fbpx


Stjórn LEB og kjaranefnd LEB og FEB í Reykjavík hafa sent alþingismönnum eftirfarandi ályktun ásamt greinagerð:

Stjórn  LEB leggur á það höfuðáherslu að bæta þarf kjör þeirra eldri borgara sem njóta lítilla sem engra réttinda úr lífeyrissjóðum eða hafa lítil réttindi hjá Tryggingastofnun ríkisins. Einnig er nauðsynlegt að bæta kjör þeirra eldri borgara sem ná ekki lágmarkslaunum í landinu.

Stjórn LEB bendir á að áunnin réttindi í lífeyrissjóðum skerðast ekki,allir eldri borgarar fá greiðslur í samræmi við áunnin réttindi. Aftur á móti skerðast greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins ef aðrar tekjur en atvinnutekjur fara  yfir 25 þúsund krónur á mánuði, s.s.tekjur úr lífeyrissjóðum. Þeir sem hafa yfir 595.642 kr.  á mánuði í tekjur fá engar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Stjórn LEB leggur áherslu á að þessu þarf að breyta. Besta leiðin til að bæta kjör lífeyrisþega er að hækka almenna frítekjumarkið úr 25 þúsund krónur á mánuði í 100 þúsund krónur. Þessi ráðstöfun kemur sér betur fyrir þá sem lægri hafa greiðslurnar, heldur en að skerðingarprósenta sé lækkuð.

Frítekjumark atvinnutekna er nú 100 þúsund krónur á mánuði og hefur ekki tekið breytingum launavísitölu. Nauðsynlegt er að stjórnvöld lagi það. Almenna frítekjumarkið fari í 100 þúsund krónur á mánuði og fylgi svo vísitölubreytingu.

Stjórn LEB ítrekar að tillögur hennar miðast fyrst og fremst við að bæta hag þeirra sem lægri hafa tekjurnar. Þess vegna er hægt að fallast á að þeir sem hafa meira en 595.642 kr. á mánuði fái ekki greiðlsur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins á að vera að tryggja þeim lífeyrisþegum sem ekki hafa háar tekjur að bæta þeirra kjör.

Stjórn LEB  bendir á að síðustu ár hafa breytingar á greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins um áramót ekki fylgt þróun launavisitölu, heldur neysluvísitölu, samkvæmt ákvörðun Alþingis. Á síðustu þremur árum vantar um 10% til að lífeyrsiþegar, sem fá greiðslur frá Tryggingastonun ríkisins fylgi launaþróun í landinu.

Þessu verður að breyta. Stjórn LEB skorar á Alþingi að þessu verði breytt. Breytingar á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun fylgi ávallt breytingum á launavísitölu og skal það koma til framkvæmda 1. janúiar og 1. júlí ár hvert.

Hér er síðan greinagerð formanns kjaranefndar LEB og FEB í Reykjavík:

Greiðslur frá Lífeyrissjóðum skerðast ekki.

Á starfsævinni leggja launþegar hluta tekna sinni í lífeyrissjóð ásamt mótframlagi frá atvinnurekanda. Launþegar ávinna sér þar með ákveðinn réttindi til lífeyrisgreiðslna eftir að starfsævi lýkur. Það getur verið misjafnt eftir lífeyrissjóðum hve mikil þau réttindi eru.

Því er nú haldið fram  af sumum að stjórnvöld skerði þessi réttindi eftirlaunaþega og bent á að inneign í lífeyrissjóði séu stjórnarskrárvarin réttindi. Rétt er að benda á að réttindi í lífeyrissjóði skerðast ekki. Allir sem hafa áunnið sér réttindi í lífeyrissjóði fá greiðslur úr lífeyrissjóði í samræmi við þau réttindi sem menn hafa áunnið sér. Þetta er grundvallaratriði í umræðunni.

Hvert á hluverk Tryggingastofnunar ríkisins að vera.

Aftur á móti hafa greiðslur úr lífeyreissjóði áhrif á það hversu háar greiðslur frá TR eru. Eins og staðan er núna má lífeyrisþegi vinna sér inn 100 þúsund krónur á mánuði án þess að það skerði greiðslur frá TR. Þessi tala hefur ekki tekið neinum breytingum síðustu árin. Það hlýtur að vera krafa frá LEB að þessi upphæð taki breytingum í samræmi við þróun launavísitölu.

Almenna frítekjumarkið er nú 25 þúsund krónur á mánuði. Tekjur frá lífeyrssjóði og fjármagnstekjur umfram 25 þúsund kr. á mánuði skerða tekjur frá TR. Þessi upphæð hefur heldur ekki tekið breytingum í samræmi við þróun launavísitölu.

Það er nauðsynlegt að við ræðum það hvert hlutverk TR á að vera. Í mínum huga er það grundvallaratriði að TR hafi það hlutverk að bæta þeim sem hafa lágar og miðlungstekjur til að ná því að hafa lágmarkslaun sem í gildi eru í landinu. Það er einnig eðlilegt að þeir sem hafa aflað sér tekna með atvinnu,lífeyristekjum og fjármagnstekjum séu ekki skertar við fyrstu 100 þúsund krónurnar að viðbættum hækkunum sem komnar eru vegna þróunar launavísitölu.

Aftur á móti er hægt að fallast á að þeir sem hafa yfir 585 þúsund krónur á mánuði þurfi ekki á að halda greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.Með þeirri stefnu er meira fjármagn til staðar til að bæta þeim sem lægri hafa kjörin.

Hvers vegna er valkosturinn hækkun á almenna frítekjumarkinu

Á það hefur verið bent og kemur m.a. fram í skýrslu Skúla Sigurðssonar að hækkun almenna frítekjumarksins skilar sér mun betur til þeirra sem lægri hafa launin heldur en að prósentuskerðingar verði lækkaðar.

Við hækkun frítekjumarks í 50 þúsund á mánuði væri t.a.m. hækkun ráðstöfunartekna allra tíunda um 7.094 kr.eftir skatt hjá sambýlingum og 8.070 kr.hjá einbýlingum. Lauslega áætlað yrði kostnaður ríkisins um 3.268 mkr.(nettó)

Stjórn LEB hefur þegar samþykkt á fundi sínum að stefnan skuli vera að hækka almenna frítekjumarkið í áföngum,nú þegar í 50 þúsund á mánuði, þar á eftir í 75 þúsund krónur á mánuði og loks í 100 þúsund krónur á mánuði að viðbættum breytingum á launavísitölu.

 

Breytingar um áramót

Alþingi gefur út fyrir hver áramót hverjar breytingar verða á greiðslum frá TR. Í skýrslu Skúla Sigurðssonar kemur fram að síðustu ár hafa greiðslurnar hækkað í samræmi við hækkun neysluvístölu en ekki í samræmi við þróun launavístölu.

Fram kemur í skýrslu Skúla Sigurðssonar að með þessum ákvörðunum hafa lægstu tíundirnar verið skertar. Frá árinu 2017 hafa heildartekjur þeirra tekjulægstu í 1-túnd lækkað um 6,7% og tekjur 5-túndar um 5% miðað við lágmarkslaun,sem er það lágmarksviðmið sem Ttryggingastofn styðst við

Aðalbaráttumál Landssambands eldri borgara

Það hlýtur að eiga að vera helsta baráttumál Landssambands eldri borgara að bæta kjör þeirra félaga sem verstu kjörin hafa. Við vitum að sem betur fer er stór hópur eldri borgara sem býr við ágætis kjör.Það er óþarfi að sá hópur sem best hafa kjörin geri kröfu á hendur Tryggingastofnunar ríkisins að fá greiddar bætur að fullu án nokkurra skerðinga. Það hlýtur að vera betri stefna að Landssamband eldri borgar leggi allan þunga sinn í að bæta kjör þeirra sem lélegri kjörin hafa.

 

 

Sigurður Jónsson, formaður kjaranefndar LEB & FEB-R