fbpx
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segist undrandi á því að ekki sé tekið á fátækt eldri borgara í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þar er gert ráð fyrir að lífeyristekjur hækki um 3,6 prósent. Þórunn segir það ekki í samræmi við launaþróun. „Með því að fara þessa leið er kjaragliðnun sívaxandi,“ segir hún.

Þórunn segir eldri borgara dragast aftur úr kjörum annarra hópa í samfélaginu og við því þurfi að bregðast. Þá búi um þrjú þúsund og átta hundruð þeirra við sárafátækt. „Ég er undrandi á því miðað við hvað það er verið að setja mikla björgunarpeninga hér og þar og alls staðar núna  að menn bretti ekki upp ermarnar og taki á fátæktinni.“

Hún segir að stjórnvöld hafi ekki komið til móts við eldri borgara á síðustu árum. Það sé sérstaklega mikilvægt núna vegna kórónuveirufaraldursins og einangrunar hópsins.

„Mér hefur hann fundist vera gleymdur hjá þessar ríkisstjórn. Landið okkar reiðir sig á okkar vinnu og krafta. Þetta eru 45 þúsund manns. Mjög stór hópur er enn vinnandi og er að leggja mikið til í neyslu og samfélagslegri vinnu gagnvart börnum og barnabörnum. Við eigum betra skilið,“ segir Þórunn.

 

Fréttin birtist fyrst á RÚV

Hér má lesa ályktun LEB um fjárlagafrumvarp ríkiststjórnarinnar