Landsfundur LEB 2020 var haldinn þriðjudaginn 30. júní í Súlnasal Hótels Sögu.
Staðsetningin var valin sérstaklega með tilliti til þessa aldurshóps sem hefur sýnt mikla varkárni á þessum kórónuveirutímum. Súlnasalurinn rúmar um 260 manns í sæti, en fulltrúar landsfundarins voru 123, svo hægt var að halda í heiðri fjarlægðarreglu fyrir þá sem það kusu.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB setti fundinn og hvatti landsfundarfulltrúa til dáða.
Eliza Read forsetafrú ávarpaði fundinn og kom að þeirri virðingu sem hún ber fyrir eldra fólki enda átt frábærar ömmur sem hún sagði frá. Auk þess kom hún víða við um gildi eldri borgara í samfélaginu. Góður rómur var gerður að ávarpi Elizu og risu fundargestir á fætur og þökkuðu með langvinnu lófaklappi.
Að loknu ávarpi Elizu Reid forsetafrúar tók Magnús M. Norðdahl við fundarstjórn. Valgerður Sigurðardóttir var kjörin aðstoðar fundarstjóri. Fundarritarar voru kjörin þau Hallgrímur Gíslason og Hildigunnur Hlíðar.
Þórunn formaður flutti skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2019 – 2020. Hún kom inn á fjölmörg mál sem hafa verið á borði stjórnarmanna. Einkum hafa kjarmál tekið mikinn tíma og baráttan fyrir betri hag eldri borgara er mikilvægt baráttumál, sérstaklega þeirra sem standa höllum fæti af ýmsum ástæðum, kjaralega og félagslega.
Tekjur eldri borgara hafa hvorki haldið sjó gagnvart lágmarkslaunum né öðrum samfélagshópum á undanförnum árum, þrátt fyrir það jákvæða skref sem stigið var með kerfisbreytingunni 2017. Þannig er kjörum eldri borgara lýst í nýrri skýrslu sem LEB hefur látið gera um eftirlaun og afkomu eldri borgara. En brýnt er að fá kjörin leiðrétt.
Haldin voru áhugaverð fræðsluerindi og málefnanefndir störfuðu sem fundarmenn skiptu sér upp í. Nefnd um velferðar- og heilbrigðismál stýrði Dagbjört Höskuldsdóttir. Nefnd um kjaramál stýrði Sigurður Jónsson og nefnd um lagabreytingar stýrði Guðmundur Guðmundsson.
Ákafar umræður urðu um ýmis mál, sérstaklega kjaramálin. Mikill samhugur ríkti og voru skýrar og skorinorðar ályktanir samþykktar einum rómi um kjaramál og velferðar- og heilbrigðismál. Tenglar á ályktanir eru hér neðar í fréttinni.
Tillaga uppstillingarnefndar vegna stjórnarkosninga var samþykkt samhljóða. Tveir nýjir stjórnarmenn tóku sæti í aðalstjórn til tveggja ára. Þar var endurkjörin Valgerður Sigurðardóttir úr Hafnarfirði og Ingibjörg H. Sverrisdóttir úr Reykjavík kom inn í stað Ellerts B. Schram. Í varstjorn er kosið til eins árs. Þar var endurkjörinn Ingólfur Hrólfsson úr Mosfellsbæ. Nýr kom inn Þorbjörn Guðmundsson úr Reykjavík í stað Ólafs Arnar Ingólfssonar og Guðfinna Ólafsdóttir Selfossi í stað Drífu Sigfúsdóttur Reykjanesbæ. Fráfarandi stjórnarmönnum voru færðar þakkir fyrir mikil og góð störf. Tengill á frétt um stjórn LEB er hér neðar í fréttinni.
Fundargestir voru komnir víðs vegar að af landinu og voru sem fyrr segir 123, en nokkra vantaði m.a. vegna áhrifa Covid 19 á störf félaga eldri borgara. Nú eru eldri borgarar orðnir rúmlega 45 þúsund og fjölgar jafnt og þétt. Það skapar enn fleiri verkefni þar sem aldur við inngöngu í eitthvert af félögunum innan LEB er frá 60 ára aldri og allt upp í tæplega 100 ára. Félagsmenn samtals í öllum aðildarfélögum Landssambandsins eru orðnir um 27.000 – og enn fjölgar þeim!
Það er mikill kraftur framundan í starfsemi LEB. Því mikið verk er að vinna!
Hér má lesa um nýja stjórn LEB
Hér má lesa ályktun um kjaramál sem samþykkt var á Landsfundi LEB 2020
Hér má lesa ályktun um velferðar- og heilbrigðismál sem samþykkt var á Landsfundi LEB
Hér má lesa ályktun um að LEB styðji Gráa herinn
Lög LEB eins og þau voru samþykkt á aðalfundi LEB 30.06.2020.