Á vikunum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar komu fulltrúar frá öllum framboðunum í bænum í heimsókn í Birtu, Bugðusíðu 1, þar sem Félag eldri borgara á Akureyri hefur sína aðstöðu. Þar hittu þeir nokkur frá stjórn félagsins til að hlýða á helstu áherslur þess og til að gefa okkur nokkra innsýn í sínar stefnur. Þökkum við kærlega fyrir þessar heimsóknir. Flestir frambjóðendurnir komu vel undirbúnir og virtist vera mikill samhljómur hjá þeim um nauðsyn bættrar þjónustu við hópinn, eins og að vinna áfram við aðgerðaáætlun í málefnum hans, koma henni í framkvæmd og hefja sem fyrst vinnu við næsta áfanga hennar. Einnig að bæta úr húsnæðisskorti vegna tómstundastarfsins.
Í þjónustukönnun sem Gallup gerði fyrir sveitarfélögin í landinu árið 2021 kemur fram að á Akureyri voru skipulagsmál í neðsta sæti og þjónusta við eldra fólk í því næst neðsta. Fyrrnefnda atriðið hefur mikil áhrif á það síðarnefnda. Eigum við að nefna forgangsröðun í miðbæjarskipulaginu? Ákveðið hefur verið að færa leigubílastöðina, stoppistöð innanbæjar strætisvagna er í ólestri vegna þrengsla og svipað má segja um stoppistöð landsbyggðarstrætó. Það virðist ekki hafa verið byrjað á að hugsa um hvert ætti að færa þjónustuna þegar var ákveðið hvar hún ætti ekki að vera. Hvar er samgöngumiðstöðin sem átti að reisa hér fyrir fjölmörgum árum síðan? Eigum við eitthvað að nefna bílastæðamálið? Hvað er stórt hlutfall bæjarbúa sem á ekki snjallsíma, notar ekki öpp og hvert er hlutfall þeirra bæjarbúa sem vilja ekki nota appið vegna þess hve mikill hluti teknanna fer úr bæjarfélaginu? Einnig þarf að minnast á heilsugæsluna, það er ekkert auðvelt fyrir þá sem ekki eru tæknivæddir að komast þangað nema ef það getur látið aka sér. Öll þessi atriði skerða þjónustu við eldra fólk.
Þegar búið var að byggja hús fyrir eldra fólk við Víðilund og Lindasíðu á sínum tíma voru settar upp félagsmiðstöðvar við þau. Mikið hefði nú verið gott ef það hefði verið gert ráð fyrir fleiri fjölbýlishúsum í næsta nágrenni við miðstöðvarnar. Við sem erum rúmlega miðaldra viljum mörg hver hafa félagsskap af okkar hópi og finnum þar mesta öryggið.
Eitt af því sem vantar sárlega hér í bæ eru svokallaðir lífsgæðakjarnar, þar sem eru fjölbýlishús, raðhús og parhús eftir vilja hvers og eins. Þar gætu verið leiguíbúðir, eignaíbúðir eða íbúðir í búseturéttarformi. Þar yrði að sjálfsögðu góð félagsmiðstöð svo fólk gæti komið saman til að sinna tómstundum af ýmsu tagi, borða saman og skemmta sér á ýmsa vegu. Einnig vantar þjónustuíbúðir hér í bæ. Þar yrði velferðartækni nýtt eins og mögulegt er og þar væru öryggishnappar. Þar væri boðið upp á þrif, þvotta, aðstoð við ýmis heimilisstörf, búðarferðir og jafnvel aðgengi að hjúkrunarfræðingi. Jafnframt yrði þar stutt í heilsugæslu, félagsmiðstöð, hársnyrtingu, fótaaðgerðir og aðra þarflega þjónustu.
Það er ekki hægt að ljúka þessum skrifum án þess að nefna skort á ódýru og hentugu húsnæði fyrir þennan hóp hér í bæ. Fjölmargir hafa á undanförnum árum reynt að minnka við sig húsnæði, komast úr stigablokkum, losna við garðslátt og snjómokstur. Margir hafa þurft að fara inn í Hagahverfi, því þar eru margar íbúðir af hentugum stærðum, í lyftublokkum og með bílakjallara. Þar er hins vegar engin þjónusta nema að strætisvagnar fóru að ganga þangað fyrir skömmu síðan. Margir vilja því komast nær góðri þjónustu. Okkar hópur þarf frekar ódýrar íbúðir af öllum stærðum. Trúlega er þörfin mest fyrir íbúðir á bilinu 50-80 fermetrar, en þau sem eru með stærri fjölskyldur vilja gjarnan hafa þær stærri. Það er nefnilega enginn einn samnefnari fyrir þá einstaklinga sem eru 60 ára eða eldri.
Aðalatriðið er samt að muna að máltækið góða. Ekkert um okkur, án okkar, á við um okkar hóp eins og marga fleiri.
Hallgrímur Gíslason,
formaður EBAK, Félags eldri borgara á Akureyri.