fbpx

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur skipað Huld Magnúsdóttur í embætti forstjóra Tryggingastofnunar frá og með 1. júní næstkomandi. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, skipar félags- og vinnumarkaðsráðherra forstjóra Tryggingastofnunar til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar. Stjórn Tryggingastofnunar lagði til við ráðherra að Huld Magnúsdóttir yrði skipuð forstjóri Tryggingastofnunar en sérstök hæfnisnefnd sem ráðherra skipaði mat Huld hæfasta umsækjandann um embættið.

 

Huld hefur umfangsmikla reynslu sem stjórnandi, bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði. Hún starfaði í 15 ár hjá Össuri hf. og Ossur Americas frá 1993 til 2008. Hún var forstjóri þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu í 8 ár, eða frá stofnun miðstöðvarinnar árið 2009 til ársins 2017. Hún var jafnframt settur forstjóri Tryggingastofnunar í níu mánuði á árunum 2015 og 2016 í námsleyfi þáverandi forstjóra. Frá árinu 2017 hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

 

Huld stundaði nám í ensku við Háskóla Íslands 1988–1989, lauk BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá University of Sussex árið 1992, meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst árið 2011 og lauk diplómanámi á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2015.