fbpx

Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og ólympíusambands Íslands hefst miðvikudaginn 5. febrúar. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til að huga að hreyfingu og auka hana eins og kostur er, bæði í daglegu lífi, t.d. við val á ferðamáta, sem og í frístundum. Nánari upplýsingar eru á www.lifshlaupid.is.“

Hreyfum okkur!

Alma Dagbjört Möller landlæknir skrifar pistil í Fréttablaðið þriðjudaginn 4. febrúar 2020. Þar segir hún m.a.:

„Ástæða er til að hvetja þá sem þess eiga kost, að taka þátt. Regluleg hreyfing er nefnilega einn af hornsteinum heilsu og heldur gildi sínu ævina á enda. Hreyfing minnkar líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum, þunglyndi, sykursýki tvö og sumum krabbameinum. Þá styrkir hreyfing stoðkerfið, bætir andlega líðan, auðveldar okkur að halda kjörþyngd og eykur almennt líkurnar á að fólk lifi lengur og lifi sjálfstæðu lífi. Hreyfing hefur þannig mikið gildi sem forvörn og heilsuefling en er jafnframt æ meira notuð sem meðferð, t.d. á formi hreyfiseðla sem ávísað er í heilsugæslunni gegn fjölda kvilla; sykursýki, háþrýstingi, þunglyndi, beinþynningu og langvinnum verkjum meðal annars.

Samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis ættu fullorðnir að hreyfa sig rösklega í minnst 30 mínútur daglega, best er auðvitað að velja hreyfingu sem maður hefur ánægju af. Heildartímanum má skipta í styttri tímabil, t.d. 10-15 mínútur í senn. Til viðbótar er æskilegt að erfiða við hreyfingu að minnsta kosti tvisvar í viku, 20-30 mínútur í senn en það bætir enn frekar þol, vöðvastyrk, liðleika, jafnvægi og beinheilsu. Börn og unglingar eiga að hreyfa sig af ákefð í a.m.k. klukkustund daglega, þar sem leiðarljósið er fjölbreytni og gleði.

Fyrir þá sem eru að byrja að hreyfa sig eru raunhæf markmið, hæfilegur stígandi í álagi og góð beiting líkamans mikilvæg atriði. Forðast skal að gera óraunhæfar væntingar og valda líkamanum of miklu álagi sem leitt getur til meiðsla. Lesa má um hreyfingu á landlaeknir.is og á heilsuvera.is.

Kæru landsmenn, takið þátt í Lífshlaupinu þið sem þess eigið kost. Öll hreyfing hefur áhrif og það er aldrei of seint að byrja.“