fbpx
Formaður Landssambands eldri borgara segir kjaragliðnun hafa orðið og eldri borgarar hafi setið eftir. Þeir verst settu búi við fátækt. Ef ekki væri COVID væru eldri borgarar mættir á Austurvöll.

Stjórn Landssambands eldri borgara mótmælir harðlega að ellilífleyrir hækki aðeins um 3,6% samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður sambandsins segir að samkvæmt lögum skuli ellilífeyrir hækka í samræmi við launaþróun, en þó aldrei lakar en verðlagsþróun, en stjórnvöld hafi stundað það að velja lakari leiðina þegar að uppgjöri kemur.  Þórunn telur að hækkunin eigi að vera á milli 6 og 7%, hækkunin sé því um helmingur þess sem ætti að vera.

„Já, við teljum það og við erum búin að berjast fyrir þessu inni á fundum, bæði með ráðherrum og fleirum, um að okkur finnist að það þurfi að hreinsa til í því að hafa ekki  reglugerð sem talar í báðar áttir,“ segir Þórunn.

Í ályktun stjórnar landssambandsins er skýlaus krafa um að ellilífeyrir hækki um 15.750 krónur frá áramótum, eins og laun almennt.

„Það er enginn að minnast á það gagnvart öldruðum, ekki einu orði.“

Að sögn Þórunnar þýðir fyrirhuguð 3,6% hækkun ellilífeyris hækkun grunnlífeyris upp á 9.244 krónur. Hún segir að síðan almannatryggingakerfið var tekið í gegn árið 2017, sem hafi komið mörgum vel, hafi orðið mikil kjaragliðnun.

„Okkur finnst okkur hafi verið haldið niðri alveg frá þeim tíma því það hafa allir verið að fá launahækkanir, alveg sama hver er í samfélaginu og þó ráðherrarnir mest, að það sé bara óviðunandi að einn hópur sé skilinn eftir og þetta er nú enginn smá hópur, þetta eru 45 þúsund manns sem er bara ekki hress með það að vera ekki jafn gildur öðrum. Þetta er hins vegar ekkert mjög dýrt vegna þess að við borgum það mikla skatta. Það hefur komið fram í rannsóknum að eldri borgarar borga það mikla skatta, bæði af þessu og lífeyristekjum, að ríkið kemur nánst kvitt út úr þessu.“

Þórunn bendir á að skattalækkanir taka gildi um áramót, en þær fái allir og því haldist bilið. Hún segir greiningu á kjörum eldri borgara sýna að verst setti hóparnir búi við fátækt, sem ekki sé líðandi.

„Ef það væri ekki COVID þá væru eldri borgarar komnir niður á Austurvöll.“