Heilbrigðisráðuneytið birtir hér með aðgerðaáætlun í þjónustu við fólk með heilabilun til ársins 2025.
„Þetta er í fyrsta sinn sem sett er fram opinber stefna í þessum mikilvæga málaflokki hér á landi og löngu tímabært“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Áætlunin tekur til sex málefnasviða og í henni eru skilgreindar 48 aðgerðir sem hver um sig er með tiltekin mælanleg markmið. Nokkrum þessara aðgerða hefur þegar verið hrint í framkvæmd, þar sem farið var að vinna á grundvelli stefnumótunarvinnunnar fljótlega eftir að Jón Snædal skilaði vinnu sinni með ýtarlegri skýrslu. Allar þær aðgerðir sem fram koma í áætluninni eiga rætur í skýrslu Jóns og umsögnum sem um hana bárust í samráðsgátt.
Þau málefnasvið sem tekin eru fyrir í aðgerðaáætluninni eru:
- Sjálfsákvörðunarréttur, þátttaka sjúklinga og lagaleg umgjörð.
- Forvarnir.
- Tímanleg greining á heilabilun á réttum stað og eftirfylgni eftir greiningu.
- Virkni, sjálfshjálp og stuðningur.
- Rétt þjónusta miðað við stig heilabilunar.
- Umfang, rannsóknir, þekking og hæfni.
Undir hverju málefnasviði eru birtar áherslur ráðherra, þær aðgerðir sem ákveðið hefur verið að ráðast í, áhrif þeirra á samfélagið og framtíðarsýn.