fbpx

 

 

 

Stjórn LEB og kjaranefnd funduðu í morgun og samþykktu eftirfarandi ályktun vegna kjara eldri borgara eins og þau birtast í fjárlagafrumvarpi 2021.

 

Ályktun stjórnar LEB
30. nóvember 2020

 

Stjórn LEB mótmælir harðlega að ellilífeyri hækki aðeins  um 3.6% í  frumvarpi  til fjárlaga fyrir árið 2021.

Það er skýlaus krafa LEB að ellilífeyrir hækki um 15.750 kr. vegna ársins 2021 eins og aðrir fá.

Eldri borgarar hafa ekki samningsrétt og verða að treysta að Alþingi fari að lögum við ákvörðun um hækkun ellilífeyris og tryggi sambærilegar hækkanir. 

 

Skýring:

Nú liggur það fyrir að samkvæmt lífskjarasamn­ingn­um eru hækkanir launataxta á næsta ári ekki ákveðnar í prósentum, heldur verða þær sama krónu­tala á alla línuna; 15.750 kr. ofan á alla launataxta lága sem háa. Það er hin almenna launaþróun sem rökrétt er að hækkun ellilíf­eyrisins taki mið af. Ellilífeyririnn þarf því að hækka um þessa sömu krón­utölu ef full­nægja á 69. greininni. Hann myndi þá fara úr 256.800 kr./mán. í 272.550 kr., sem gerir hækkun um 6,1% í stað þeirra 3,6% sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrum­varpinu.

 

Stjórn LEB skipa:

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður, Haukur Halldórsson varaformaður Akureyri, Valgerður Sigurðardóttir gjaldkeri Hafnarfirði, Dagbjört Höskuldsdóttir ritari Stykkishólmi, Ingibjörg H. Sverrisdóttir meðstjórnandi Reykjavík. Varastjórn: Ingólfur Hrólfsson Mosfellsbæ, Þorbjörn Guðmundsson Reykjavík og Guðfinna Ólafsdóttir Selfossi.

Kjaranefnd LEB skipa:

Drífa Sigfúsdóttir formaður Reykjanesbæ, Jón Ragnar Björnsson ritari Hellu, Haukur Halldórsson Akureyri, Sigurður Björgvinsson Hafnarfirði, Þorbjörn Guðmundsson Reykjavík og Sigurbjörg Gísladóttir Reykjavík.

 

Eftirfrandi ályktun var samþykkt á fundi miðstjórnar ASÍ 16. desember 2020.

Miðstjórn ASÍ tekur undir gagnrýni Landssambands eldri borgara (LEB) á 3,6% hækkun ellilífeyris og telur að sú hækkun gangi gegn markmiðum kjarasamninganna síðasta vor um bætta stöðu hinna tekjulægstu og gegn því markmiði að verja lífskjör í kófinu. Verðbólga mælist 3,5% um þessar mundir og verð á dagvöru hefur hækkað um 7,4% milli ára.

Alþýðusamband Íslands benti á nauðsyn þess í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið að lífeyrir og atvinnuleysistryggingar tækju sömu hækkunum og laun samkvæmt kjarasamningum. Með því að nota viðmið um meðaltaxtaþróun gengur Fjármála- og efnahagsráðuneytið gegn markmiðum kjarasamninganna sem byggðu á því að brýn þörf væri að rétta stöðu hinna tekjulægstu í samfélaginu. Sú þörf er ekki síðri hjá atvinnulausum, öryrkjum og eldri borgurum sem til viðbótar við þrönga fjárhagsstöðu horfast nú í augu við hratt hækkandi verð á matvöru og öðrum innfluttum nauðsynjavörum. Stuðningur við hina tekjulægstu hefur jákvæð efnahagsleg áhrif og mun skila sér í aukinni neyslu.

Miðstjórn ASÍ tekur undir eftirfarandi ályktun stjórnar LEB:

„Stjórn LEB mótmælir harðlega að ellilífeyri hækki aðeins um 3.6% í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021.
Það er skýlaus krafa LEB að ellilífeyrir hækki um 15.750 kr. vegna ársins 2021 eins og aðrir fá.
Eldri borgarar hafa ekki samningsrétt og verða að treysta að Alþingi fari að lögum við ákvörðun um hækkun ellilífeyris og tryggi sambærilegar hækkanir.“