Björn Snæbjörnsson formaður kjaranefndar Félags eldri borgara á Akureyri skrifar pistilinn:
Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um kjör okkar eldri borgara og hvernig við séum afskipt þegar kemur að kjarabótum.
Í haust var send áskorun til þeirra sem voru að semja á almennum vinnmarkaði og voru í viðræðum við ríkistjórnina um pakka til að ná saman kjarasamningum. Þeir aðilar sem voru í þessum viðræðum komu kröfum okkar á framfæri en fengu litlar undirtektir af hálfu stjórnvalda er varðaði sérstaklega málefni okkar.
Það virðist vera álit þeirra sem stjórna að við séum svo rík og höfum svo miklar tekjur að við þurfum ekki að fá kauphækkanir til jafns við launafólk.
En það er auðvitað líka ljóst að þær aðgerðir sem þó var samið um gagnast okkur bæði er varðar húsnæðismál, húsaleigu og ég tala nú ekki um ef verðbólga lækkar og vextir verða viðráðanlegir.
Um síðustu áramót hækkaði hámarksgreiðsla frá TR um kr. 17.669 en lágmarkshækkun í núverandi kjarasamningum var kr. 23.750. Þarna vantar upp á kr. 6.081 til þess að hækkunin verði sú sama og samið var um í kjarasamningunum.
Munur á lægsta taxta á vinnumarkaði sem er í dag kr. 425.985 og ellilífeyri hjá TR sem er í dag kr. 333.194 mismunurinn er hvorki meiri né minni en kr. 92.791. Það hlýtur að vera réttlætismál okkar að þessi munur verði sem minnstur og upphæð ellilífeyris sé í námunda við lægstu laun á vinnumarkaði.
Er eðlilegt að í átta ár sé talan sem við megum hafa frá lífeyrissjóði án skerðingar sú sama, eða kr. 25.000 á mánuði. Ef fólk er með hærri tölu en kr. 25.000 frá lífeyrissjóði á mánuði skerðist hver króna um 45 aura hjá TR. Þetta þýðir að á hverju ár aukast skerðingarnar því að greiðslur úr lífeyrissjóðum hækka samkv. neysluvísitölu.
Lágmarkslaun voru þann 1. janúar 2016 kr. 260.000 á mánuði, en þann 1. febrúar 2024 eru sambærileg laun kr. 425.985, hækkun upp á kr. 165.985.
Grunnlífeyrir frá TR var 1. janúar 2016 kr. 228.734, en þann 1. febrúar 2024 var hann kr. 333.194 hækkun upp á kr. 104.460.
Þarna sést að við höfum dregist aftur úr og er að mínu mati með öllu ólíðandi.
En hvað erum við sjálf að gera til þess að bæta þetta ástand? Við vitum að eldri borgarar eru ekki einsleitur hópur, sumir hafa það nokkuð gott, aðrir sæmilegt og enn aðrir hafa það skítt en þeim hópi verður að hjálpa. Það er ekki verjandi að þeir sem hafa byggt upp okkar ágæta samfélag séu að berjast á hverjum degi við að geta lifað af því sem þeim er skammtað af hálfu hins opinbera. Er þetta eitthvað sem við getum eða viljum hafa með þessum hætti, ég segi nei.
Við hér á Akureyri stofnuðum kjarahóp innan Félags eldri borgara á Akureyri, EBAK, til að berjast fyrir okkar málum og er ég mjög ánægður með hvað okkur hefur tekist að vekja fólk til umhugsunar um þessi mál.
Það höfum við gert með t.d. könnun á meðal félagsmanna og fundum með aðilum vinnumarkaðarins. Framundan er fundur með þingmönnum og í haust munum við óska eftir almennum fundi með bæjarfulltrúm okkar hér á Akureyri.
Þetta er gert til að vekja athygli á okkar kjörum og hvernig við höfum það.
En er þetta nóg? Alls ekki, við höfum í gegnum árin verið svo stillt og prúð og tekið þegjandi því sem okkur hefur verið skammtað. Er ekki ráð að fara að spyrna við fótum og láta í okkur heyra?
Það er ekki nóg að við vöknum hér á Akureyri heldur þurfa okkar samtök sem eru Landsamband eldri borgara, LEB, að vinna ötullega að því að knýja á um úrbætur.
Ég verð að segja að mér finnst þau vera alltof róleg og verða nú þegar að breyta um takt og berjast á fullu við stjórnvöld til að ná allavega fyrsta skrefinu í úrbótum en það er að þeir sem hafa það verst í okkar hópi fái leiðréttingu strax og að frítekjumark vegna lífeyristekna verði hækkað verulega.
Ef frítekjumarkið hefði tekið hækkunum eins og eðlilegt, er væri margur eldri borgarinn þó nokkuð betur settur.
Ágætu félagar, kennum ekki alltaf öðrum um stöðuna í okkar málum. Fylkjum liði og látum finna og heyra í okkur því að við erum stór hópur.
Berjumst fyrir okkar málefnum, en til þess þurfum við og okkar samtök að glaðvakna.
Björn Snæbjörnsson er formaður kjarahóps EBAK. Greinin birtist fyrst á Akureyri.net