fbpx

 

Helgi Pétursson, formaður Landsambands eldri borgara.

 

 

Mikill meirihluti telur að illa sé staðið að málefnum eldri borgara þegar kemur að hjúkrunarheimilum. Formaður LEB segir niðurstöðuna ekki koma á óvart.

 

Stór meirihluti svarenda, 81,5 prósent, telur frekar eða mjög illa staðið að málefnum eldri borgara á Íslandi þegar kemur að hjúkrunarheimilum, samkvæmt nýrri könnun sem unnin var af Prósenti, áður Senter rannsóknum, fyrir Fréttablaðið.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að einungis 0,7 prósent svarenda telji að mjög vel sé staðið að málefnum eldri borgara þegar kemur að hjúkrunarheimilum og 6,4 prósent frekar vel. Úrtak rannsóknarinnar voru 2.500 einstaklingar átján ára og eldri og var svarhlutfall 60 prósent.

Fleiri konur en karlar telja frekar eða mjög illa staðið að málefnum eldri borgara á hjúkrunarheimilum eða 85 prósent svarandi kvenna á móti 77 prósentum karla.

 

 

Aðein 7,1% telur frekar eða mjög vel staðið að málefnum eldri borgara.

Þegar litið er til aldurs telja tíu prósent svarenda á aldrinum 18-24 ára að mjög eða frekar vel sé staðið að málefnum eldri borgara þegar kemur að hjúkrunarheimilum og átján prósent taka ekki afstöðu til málefnisins í þeim aldurshópi. Í aldurshópunum 35-44 ára og 45-54 ára telja sex prósent að frekar eða vel sé staðið að málefninu.

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara (LEB), segir niðurstöður könnunarinnar ekki koma sér á óvart. „Það er bara verið að gefa frat í þetta kerfi,“ segir Helgi. „Það er eins og stjórnmálafólkið og krakkarnir sem eru að fara með peningana hérna fatti þetta ekki,“ bætir hann við og vísar til stöðu hjúkrunarheimila á Íslandi.

„Staða hjúkrunarheimila er vandamál sem hefur horft ískalt framan í okkur lengi, það eru allir búnir að benda á þetta vandamál og það er með ólíkindum að enginn ætli að taka á þessu,“ segir Helgi.

Spurður að því hvað sé til ráða til að bæta stöðu eldri borgara þegar kemur að hjúkrunarheimilum, segir Helgi að meðal annars þurfi að brúa bilið milli þess sem fólk býr enn heima hjá sér og á hjúkrunarheimili. Búseta á eigin heimili henti ekki öllum þó þeir þurfi ekki á hjúkrunarheimili. „Búsetuúrræði fyrir eldra fólk eru ekki nógu fjölbreytt.“

Þá segir Helgi það geta verið kvíðavaldandi fyrir fólk að vita að þeirra „næsta stopp“ sé hjúkrunarheimili þar sem fólk telji ekki vel staðið að málefnum þeirra. „Þetta getur valdið fólki miklum áhyggjum, sjálfur er ég 72 ára og ef ég á ekkert eftir nema þetta þá líst mér ekki á það,“ segir Helgi.

 

  • Greinin birtist í Fréttablaðinu, fimmtudag 8. júlí 2021. Blaðamaður: Birna Dröfn Jónasóttir