fbpx

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur undirritað samninga við átta fræðsluaðila um kennslu í tölvulæsi fyrir eldra fólk í kjölfar útboðs Ríkiskaupa.

Um er að ræða sérsniðna kennslu sem hjálpar eldra fólki um allt land að nýta sér þjónustu og rafræn samskipti á netinu með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun, njóta afþreyingar á netinu og auka notkun á þjónustusíðum.

Markhópurinn er eldra fólk (eldri en 60 ára) sem hefur þörf á námskeiði í tæknilæsi á snjalltæki, til dæmis varðandi spjaldtölvur og snjallsíma.

Námskeiðin fela í sér kennslu í notkun rafrænna skilríkja og vefsíðna sem nota þau, heimabanka, netverslun og fræðslu vegna samfélagsmiðla og efnisveitna. Þá verður farið yfir notkun á tölvupósti og önnur rafræn samskipti. 

Boðið verður upp á námskeið á hverju landssvæði fyrir sig; Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi og Suðurlandi en námskeiðin á að halda á sem víðast í hverjum landshluta. Það er ánægjulegt að styðja þessa þjónustu og hvetja þannig til sí- og endurmenntunar á öllum stigum eins og áherslur ráðherra og ríkisstjórnar í stjórnarsáttmála segja til um.

 

Samningar voru undirritaðir við eftirfarandi aðila sem munu hafa umsjón með námskeiðunum og ráðuneytið hvetur fólk til þess að sækja þessa þjónustu:

 

  • Fræðslunetið-símenntun á Suðurlandi
  • Austurbrú ses
  • Farskólinn-miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra
  • Fræðslumiðstöð Vestfjarða
  • Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
  • Promennt ehf
  • Símenntunarmiðstöð Vesturlands
  • Þekkingarnet Þingeyinga