Um réttarstöðu eldra fólks.
Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gefið út ritið Réttarstaða eldra fólks. Ritið er aðeins
að finna á rafrænu formi en framkvæmdastjórn skrifstofunnar ákvað árið 2012 að gefa rit
skrifstofunnar framvegis út á netinu. Var ákvörðunin fyrst og fremst tekin á grundvelli
umhverfisverndarsjónarmiða.
Í upphafi ritsins er fjallað um þróun löggjafar í málefnum eldra fólks, bæði innlenda og
alþjóðlega. Þá kemur kafli um réttaröryggi eldra fólks þar sem fjallað er m.a. um
stjórnskipulag málefna eldra fólks, mannréttindi eldra fólks og úrræði til að tryggja
réttaröryggi þeirra.
Ritinu er svo skipt í kafla eftir einstökum réttindum, svo sem réttinum til
framfærslu- og félagsþjónustu og réttinum til heilbrigðisþjónustu. Inntak réttarins er svo
skilgreint út frá þeim innlendu og erlendu réttarheimildum sem við eiga þar sem sérstök
áhersla er lögð á að draga fram þær réttarheimildir sem lúta að eldra fólki.
Sú umræða hefur lengi farið fram innan Sameinuðu þjóðanna að þörf sé á sérstökum
mannréttindasamningi sem fjalli um réttindi eldra fólks en það verður oft fyrir mismunun á grundvelli aldurs.
Síðasta áratuginn hefur þessi umræða magnast enn frekar og telja nú margir
að slíkur samningur muni verða næsti stóri samningur á vegum Sameinuðu þjóðanna um
mannréttindi. Markmiðið með gerð slíks samnings er að koma heildarmynd á brotakennd
ákvæði um réttindi eldra fólks og leggja einkum áherslu á þau réttindi sem þeim eru
sérstaklega mikilvæg. Slíkur samningur er einnig mikilvægur til að tryggja að eldra fólk fái
réttindum sínum framfylgt. Í ljósi þess að þjóðir heimsins verða sífellt eldri munu fleiri
einstaklingar eiga á hættu í framtíðinni að verða fyrir mismunun á grundvelli aldurs. Því
skiptir máli að stjórnvöld aðildarríkja bregðist sem fyrst við og standi að
mannréttindasamningi er taki til réttinda eldra fólks.
Á meðal þess sem bent hefur verið á að slíkur samningur myndi hafa í för með sér er að
draga úr mismunun á grundvelli aldurs, vekja athygli á þeirri mismunun sem eldra fólk
verður oft fyrir og leggja þær skyldur á aðildarríki að setja sér lög um bann við mismunun.
Slíkur samningur myndi einnig stuðla að því að aldraðir einstaklingar lifðu lífi sínu af
virðingu (e. with dignity) og setja fram lagalega bindandi lágmarksviðmið um vernd eldra
fólks samkvæmt alþjóðalögum.
Þá myndi sérstakur samningur um réttindi eldra fólks setja
fram ákveðinn ramma til leiðbeiningar þegar kemur að stefnumótun aðildarríkja innan
málaflokksins og stuðla að betri þróun á þjónustu við eldra fólk og þjálfun viðeigandi
fagaðila og heilbrigðisstarfsfólks.
Ýmsir aðilar telja Covid-19 og það ástand sem skapast hefur í heiminum vegna veirunnar
endurspegla enn frekar þörfina fyrir sérstakan samning um réttindi eldra fólks.
Ástandið hafi sýnt fram á hve illa geti farið séu mannréttindi einstaklinga ekki tryggð með fullnægjandi hætti.
Þannig hafi ástandið vegna Covid-19 komið sérstaklega illa niður á öldruðum
einstaklingum þar sem ekki hefur verið komið nægilega til móts við þarfir þeirra og þeim
mismunað. Alþjóðlegur samningur um réttindi eldra fólks myndi stuðla að betri
stefnumótunum, setja sjónarmið um virðingu fyrir öllum einstaklingum í forgang og tryggja að eldra fólk geti lifað lífi sínu með sem bestum hætti.
Ritið um réttarstöðu eldra fólks er að finna HÉR.
Réttarstaða eldra fólks