fbpx

 

Gildandi takmörkun samvkæmt auglýsingu á samkomum vegna farsóttar nær frá og með 28. ágúst 2020 (kl. 00.00) og gildir til 10. september 2020 (kl. 23.59). Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar. Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

Helstu ráðstafanir í gildi:

Fjöldatakmörkun. Takmörkun á fjölda einstaklinga sem kemur saman miðast við 100 fullorðna. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.

Almenn nálægðartakmörkun.  Samkvæmt skilgreiningu sóttvarnalæknis er hvatt til að viðhafa sem oftast 2 metra nálægðartakmarkanir í umgengi við aðra, sérstaklega óskylda eða ótengda aðila.

Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli einstaklinga þarf að nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur. Mikilvægt er að kynna sér leiðbeiningar um notkun andlitsgríma.

Nálægðartakmörkun í skólum. Í framhalds- og háskólum er þó heimilt að hafa 1 metra á milli einstaklinga án þess að andlitsgrímur séu notaðar.

Nálægðartakmörkun í íþróttum. Snertingar eru heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 2 metra nálægðartakmörkun í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu einnig virða 2 metra nálægðartakmörkun. Þær íþróttagreinar sem ekki heyra undir ÍSÍ (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands) skulu setja sér leiðbeiningar eða fylgja sömu leiðbieningum og sambærilegar íþróttagreinar innan ÍSÍ.

Nálægðartakmörkun í sviðslist, tónlist og við kvikmyndatökur. Snertingar verða heimilar á æfingum í sviðslistum og tónlist á sama hátt og í íþróttum. Sama gildir um kvikmyndatöku.

Nálægðartakmörkun á líkamsræktarstöðvum. Takmarkanir vegna sérstakrar smithættu verða þær sömu á líkamsræktarstöðvum og á sund- og baðstöðvum. Gestir mega þar aldrei vera fleiri en nemur helmingi eða minna af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi.

Verslanir, opinberar byggingar og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi þurfa að:

tryggja aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn við innganga og í grennd við yfirborð sem margir snerta s.s. snertiskjái og afgreiðslukassa

sinna vel þrifum og sótthreinsun yfirborða sem margir snerta eins oft og unnt er

minna almenning og starfsmenn á einstaklingssóttvarnir með merkingum og skiltum

Sundlaugar og veitingastaðir þurfa að tryggja að gestir geti haft 2 metra bil á milli sín í öllum rýmum með fjöldatakmörkun í samræmi við stærð hvers rýmis.

Starfsemi sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað s.s. íþróttastarf, líkamsræktarstöðvar, spilakassar og spilasalir geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda.

Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metrum.

Opnunartími skemmti- og vínveitingastaða verði áfram til kl. 23:00.

Heimilt er að sekta vegna brota á sóttvarnareglum

Sektarákvæði vegna brota sem tengjast 2ja metra reglunni og reglum um grímunotkun.

Sektarákvæði vegna brota sem tengjast samkomutakmörkunum, sóttkví og vegna einangrunar.

Aðgerðir á landamærum

Sjá HÉR 

Hvað fellur ekki undir samkomubann?

Samkomubannið nær ekki til alþjóðaflugvalla eða alþjóðahafna, flugvéla eða skipa. Hvatt er til öflugra sóttvarnaráðstafana og að rekstraraðilar grípi til ýtrustu ráðstafana til að minnka möguleika á smiti.

Hvenær lýkur samkomubanninu?

Þessar takmarkanir eru í stöðugu endurmati þannig að hægt sé að draga úr þeim eða þá lengja tímabilið sem þær gilda ef þörf þykir.

 

Eldri borgarar

Ef þú ert í hópi eldri borgara (67 ára og eldri) áttu í meiri hættu á að fá alvarleg einkenni. Því skaltu fylgja fyrirmælum sóttvarnarlæknis hverju sinni.

Gefnar hafa verið út leiðbeiningar til starfsmanna hjúkrunarheimila og dagdvala (07.08.2020).

Við hjálpumst öll að við að hægja á útbreiðslu veirunnar með því að:

Þvo okkur oft og vel um hendurnar með vatni og sápu í hið minnsta 20 sekúndur. Jafnframt er gott að nota handspritt.

Hósta og hnerra í olnbogann, ekki í hendurnar eða út í loftið.

Gæta þess að snerta andlitið sem minnst með höndunum, sérstaklega augun, munninn og nefið. Þannig berst veiran inn í líkamann.

Forðast faðmlög, kossa og knús, brosa frekar.

Nota sótthreinsandi klúta til að þurrka af snertiflötum sem margir koma við.

Sýna sérstaka aðgát í samskiptum við fólk í áhættuhópum ásamt því að huga að eigin áhættu.

Nota síma og aðra samskiptamiðla til að viðhalda tengslum, miðla upplýsingum og passa upp á þá sem minna bakland hafa.

Stunda einhverja hreyfingu. Hægt er að gera líkamsæfingar innanhúss eftir leiðsögn sjúkraþjálfara ef við á. Einnig er hægt að nálgast leiðsögn um æfingar í útvarpi, sjónvarpi eða á netinu.

 

Í sérstökum áhættuhópi er eldra fólk með eftirfarandi undirliggjandi sjúkdóma

 • háan blóðþrýsting/hjartasjúkdóma
 • sykursýki
 • langvinna lungnateppu
 • langvinna nýrnabilun
 • krabbamein
 • skerta starfsemi ónæmiskerfis

Ef þú ert með þessa áhættuþætti ertu ekki næmari fyrir smiti en aðrir, en ef þú smitast eru meiri líkur á því að verða alvarlega veik(ur). Því er ráðlagt að hafa bein samskipti við sem fæsta. Mikilvægt er að huga að andlegri líðan og forðast að einangra sig. Notum síma og aðra samskiptamiðla til að viðhalda tengslum.

 

 

Áhættuhópar

Sóttvarnalæknir hefur gefið út leiðbeiningar fyrir einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af COVID-19.

Leiðbeiningarnar eru ætlaðar fyrir:

Aldraða (því eldri því meiri ástæða til að hafa leiðbeiningarnar í huga)

Einstaklinga með hjartasjúkdóma/háþrýsting, sykursýki, langvinna lungnateppu, langvinna nýrnabilun og krabbamein óháð aldri (þ.m.t. barnshafandi konur og börn sem þetta á við)

 

Leiðbeiningar Embætti landlæknis um notkun á hlífðargrímum

Frá 31. júlí er aftur regla að halda 2 metra fjarlægð. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að hafa tveggja metra fjarlægð á að nota hlífðargrímu sem hylur munn og nef.

 • Þegar hægt er að tryggja 2 metra á milli einstaklinga þarf ekki að nota hlífðargrímu og ekki er mælt með almennri notkun grímu á almannafæri.
 • Hlífðargríma kemur aldrei í stað almennra sýkingavarna sem alltaf skal viðhafa: þ.e. handhreinsun, almennt hreinlæti og þrif á snertiflötum.
 • Hlífðargríma kemur ekki í stað 2 metra reglunnar t.d. í verslunum og á skemmtistöðum Hlífðargrímur á að nota:
 • Í öllu áætlunarflugi, innanlands og milli landa.
 • Í farþegaferjum, ef ekki er hægt að hafa 2 metra fjarlægð milli einstaklinga. Athugið að ekki erþörf fyrir grímu ef farþegar sitja í eigin farartæki, lokuðu, í ferjunni.
 • Í öðrum almenningssamgöngum, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til að 2 metra fjarlægð sé milli einstaklinga. Sérstaklega er mikilvægt að nota grímu í rútum frá flugvelli eftir sýnatöku á landamærum og á lengri leiðum með hópferðabílum, en í innanbæjarsamgöngum þar sem ferð er gjarnan innan við 30 mínútur er ekki skylda að nota grímu. Þar eru það fyrst og fremst einstaklingar í áhættuhópum sem ættu að nota grímu.
 • Við þjónustu við einstaklinga, sem krefst návígis, s.s. snyrtingu, nudd, sjúkraþjálfun, við tannlækningar, við augnlækningar og við heimahjúkrun.
 • Í öllum öðrum aðstæðum gilda reglur um fjöldatakmarkanir og 2 metra fjarlægð milli einstaklinga og geta hlífðargrímur ekki komið í stað þess.Ekki er gerð krafa um að börn fædd 2005 og síðar beri grímur.Í heilbrigðisþjónustu skal nota viðeigandi hlífðarbúnað.Gæta ítrasta hreinlætis við notkun á grímum:

Hlutverk hlífðargrímu er að grípa dropa sem koma úr öndunarvegi þess sem ber hana, svo þeir dreifist ekki um umhverfið. Þetta gerir að verkum að notuð hlífðargríma er mjög menguð af örverum, sem eru alla jafna í munnvatni. Því þarf að gæta ítrasta hreinlætis við notkun grímurnar, snerta þær sem minnst og skipta um grímu þegar hún er orðin rök eða skemmd á einhvern hátt. Alltaf þarf að þvo eða spritta hendur eftir snertingu við notaðar hlífðargrímur.

Æskilegast er að nota einnota hlífðargrímur sem hent er eftir notkun í almennt sorp. Þvo hendur eða spritta eftir snertingu við grímuna. Æskilegt er að miða að hámarki við 4 klst. uppsafnaða eða samfellda notkun og henda þá grímunni.

 

Margnota grímur úr taui má einnig nota en nauðsynlegt er að þær séu úr efni sem má þvo og þarf að lágmarki að þvo þær daglega. Sama gildir um margnota grímur og einnota grímur, þær mengast að utan og því á að snerta þær sem allra minnst. Þvo eða spritta hendur á eftir. Nánari leiðbeiningar um slíkar grímur eru væntanlegar.

Hafið í huga:

 • Ekki er mælt með almennri grímunotkun á almannafæri
 • Rök og skítug gríma gerir ekkert gagn og getur aukið sýkingahættu
 • Einnota gríma, sem notuð er oftar en einu sinni, gerir ekkert gagn og getur aukið sýkingarhættu
 • Hlífðargríma, sem hylur ekki bæði nef og munn, gerir ekkert gagn
 • Hlífðargríma, sem er höfð á enni eða undir höku, gerir ekkert gagnLeiðbeiningar frá vinnuhópi Evrópusambandsins um gerð margnota hlífðargríma