fbpx

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB, 8. apríl 2020 á upplýsingafundi almannavarna

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB – Landssambands eldri borgara, var gestur á upplýsingafundi almannavarna sem var útvarpað og sjónvarpað beint miðvikudaginn 8. apríl kl. 14.00. Fundurinn að þessu sinni var sá 32. í röðinni.

Hér er farið yfir það helsta sem Þórunn talaði um á fundinum.

Einmanaleiki eldri borgara er að verða dálítið djúpstæður, sagði Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, á daglegum upplýsingafundi Almannavarna í dag. Hún segir tæknina skipta sköpum nú þegar margir eldri borgarar geti ekki hitt ástvini sína.

Eldra borgarar eru í áhættuhópi þegar kemur að COVID-19 og því eru margir þeirra í sjálfskipaðri sóttkví, aðrir dvelja á hjúkrunarheimilum þar sem heimsóknir eru ekki leyfðar á meðan faraldurinn gengur yfir. „Það sem við finnum mest fyrir er einmanaleikinn. Hann er að verða dálítið djúpstæður, hættulegur og það kallar á aðgerðir,“ sagði Þórunn á fundinum í dag.

Mikil tækifæri til að nýta tæknina við velferðarþjónustu

Veirufaraldurinn hefur breytt mörgu og segir Þórunn að fólk sé nú tilbúnara til að nýta tæknina við velferðarþjónustu, til dæmis til að spjalla við eldri borgara með hjálp snjalltækja. Mörg hjúkrunarheimili hafi fengið spjaldtölvur gefins og hafi það bjargað heilsu fólks og aðstandenda að geta spjallað saman með þeirri tækni. Þá sagði Þórunn frá verkefni á vegum Reykjavíkurborgar sem felur í sér að fólk, sem er eldra en 80 ára og býr eitt, eignist símavin. Hringt var í yfir 800 manns og voru á milli 100 og 200 sem þáðu að eignast slíkan vin.

Landssambandið hefur látið gera kennslubækling um notkun spjaldtölva, bæði fyrir Android og Apple og hafa þegar 700 til 800 bæklingar verið sendir út.

HÉR er hægt að kynna sér frekar bæklingana og hvernig er hægt að panta þá.

 

Hvetur fólk til að sinna sínum nánustu

Mörg símtöl berast í hjálparsíma Rauða krossins 1717 og segir Þórunn að oft séu þetta erfið símtöl sem gefi til kynna að fólk verði að bretta upp ermar og sinna sínum nánustu betur. „Það er bara engin spurning, eitt símtal getur breytt lífi.“ Þá sé einnig ánægjulegt að heyra af því sem einn símavinur sagði, að hann sé farinn að heyra í fólki sem hann hefur ekki heyrt í lengi, jafnvel í fjögur til fimm ár. Það sé sérstaklega mikilvægt að halda sambandi við fólk sem sé hætt að vinna. Í síðustu krísu, efnahagshruninu árið 2008, hafi það verið fólkið sem er nú eldri borgarar sem hafi í mörgum tilvikum komið þeim yngri til hjálpar. Nú sé komið að því að snúa dæminu við. Nú þarf að huga að afa og ömmu.

 

Fjöldi eldri borgara horfir daglega á upplýsingafundi

Hún hrósaði þríeykinu, Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá Ríkislögreglustjóra, Ölmu Möller, landlækni og Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni, fyrir frammistöðu þeirra á upplýsingafundunum, eldri borgarar hlusti daglega. „Þetta er bara orðið eins og Dallas, aðalþátturinn,“ sagði formaðurinn og vísaði til bandarísku sjónvarpsþáttanna sem voru mjög vinsælir á níunda áratugnum. Hún segir þessa upplýsingafundur afar mikilvæga fyrir eldri borgara sem telji yfir 50.000.

 

HÉR er slóð á þátt Þórunnar í þættinum