fbpx
Samráðshópur um starfsemi hjúkrunarheimila og dagdvalar á kórónuveirutímum mælist til þess að íbúar á slíkum heimilum fari ekki í boð til ættingja og vandamanna yfir komandi jólahátíð. Kjósi þeir að gera það þurfa þeir að fara í sóttkví hjá ættingja áður en þeir geta snúið aftur á hjúkrunarheimilin.

Leiðbeiningar voru sendar út til hjúkrunarheimila í gær varðandi jólahátíðina. Þar er tekið fram að ef íbúar fara út af hjúkrunarheimilum í boð þurfi fólk að fara bæði í sóttkví og sýnatöku að henni lokinni áður en heimild fæst til að snúa aftur.

Heimsóknir verða takmarkaðar á hjúkrunar og dvalarheimilum yfir jólin eins og verið hefur. Miðað er við að einn til tveir komi í heimsókn á dag og mega þeir aðeins dvelja inni á herbergjum, ekki í almennum rýmum. Þá eru heimsóknir ekki leyfðar á matmálstímum og gildir það einnig yfir hátíðardagana.