fbpx

 

Þórhallur Jósepsson, upplýsingafulltrúi Lífeyrissjóðs verslunarmanna skrifar:

Frá og með nóvember 2021 hækkuðu lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna um 10%. Þessi hækkun er ótímabundin, þannig að meðan staða sjóðsins hvorki batnar né versnar umtalsvert verða réttindin (og þar með lífeyrisgreiðslurnar) óbreytt.

Ástæða hækkunarinnar er góð staða sjóðsins í kjölfar góðs árangurs í rekstri hans undanfarin ár. Sá góði árangur þýddi að svokölluð tryggingafræðileg staða sjóðsins hafði hækkað og var orðin jákvæð sem nam meira en 10%. Lög um lífeyrissjóði kveða skýrt á um að í slíkri stöðu skuli hækka réttindin og það var semsagt gert. Þar sem hækkunin gilti frá 1. janúar 2021, áttu lífeyrisþegar hækkunina inni hjá sjóðnum frá áramótunum. Sú hækkun var greidd út til hvers og eins í einu lagi í nóvember.

Þetta var semsagt hvorki uppbót né jólabónus, heldur inneign sem sjóðfélagar á lífeyri fengu útgreidda á þessum tíma.

Rétt er einnig að árétta að sjóðurinn reyndi að koma því skýrt til skila að viðtakendur þyrftu að kanna hvort eingreiðslan, og í framhaldinu viðvarandi hækkun mánaðarlegs lífeyris, hefði áhrif á greiðslur frá TR til þeirra sem fá þær. Þetta verður hver og einn að kanna fyrir sig, þar sem LV hefur ekki upplýsingar um þær greiðslur.

Með góðum kveðjum og von um áframhaldandi velgengni, okkur öllum til hagsbóta.

Þórhallur Jósepsson
Upplýsingafulltrúi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna