Í nýrri skýrslu minni og Stefáns Andra Stefánssonar um Kjör lífeyrisþega (www.lifeyriskerfid.is), sem Efling gefur út, er meðal annars fjallað um lágtekjuvanda lífeyrisþega á Íslandi.

Besta lífeyriskerfi í heimi?

Lengi hefur verið talað um að Íslandi hafi eitt besta lífeyriskerfi í heimi. Þá var oftast verið að vísa til þess að hér væri þriggja stoða lífeyriskerfi (meginstoðirnar eru almannatryggingar og lífeyrissjóðir, en að auki er valfrjáls séreignasparnaður). Minna hefur verið rætt um virkni kerfisins eða hversu vel það skilar lífeyrisþegum framfærslutekjum í þessu sambandi. Það er hins vegar megin viðfangsefni ofangreindrar skýrslu.

Ein meginniðurstaða skýrslunnar er sú að önnur af tveimur höfuðstoðum lífeyriskerfisins (almannatryggingar – TR) skili ekki sínu og því sé virkni kerfisins ófullnægjandi. Þess sér merki í tvennu: opinber útgjöld íslenska ríkisins vegna lífeyrisgreiðslna í gegnum almannatryggingar er þau fimmtu lægstu meðal OECD-ríkjanna og lágtekjuvandi lífeyrisþega er óeðlilega mikill á Íslandi. Um þetta eru sýnd margvísleg gögn í skýrslunni.

Í þessari grein verður sjónum sérstaklega beint að lágtekjuvanda meðal beggja helstu hópa lífeyrisþega: eldri borgara og öryrkja. Á mynd 1 má sjá heildaryfirlit um umfang lágtekjuvandans ef lágtekjuviðmiðið er sett við 350.000 krónur á mánuði. Miðað er við heildartekjur á mánuði fyrir skatt, skv. skattframtölum ársins 2019 (tekjuár 2018).

Mynd 1: Stærð lágtekjuvanda lífeyrisþega og fólks á vinnualdri. Myndin sýnir hlutfall hvers hóps sem er með heildartekjur undir 350.000 krónum á mánuði – fyrir skatt, skv. skattframtölum ársins 2019. Heimild: Kjör lífeyrisþega, kafli IV.

Mynd 1: Stærð lágtekjuvanda lífeyrisþega og fólks á vinnualdri. Myndin sýnir hlutfall hvers hóps sem er með heildartekjur undir 350.000 krónum á mánuði – fyrir skatt, skv. skattframtölum ársins 2019. Heimild: Kjör lífeyrisþega, kafli IV.

 

Hér má sjá að um 40% öryrkja eru undir þessum lágtekjumörkum og þriðjungur eldri borgara. Meðal fólks á vinnualdri er hlutfallið hins vegar um 22%. Í skýrslunni eru sýnd hlutföll þessara hópa sem eru undir bæði enn lægra lágtekjuviðmiði (300.000 kr. – 24% öryrkja og 15% eldri borgara) og hærra lágtekjuviðmiði (400.000 krónum – 55% öryrkja og 52% eldri borgara eru undir því).

Þessi lágtekjuviðmið eru heildartekjur fyrir skatt. Á þessu tekjuári tók ríkið svo rúmar 75.000 krónur í tekjuskatt af 350.000 krónum þannig að eftir voru um 275.000 til að lifa af fyrir einhleypa lífeyrisþega.