Forsætisráðuneytið í samvinnu við embætti landlæknis, Reykjavíkurborg, samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila stendur að velsældarþingi: alþjóðlegri ráðstefnu um velsældarhagkerfið og sjálfbærnir, Wellbeing Economy Forum, í Hörpu 14.-15. júní nk.
Undanfarin ár hefur Ísland verið virkur þátttakandi í samstarfi velsældarríkja (Wellbeing Economy Governments). Stjórnvöld hafa lagt aukna áherslu á velsæld og sjálfbærni í stefnumótun m.a. með mótun velsældarvísa og -áherslna auk umfangsmikillar stefnumótunar á sviði sjálfbærni til að auka lífsgæði almennings og komandi kynslóða.
Markmið velsældarþingsins er að efla samstarf ríkja um velsældarhagkerfi og sjálfbærni og umræðu opinberra aðila, atvinnulífs og almennings um mikilvægi þessara mála til framtíðar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Neil Gray, menningar- og Evrópumálaráðherra á Skotlandi eru meðal þátttakenda á ráðstefnunni. Hátt í þrjátíu fyrirlesarar úr röðum leiðandi fræðimanna, stjórnmálamanna og sérfræðinga munu taka til máls á ráðstefnunni m.a. um samþættingu velsældaráherslna við opinbera fjárlagagerð, tengsl heilsu og velsældar, tölfræði og mælikvarða um sjálfbærni og hlutverk stjórnvalda annars vegar og atvinnulífs hins vegar. Á meðal þeirra er Dr. Hans Kluge, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu, Lord Richard Layard, stofnandi og framkvæmdastjóri þverfaglegs rannsóknaseturs við London School of Economics um efnahagsmál og hagsæld og höfundur metsölubóka um tengsl efnahagslegrar framþróunar og hamingju almennings. Einnig taka þátt Kate Pickett prófessor í faraldsfræði við háskólann í York og Richard Wilkinson heiðursprófessor í félagslegri faraldsfræði við háskólann í Nottingham.
Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis og öllum opin.
Á vefsvæðinu wellbeingeconomyforum.is má sjá dagskrá, nánari upplýsingar um fyrirlesara og skráningu í málsstofur og málsverði.
Skráning á velsældarþingið og vinnustofur: https://tix.is/is/harpa/buyingflow/tickets/15587/
Skráning á hátíðarkvöldverð: https://tix.is/is/buyingflow/tickets/15584/
Athugið að skráningu í kvöldverðinn lýkur þann 7.júní.