Aðgerðarhópur eldra fólks er skipaður m.a. formönnum flestra stærstu aðildarfélaga LEB. Þau hafa sett fram kröfur um bætt kjör eldri borgara til frambjóðenda í komandi alþingiskosningum og stjórnmálaafla. Samþykktin sem fékk fullan stuðning á landsfundi LEB 2021 ber heitið Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf. Áherslur eldra fólks í komandi alþingiskosningum.
Sjá nánar með því að smella á rauða tengilinn hér: Áhersluatriði. Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf
Upplýsingar vegna umræðunnar um kjör eldra fólks
Tekjur eldra fólks
Árið 2020 var miðgildi tekna þeirra sem taka lífeyri frá TR 400.816 kr. Þetta þýðir að 16.000 til 17.000 manns voru með lægri tekjur en 400.000 kr. á mánuði. Hér er átt við allar tekjur fyrir skatt. Lægsta tíundin er með 310.000 kr. eða lægra.
6% lífeyristaka eru eingöngu með lífeyri frá TR sem er í dag 266.033 kr. en fyrir þá sem búa einir kemur heimilisuppbót til viðbótar 67.225 kr. sem samanlagt gerir 333.258 kr.
Skerðingarhlutfallið hjá hjónum og sambýlisfólki er 45% en hjá þeim sem fá heimilisuppbót 56.9%.
Jaðarskattar það eru áhrif skerðinga á skatt eru á bilinu 76-80%.
26% fólks 67 ára og eldra er ekki að fá lífeyri frá TR þar af eru rúmlega 3000 manns á hjúkrunarheimilum eða sjúkrastofnunum.
Frítekjumörk
Almenna frítekjumarkið er 25.000 kr. og hefur verið óbreytt frá 1. janúar 2017.
Okkar tillaga er að það hækki í 100.000 kr. á mánuði eða um 75.000 kr. Kostnaðurinn eru 200 milljónir á hverjar 1000 kr. sem frítekjumarkið hækkar. Miðað við hækkun í 100.000 kr. væri brúttó kostnaður rúmir 15 milljarðar.
Stærsti hluti þess mun bera 37.95% skatt. Nettó kostnaður er því mun lægri eða á milli 10 og 11 milljarðar króna.
Atvinnutekjur
Aðeins 23% þeirra sem taka lífeyri frá TR eru með atvinnutekjur og eru þær vart mælanlegar nema hjá þremur efstu tekjutíundunum.
Alþingi lét Capacent gera athugun á kostnaði við að afnema skerðingar vegna atvinnutekna. Þeirra mat var að það myndi kosta ríkissjóð um 2 milljarða að afnema frítekjumörk að fullu. Hins vegar þegar tekið hefur verið tillit til ávinnings sveitarfélaga af hærri tekjugrunni var nettó kostnaður 218 milljónir.
Hins vegar ef miðað yrði við að afnema skerðingar frá 70 ára aldri myndi nettó kostnaður verða 80 milljónir í plús.
Bæta afkomu þeirra sem lægstan hafa lífeyrinn
Til að lyfta undir lægstu tekjutíundir þarf að fara í sértækar aðgerðir og leggjum við til að það verði sett gólf í líkingu við lágmarkslaunatryggingu á vinnumarkaði. Í dag er lágmarkaslaunatryggin 351.000 kr. og mun hækka í 368.000 kr. 1. janúar 2022. Við framkvæmdina horfum við t.d. til Danmerkur en þar er þetta framkvæmt í gegnum skattinn. Kostnaður við þessa breytingu er ekki mikill enda nær hún til lítils hóps og ræðst einnig af áhrifum frá almennum aðgerðum eins og hækkun frítekjumarka.
Árleg hækkun lífeyris
Í 69. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um að lífeyri skuli hækka árlega og taka skuli mið af almennri launaþróun þó skal hækkunin aldrei vera lægri en sem nemur hækkun verðlags. Ekki er sátt um hvernig eigi að túlka 69. gr. sem hefur orðið þess valdandi að lífeyrir fylgir ekki almennri launaþróun. Um síðustu áramót var gerð krafa um að lífeyrinn hækkaði jafnt og laun þ.e. um 15.000 kr. en Alþingi hafnaði því og hækkaði lífeyrinn um 3.6% sem er undir hækkun verðbólgu það sem af er þessu ári. Verðbólga mælist nú 4.6%. Það er mikilvægt að ná sátt um framkvæmd 69 gr. sem tryggir eftirlaunafólki sambærilegar hækkanir og aðrir fá.
Fjöldi eldra fólks á kjörskrá
Á kjörskrá í júní árið 2020 voru 252.152.
Árið 2020 voru 60 ára og eldri um 73.000 og sem hlutfall á kjörskrá 29%.
67 ára og eldri rúmlega 45.000 og sem hlutfall á kjörskrá 18%.
70 ára og eldri rúmlega 35.000 og sem hlutfall á kjörskrá 14 %
Reykjavík 15.5.2021
Þorbjörn Guðmundsson