Ásgerður Guðmundsdóttir, sjúkraþjálfari og íþróttakennari, og Margrét Regína Grétarsdóttir, íþróttafræðingur, eru verkefnastjórar Bjarts lífsstíls. Ásgerður starfar fyrir hönd LEB og Margrét fyrir hönd ÍSÍ.
Heilsuefling eldra fólks
Fyrr á árinu fór fram ráðstefna um hreyfiúrræði fyrir 60+ undir merkjum Bjarts lífsstíls. Markmið hennar var að búa til vettvang fyrir þjálfara, skipuleggjendur og annað starfsfólk sem kemur að heilsueflingu fólks 60 ára og eldri.
Á næsta ári verður meðal annars lögð áhersla á samstarf við verkefnastjórn Gott að eldast sem er aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum eldra fólks. Ein af aðgerðunum í áætluninni snýr einmitt að alhliða heilsueflingu eldra fólks.
Verkefnastjórar munu einnig vera í sambandi við þá staði sem heimsóttir voru árið 2023 og styðja þá við að taka næstu skref við að efla heilsulæsi og þjálfun eldra fólks. Áhersla verður meðal annars lögð á þau svæði sem ekki bjóða upp á skipulagða hreyfingu fyrir eldra fólk og að veita enn frekari aðstoð þeim byggðakjörnum sem komið hafa á laggirnar nýjum hreyfiúrræðum.
Þá verður áhersla lögð á að skoða fjölbreyttari leiðir til að nálgast þá hópa sem hafa ekki fundið sig í þeim úrræðum sem í boði eru.