fbpx

 

Við sem erum svo heppin að búa hér í A-Hún., höfum fyrir margt að þakka. Mannlíf er hér gott, samgöngur betri en víða annarsstaðar, við höfum ekki verið hrelld af stórkostlegum náttúruhamförum, þótt við fengjum að kenna á stórviðrum fyrir rúmu ári.

Ég tilheyri þeim 18% íbúa Sveitarfélagsins Blönduóss sem eru í hópnum 67 ára og eldri. Sá hópur er einu prósentustigi stærri en hópur grunnskólabarna á aldrinum 6-16 ára. Svipuð skipting er í öðrum sveitarfélögum í sýslunni,  nema Skagabyggð,  þar sem hóparnir eru hlutfallslega jafnstórir. Auðvitað væri það æskilegra að ungi hópurinn væri stærri, en svona er staðan nú. Hópur 67 ára og eldri er þó alls ekki einsleitur, margir eru enn á vinnumarkaði og  þarna erum við að tala um 30 ára aldursbil á fólki.

Sveitarfélögin hafa vissar lögbundnar skyldur gagnvart þeim hóp sem í eftirfarandi lagagrein eru kallaðir samheitinu „aldraðir“ án nánari skilgreiningar á  aldri eða ástandi, í  lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991:

„40. gr.]1) Sveitarstjórn skal sjá um að félagsþjónusta aldraðra sé fyrir hendi í sveitarfélaginu eftir þörfum. Hér er m.a. átt við heimaþjónustu, félagsráðgjöf og heimsendingu matar. Jafnframt skal tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi. Í því sambandi skal lögð sérstök áhersla á fræðslu og námskeiðahald um réttindi aldraðra og aðlögun að breyttum aðstæðum sem fylgja því að hætta þátttöku á vinnumarkaði.“

Ég held að það megi segja með réttu að fólk á aldrinum 70+ sé almennt betur á sig komið nú en fyrir 30-40 árum og þarf kannski ekki að fara svo langt aftur. Þessi 30 ára gömlu lög eru svo sannarlega barn síns tíma og  þau þarfnast mikillar endurskoðunar.

Íbúar hér eru svo heppnir að hafa góða heilsugæslu og sjúkrastofnun og þar er umönnun og þjónusta við aldrað fólk góð.

En þarfir þeirra sem þurfa ekki á sjúkrahúsvist að halda eða sérhæfðri þjónustu eru allt aðrar hvað varðar bæði félagsstarf og heilsueflingu.  Sú umgerð sem þótti góð á sínum tíma  mætir ekki kröfum dagsins í dag. Þá er ég einkum að vísa til  starfssemi sveitarfélaganna og þjónustu þeirra við þennan hóp.

Lengi hefur verið starfrækt tómstundastarf bæði á Blönduósi og Skagaströnd með áherslu á hannyrðir og spilamennsku, og hefur þar verið unnið gott starf. Markvisst starf til heilsueflingar hefur hins vegar ekki verið til staðar nema að litlu leyti. Það er staðreynd að þeir sem stunda hreyfingu og styrktarþjálfun af einhverju tagi vinna á móti hnignun líkamans og seinka elli ef svo má segja. Auðvitað gerir fólk margt á eigin spýtur og á að gera en það, en hið sama gildir um þennan hóp og  aðra að skipuleg þjálfun, æfingar og leiðbeiningar eru nauðsynlegar til að virkja fólk og árangur náist.

Nú er heilbrigðisráðuneytið í samstarfi við sveitarfélögin og fleiri aðila að hrinda af stað framtíðarstefnu í þeim efnum með aðkomu heilsueflandi samfélags sem a.m.k Blönduóssbær er  aðili að.

Þar er lagt til að sveitarfélögin innleiði með markvissum hætti starf sem felur í sér skipulega þjálfun og aukið heilsulæsi aldraðra. Það er hægt að gera með margvíslegum hætti og hafa nokkur sveitarfélög þegar verið í slíku samstarfi við  Janus endurhæfingu ehf.  Ég hef sem formaður Félags eldri borgara í A-Hún. ritað sveitarstjórnum um þessi efni og bent á að betur megi gera.

Mörg sveitarfélög standa mjög myndarlega að félags og tómstundastarfi aldraðra í samvinnu við félög eldri borgara á svæðinu.

Þar er boðið upp á fjölbreytta starfsemi flesta daga vikunnar, bæði hreyfingu ýmiskonar og handavinnu, smíðar, söng og dans, spilamennsku o.fl.

En þá þarf að vera til staðar heppilegt húsnæði fyrir þá starfsemi, og aðgengi þessa hóps að því.

Félag eldri borgara í Húnaþingi hefur verið í góðu samstarfi við Félagsstarf Blönduóssbæjar og þeir aðilar eru sammála um að bæta þurfi aðstöðu og starfsemi eldri borgara hér.

Félagið sjálft hefur staðið fyrir lengri og skemmri ferðum fyrir félagsmenn, leikfimi fyrir eldri borgara og skemmtifundum, en allt starf hefur legið niðri í nær því ár vegna Covid.

Félagið er einnig aðili að málssókn Gráa hersins gegn ríkinu vegna óhóflegra skerðinga á greiðslum Tryggingarstofnunar ríkisins vegna lífeyristekna, þar að standa flest eldriborgarafélög landsins.

Húnavatnshreppur og Blönduóssbær hafa styrkt félagið með framlögum og það ber að þakka, því lítið félag stendur ekki undir góðu starfi á lágum félagsgjöldum einum saman.

Gott fólk, við erum góðir og virkir borgarar í okkar samfélögum þótt  kennitalan sé kannski frá fyrri hluta síðustu aldar. Margir eru enn við ýmis störf þótt formlegri launavinnu sé lokið og öll viljum við taka þátt í okkar samfélagi. Við viljum stuðning okkar sveitarfélaga til að viðhalda okkar heilsu bæði andlegri og líkamlegri  sem lengst. Það er raunverulegur sparnaður fyrir bæði sveitarfélög og ríki. Og eykur lífsgæði eldri kynslóða verulega.

Í sumum sveitarfélögum eiga fulltrúar eldri borgara sæti í  íþrótta og tómstundaráðum og annarri starfsemi sveitarfélaganna.

Við erum stækkandi hópur í sveitarfélögum hér eins og annarsstaðar og þurfum okkar vettvang og  rödd í samfélaginu.

Ásgerður Pálsdóttir
Geitaskarði
Formaður Félags eldri borgara í Húnaþingi

 

Ásgerður Pálsdóttir