fbpx

 

Hollvinasamtök Hraunbúa í Vestmannaeyjum hlutu viðurkenningu Öldrunarráðs árið 2023.

 

Árlega veitir Öldrunarráð Íslands sérstaka viðurkenningu til einstaklings, stofnunar eða félagasamtaka sem þykja hafa unnið einstakt starf tengt málefnum aldraðra. Síðustu tvö ár hafa einstaklingar hlotið þessa viðurkenningu, á síðasta ári var það Þórunn Sveinbjörnsdóttir fyrir hennar ötula starf í þágu aldraðra og enn er Þórunn að og árið þar á undan var það Þórný Þórarinsdóttir sem hlaut fjöreggið. Margar áhugaverðar tilnefningar bárust að þessu sinni og úr vöndu var að ráða eins og oft er.

Stjórn Öldrunarráðs Íslands var sammála um að fjöreggið, viðurkenningu Öldrunarráðs árið 2023, hlytu Hollvinasamtök Hraunbúða í Vestmannaeyjum. Sólveig Adolfsdóttir og Þór Vilhjálmsson, sem jafnframt er formaður Félags eldri borgara í Vestmannaeyjum, veittu egginu viðtöku fyrir hönd samtakanna.

Thelma Rós Tómasdóttir, Verkefnastjóri öldrunarþjónustu Vestmannaeyjabæjar sendi okkur tilnefninguna og lýsir svo vel hvers vegna Hollvinasamtökin eiga fjöreggið skilið 😊

Thelma skrifar:

Mig langar að tilnefna Hollvinasamtök Hraunbúða. Hollvinasamtökin eru félag sem styrkir hjúkrunarheimilið Hraunbúðir í Vestmannaeyjum með gjöfum og ýmsum viðburðum fyrir íbúa og aðstandendur. Tilgangur félagsins er að bæta aðstöðu og upplifun heimilisfólksins á Hraunbúðum. Samtökin standa fyrir árlegum viðburðum eins og vorhátíð, páskabingói, þrettándakaffi og sunnudagsbíltúrum. Til að bæta aðstöðu heimilisfólksins hefur félagið meðal annars gefið hjólastóla, loftdýnur, lífsmarkamæli, tæki til að taka hjartalínurit, nuddstól, hreyfiskynjara inn á hvert herbergi, sjónvarpskerfi, hátalarakerfi, spjaldtölvur og heyrnatól. Einnig sáu samtökin um að innrétta aðstandendaherbergi og hvíldarherbergi. En það sem samtökin hafa gert með heimilisfólki og aðstandendum á nýliðnu ári:

  • Þrettándagleði með kaffi, heitu súkkulaði og bakkelsi og þangað komu jólasveinar og verur úr þrettándagöngu bæjarins.
  • Páskaeggjabingó fyrir heimilisfólk og aðstandendur.
  • Vorhátíð með grilli, tónlistaratriði, happadrætti og fjöri.
  • Tveir tónlistarviðburðir í boði í goslokavikunni, þar á meðal Eyjólfur Kristjánsson.
  • Konukvöld/síðdegi með fatasölu, snyrtivörukynningu, tónlistaratriði og veitingum
  • Jólatónleikar, kaffi og meðlæti.
  • Jólahlaðborð og tónlistaratriði.
  • Jólaljósa bíltúr þar sem farið var með fólkið í rútu að skoða jólaljósin í bænum.

Þessi samtök eiga skilið viðurkenningu fyrir sitt góða og mikilvæga starf í þágu íbúa og aðstandenda heimilisfólksins á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum. Já svo sannarlega eiga þau skilið viðurkenningu og verð ég að segja að mikið er heimilisfólkið á Hraunbúðum heppið að eiga svo góða að. Svona hollvinasamtök ættu að vera fyrir hvert einasta hjúkrunarheimili og eru svo sannarlega til eftirbreytni. Til hamingju með viðurkenninguna og takk fyrir ykkar góða starf.

 

Viðurkenning og stjórn

Stjórn Öldrunarráðs og viðtakendur fjöreggsins, frá vinstri, Aríel Pétursson, Birna Sif Atladóttir, Jórunn Frímannsdóttir Jensen, Þór Vilhjálmssson, Sólveig Adolfsdóttir, Andrea Laufey Jónsdóttir, Helgi Pétursson, Margrét Árdís Ósvaldsdóttir og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir.