fbpx

 

Landsfundur LEB 2021 sem haldinn var á Selfossi 26. maí samþykkti einróma ályktun um helstu áhersluatriði sem sett verða á oddinn fyrir komandi Alþingiskosningar og stjórnmálasamtök og -flokkar eru hvött til að setja á oddinn í næstu ríkisstjórn.

Áhersluatriðin eru 5. Áður hafði formannafundur LEB ásamt stjórn LEB samþykkt drög að þessari ályktun.

Að undanförnu hafa staðið fundir yfir með fulltrúum stjórnmálaflokka  þar sem þeim voru kynntar þessi megin áhersluatriði. Fundað var með hverjum stjórnmálaflokki fyrir sig.

 

Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf

Áhersluatriði eldra fólks í komandi Alþingiskosningum

 

1. Eldra fólk fái að vinna eins og það vill
Almennt frítekjumark verði 100.000 kr. Eftirlaunafólk fái að vinna eins og því sýnist án skerðinga í almannatryggingakerfinu og njóti afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir. Lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en umsamin lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði. Ellilífeyrir og frítekjumörk hækki árlega samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.

 

2. Starfslok miðist við færni en ekki aldur
Það er réttlætismál að eldra fólk fái að miða starfslok sín við áhuga, færni og getu en þurfi ekki að hætta virkri þátttöku í atvinnulífinu eingöngu vegna aldurs. Aldurstengdar viðmiðanir sem fara í bága við jafnræðisreglu stjórnarskárinnar ætti að fella úr allri lagasetningu, en leggja þess í stað áherslu á þekkingu, reynslu, hæfni og menntun fólks óháð aldri.

 

3. Heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar
Til að eftirlaunafólk geti lifað mannsæmandi lífi heima hjá sér með reisn, þurfa ríki og sveitarfélög að stórauka samvinnu sína með það að markmiði að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar. Öll fjárframlög taki mið af þessu. Heilsugæslan nálgist eldra fólk fyrr á lífsleiðinni með samhæfðri teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga og félagsþjónustu sveitarfélaga og haldi því sambandi. Velferðartækni ætti að vera mikilvægur þáttur í öryggi og bættri aðstöðu í heimahúsum eldra fólks. Þáttur aðstandenda verði metinn til launa með umönnunarálagi. Stofnun öldrunargeðdeildar fyrir fólk með sértækar þarfir er forgangsmál.

 

4. Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis
Ljóst er að búseta á eigin heimili hentar ekki öllum, þó þeir þurfi ekki dvöl á hjúkrunarheimili. Búsetuúrræði fyrir eldra fólk eru hins vegar alltof fábreytt. Það vantar millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Brýnt er að byggja upp þannig búsetuform til hagsbóta fyrir eldra fólk og þá ekki síður fyrir velferðarkerfið, sem er á forræði ríkis og sveitarfélaga.

Fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra verði einungis varið til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum.

 

5. Ein lög í stað margra lagabálka
Um málefni sem varða eldra fólk sérstaklega gilda of margir og of sundurleitir lagabálkar þar á meðal almannatryggingalögin. Einfalda þarf lagaumhverfið og gera það skilvirkara meðal annars með því að skilja að lög um eldra fólk og öryrkja. Tryggja þarf aðkomu eldra fólks að þeirri endurskoðun.