos segir að bankarnir séu afskaplega samhentir í að draga úr þjónustu við almenning. Hann segist oft upplifa niðurlægingu þegar hann biðji um aðstoð í bönkum, honum sé hreinlega svarað eins og hann sé fábjáni. Þá hegði bankarnir sér oft eins og eitt samhent einokunarfyrirtæki, svo samstíga séu þeir í að draga úr allri persónulegri þjónustu.“ Carlos minnir á það „að þegar öllu sé á botninn hvolft, þá séu þetta peningar fólksins, en ekki peningar sem bankarnir eigi.“

Herferð Carlosar hefur borið þann árangur að efnahagsmálaráðherra landsins boðaði hann á fund þar sem hann tilkynnti honum að stjórnvöld hefðu ákveðið að setja fjármálafyrirtækjum landsins úrslitakosti. „Fyrir næstu mánaðamót ber þeim að kynna aðgerðir sem tryggi að viðskiptavinir bankanna fái í framtíðinni betri og persónulegri þjónustu. Og bankarnir voru ekki lengi að bregðast við. Þegar, daginn eftir fund Carlosar og ráðherrans, lýsti talsmaður fjármálafyrirtækja því yfir að brugðist yrði við ákalli fjöldans og gerð gangskör að því að bæta þjónustu bankanna við eldra fólk.“

Íslenskir bankar hafa nú um nokkurt skeið dregið úr persónulegri þjónustu á svipaðan hátt og þeir spænsku. Eigum við hér á Íslandi ekki að láta heyra í okkur og taka undir með Carlosi?

Jóhann Hlíðar Harðarson

Viðburðir U3A Reykjavík í mars 2022

Frá vinstri: Einar Sveinbjörnsson, Guðrún Bjarnadóttir, Jón Björnsson, Þorleifur Friðriksson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Árni Kristjánsson og Vala Ósk Fríðudóttir.
Fjölbreyttir fyrirlestrar verða á dagskrá í mars eins og endranær en aðalfundur er sá viðburður sem hæst ber. Í samþykkt félagsins 8. gr. er kveðið á um aðalfund, þar segir:

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna. Hann skal haldinn í mars ár hvert og telst löglegur ef til hans er boðað rafrænt eða bréflega með minnst 15 daga fyrirvara. … Í fundarboði skal tilgreina dagskrá, tillögur að breytingum á samþykkt samtakanna, ásamt öðrum tillögum sem borist hafa og bera þarf undir atkvæði aðalfundar. Stjórn samtakanna skipuleggur og ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar. Allir skráðir félagar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

Nú er aftur hægt að bjóða gestum í sal í Hæðargarð til að njóta þess að hlýða á fyrirlestra og taka þátt í umræðum en jafnframt verður streymt eins og verið hefur og fyrirlestrarnir verða áfram aðgengilegir fyrir félagsmenn í viku eftir flutning.

Dagskrá í mars.

1. mars kemur til okkar Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og fjallar um loftslag og sveiflur í veðri frá fyrri tíð og setja í samhengi við hugmyndir manna um hlýnandi veðurfar og afleiðingar loftslagsbreyting hér á landi.

8. mars flytur Guðrún Bjarnadóttir, sálfræðingur og talkennari erindi sem hún nefnir: Læsi og lesblinda – rökstuddar vangaveltur.

10. mars lýkur námskeiðinu Gyðingar; saga, siðir og menning, sem Jón Björnsson og Þorleifur Friðriksson hafa haldið í vetur.
Í upphafi námskeiðsins var kynnt sú hugmynd að efna að því búnu til ferðar um slóðir Gyðinga í Evrópu ef áhugi væri á því hjá þátttakendum. Nú verður fundur haldinn í Hæðargarði 31 til að kanna þann áhuga og – ef svo fer – byrja á að undirbúa og skipuleggja þannig ferð.

15. mars kemur til okkar Hafdís Hanna Ægisdóttir, líffræðingur og segir m.a. frá kvennaferð á Suðurskautið.

22. mars verður aðalfundur U3A Reykjavík haldinn í Hæðargarði 31. Hann verður auglýstur með dagskrá skv. samþykkt félagsins.

29. mars koma til okkar Árni Kristjánsson og Vala Ósk Fríðudóttir frá Amnesty International. Þau ætla að kynna samtökin og fjalla um mannréttindi í víðum skilningi.

Menningarhópur áætlar að heimsækja Listasafn Einars Jónssonar í mars en heimsóknin hefur ekki verið dagsett enn.

Kíktu í Vöruhús tækifæranna

Vöruhús tækifæranna er markaðstorg tækifæra fólks á þriðja æviskeiðinu sem vill móta framtíðina á eigin forsendum.