Fram kom í máli ráðherranna, Guðmundar Inga Guðbrandssonar og Willums Þórs Þórssonar, að það eigi að vera gott að eldast á Íslandi. Fólk eigi að geta látið sig hlakka til efri áranna og síðustu áratugir ævinnar eigi að vera meðal þeirra allra bestu. Til þess að svo geti orðið þurfi að flétta saman ólíka þætti í sterka taug sem tengi okkur öll saman. Markmiðið sé að trygga eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt sé að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi.
Heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar líkt og fram kemur í stjórnarsáttmála. Verkefnastjórn sem skipuð var síðastliðið sumar hefur unnið að mótun aðgerðaáætlunarinnar í samvinnu við haghafa og þann 15. desember nk. verður áætlunin sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Hún verður síðan lögð fram sem tillaga til þingsályktunar á vorþingi 2023.
Fjölmenni var sem fyrr segir á fundinum, auk þess sem fjöldi fólks fylgdist með honum í streymi. Í umræðum kom fram mikil ánægja með aðgerðirnar sem og þá áherslu sem stjórnvöld hafa nú sett á málaflokkinn.