fbpx

Samráðshópurinn ásamt ráðherra - mynd

 

 

Samráðshópur notenda sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um áformaðar breytingar á lögum um réttindi sjúklinga varðandi beitingu nauðungar hefur skilað ráðherra niðurstöðum sínum. Hópnum var falið að fjalla um frumvarp þessa efnis sem tvívegis hefur verið lagt fram á Alþingi en ekki náð fram að ganga. Tillögur samráðshópsins miða allar að því að þrengja heimildir til beitingu nauðungar frá fyrra frumvarpi og setja auknar skorður miðað við framkvæmdina eins og hún er í  dag. Hópurinn ítrekar þá meginreglu að fólk skuli ráða meðferð sinni sjálft og að dregið verði markvisst úr beitingu nauðungar í heilbrigðisþjónustu.Teljist óhjákvæmilegt að beita nauðung verður skylt að sækja fyrir fram um undanþágu til lögskipaðs sérfræðiteymis samkvæmt tillögum samráðshópsins. Beiting nauðungar skal byggð skýrum reglum sem kveða á um einstaklingsbundið mat á aðstæðum, verklag framkvæmdar, tilkynningarskyldu til eftirlitsaðila og kæruleið.Hópurinn telur að í neyðartilvikum geti beiting nauðungar verið óhjákvæmileg til að uppfylla lífsnauðsynlegar þarfir sjúklings eða tryggja öryggi hans. Hafi nauðung verið beitt í neyðartilviki ber að tilkynna það til sérfræðiteymisins. Hópurinn leggur einnig til aukna aðkomu notenda að sérfræðiteyminu þannig að þrír af sjö fulltrúum þess verða fulltrúar notenda í stað eins áður. Enn fremur er lagt til að sjúklingar eigi rétt á úrvinnslumeðferð eftir beitingu nauðungar.Í vinnu hópsins um takmarkanir á beitingu nauðungar var sérstaklega horft til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og Evrópusamnings um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Í meðfylgjandi skilabréfi starfshópsins er fjallað um hvernig starfi hans var háttað og gerð grein fyrir öllum tillögum hans til breytinga á fyrrnefndu frumvarpi. Hópurinn viðhafði það verklag að ræða allar athugasemdir sem fram komu á fundum hans og komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvort og þá hvaða breytingar á frumvarpinu yrðu lagðar til í ljósi athugasemdina. Niðurstöður starfshópsins eru því sameiginlegar allra sem í honum áttu sæti.

Gert er ráð fyrir að drög að frumvarpi til breytinga á lögum um réttindi sjúklinga varðandi takmörk á beitingu nauðungar verði birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda fljótlega eftir áramót.

 

Fulltrúi LEB í starfshópnum var Sigrún Huld Þorgrímsdóttir