Fréttabréfið í nýjum farvegi.
Fréttabréf U3A tekur nú við af fréttabréfi Vöruhúss tækifæranna, sem hefur komið út samfleytt síðan í nóvembermánuði 2020. Hægt verður áfram að nálgast eldri fréttabréf á vef Vöruhúss tækifæranna og á vef U3A Reykjavík.
Hið nýja fréttabréf verður aðgengilegt á báðum vefjum auk þess að vera sent á netföng áskrifenda fréttabréfs Vöruhússins.
Sérstakur ritstjórnarhópur U3A félaga sér um útgáfu Fréttabréfsins. Sem fyrr er Fréttabréfinu ætlað að vera vettvangur fræðslu og upplýsinga um málefni fólks á þriðja æviskeiðinu með virkni í fókus. Þar verða birtir fjölbreyttir pistlar og greinar um mál sem varða eldra fólk og tækifæri sem standa þeim til boða þeim, jafnt fyrir sem eftir að hefðbundnu starfi lýkur. Þá mun Fréttabréfið birta pistla um þróun mála eldri borgara innanlands sem erlendis.
Ég skal bæta þér þetta upp – síðar
Þegar maðurinn minn og ég vorum ung að basla við að koma undir okkur fótunum, koma þaki yfir fjölskylduna og ná framgangi í starfi átti maðurinn minn til að lofa upp í ermina á sér. Hann var að hamast við að standa sig vel á öllum vígstöðvum og x-a í öll boxin. Þegar góðar fyrirætlanir hans gengu ekki upp vegna tímaskorts þá þurfti hann að „svíkja“ einhvern.
Það er auðvitað óhugsandi að svíkja ungu saklausu börnin sín sem enn þá voru með föðurinn í guðatölu. Að standa ekki við skuldbindingar sínar gagnvart yfirmanni sínum í vinnunni er áhættusamt og getur haft neikvæðar afleiðingar á framgang í starfi og tekjumöguleika til framtíðar. Það liggur þá beinast við að „snuða“ eiginkonuna og treysta á að hún sýni þessum „svikum“ skilning. Til að sýna henni að þetta er eiginmanninum ekki léttvægt segir hann „Elskan – ég bæti þér þetta upp síðar.“
Auðvitað hef ég sem fullorðin og ábyrg manneskja sýnt þessu skilning í gegnum tíðina og trúað því að umburðarlyndi mínu verði umbunað – síðar. Í dag þegar maðurinn minn segir við mig að hann skuli bæta mér eitthvað upp síðar segi ég: „Ástin mín, klukkan gengur – ef þú ætlar að bæta mér þetta upp þá þarftu helst að gera það núna – ekki síðar!“
Mér datt þessi setning „ég skal bæta þér þetta upp – síðar“ í hug þegar ég las Stefnumörkun Landsambands eldri borgara í kjaramálum 2023 sem ber yfirskriftina
„Við bíðum ekki lengur!“
Í gegnum áratugi hafa valdhafar og væntanlegir valdhafar sagt eldra fólki að óréttlæti í þeirra garð verði bætt þeim upp – „síðar.“ Ríkisstjórnir lofa eldri borgurum að réttlætið muni birtast í næstu fjárlögum sem taka munu gildi eftir næstu kosningar nái ríkisstjórnin aftur meirihluta. Minnihlutar á Alþingi lofa engu minna daginn eftir að þau ná að verða í meirihluta. En alltaf poppa upp einhver mál í samfélaginu sem stjórnvöld telja nauðsynlegt að forgangraða umfram leiðréttingu á réttmælismálum eldra fólks. Enn og aftur eru eldri borgarar „snuðaðir“ um verðskuldaða sanngirni en því lofað að bæta þeim þetta upp – „síðar“.
- Þann 22. apríl 2013, viku fyrir Alþingiskosningar, sendi Bjarni Benediktsson þá fjármálaráðherra bréf til kjósenda þar sem hann skrifar “Eldri kynslóðir verðskulda að búa við öryggi og góð lífsgæði”. Enn fremur skrifar hann m.a. að það eigi ekki að íþyngja öldruðum með ósanngjarnri skattlagningu, að afturkalla eigi kjaraskerðingu ellilífeyrisþega frá 2009, og að afnema eigi tekjutengingar ellilífeyris. “Þar er sannarlega um réttlætismál að ræða”skrifaði Bjarni. “Til að það megi verða þarfnast Sjálfstæðisflokkurinn stuðnings þíns á laugardaginn” sem hann og fékk. En þrátt fyrir árangurinn í kosningunum mátt eldra fólk enn bíða eftir úrlausn á þessu „sannarlega réttlætismáli!.
- Árið 2017 var Bjarni orðinn forsætisráðherra og flutti stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi Þá sagði Katrín Jakobsdóttir, þá í minnihluta á Alþingi, „núverandi ríkisstjórn gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokruðu áfram og byggju við skammarleg kjör“. Stutu síðar, þann 30. nóvember var Katrín orðin forsætisráðherra en enn varekki tekið á þessum „skammarlegum kjörum“ eldri borgara.
- Það var alla veganna skoðun Guðrúnar Hafsteinsdóttur 28. maí 2021 þegar hún skrifað grein í Fréttablaðið um að „Samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða ætti að vera efst á forgangslista við endurskoðun lífeyrikerfisins okkar. Skerðing lífeyris frá Tryggingastofnun er slík að ekki verður við unað. Svona gerum við einfaldlega ekki gagnvart eldri borgurum ……. Svo langt er gengið að ég tel grófustu skerðingarnar jafngilda árás á mannréttindi og þar með ljótan blett á annars ágætu tryggingarkerfi.“
Af ofangreindu má sjá að forystur flokkanna á Alþingi s.l. 10 ár, hvort sem þeir flokkar eru í meirihluta eða minnihluta eru sammála um leiðrétta eigi kjör eldra fólks. En bara ekki núna einsog sjá má í fjármálalagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir en samkvæmt því mun frítekjumark lífeyristekna halda áfram að rýrna og hækkunin um áramótin ólíkleg til að mæta launaþróun á næsta ári.
Klukkan gengur á okkur sem verðum fyrir öllum þessum skerðingum, óréttlæti og skammarlegum kjörum sem ofangreindir ráðherra vísa til. Það dugar hreint ekki að bæta okkur þetta upp síðar – við verðum kannski ekki lengur til staðar til að njóta þess.
Því er komið að okkur að segja:
Bætið okkur þetta upp núna – við bíðum ekki lengur!
Málefni eldra fólks í brennidepli um heim allan
|
Hættu þessu væli og taktu þér tak
|
Að ná sér í fast viðhald að sama tíma að ári
Við erum dugleg að halda við eignum okkar eins og íbúðarhúsnæði og bílum til að varna hrörnun fasteigna og tæringu bíla. Við berum á trévirkið á húsinu, endurnýjum bárujárnið á þakinu, mælum reglulega vélarolíu, og smyrjum bílinn okkar á 5-7 þús. kílómetra fresti, bætum á bremsuvökva og svo frv. Flestum okkar finnst þetta skynsamlegt. En hvað með viðhald á okkur dýrmætustu eign – okkar eigin heilsu?
Nýlega birtist grein eftir þær Guðrúnu Ástu Garðarsdóttur sjúkraþjálfara og Margréti Jóhannsdóttur íþróttafræðings sem starfa hjá Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Í greininni minna þær á mikilvægi þess að huga að heilsunni þegar við eldumst.
„Það eru forréttindi að eldast, en öll viljum við fyrst og fremst hafa góða heilsu og njóta góðra lífsgæða, sama á hvaða aldri við erum“ segja þær.
Markmiðið er kannski ekki endilega að tóra eins lengi og mögulegt er heldur að njóta lífsins á eigin forsendum. Þótt margir eldist á heilbrigðan hátt þá komumst við fæst okkar hjá aldurstengdum breytingum sem hafa mismikil áhrif á heilsuna okkar.
Það er útbreidd mýta að aldraðir séu veikburða og eigi að hafa hægt um sig. Því miður er ekki óalgengt að eldra fólk skorti sjálft trú á að það geti stundað líkamsrækt, telji að það sé orðið of seint, og jafnvel að það taki því ekki héðan af.
Það er aldrei of seint að byrja og ef það er einhvern tímann mikilvægt að hreyfa sig þá er það einmitt þegar við eldumst. Hreyfingarleysi dregur úr líkamlegri færni, vöðvastyrkur og vöðvamassi minnkar, jafnvæginu hrakar og fólk verður óöruggara til gangs, sem dregur þá enn meira úr hreyfingunni. Þá er regluleg þjálfun mikilvæg til að draga úr fallhættu. Þá eru áhrif þjálfunar afar víðtæk og það er vísindalega sannað að líkamsþjálfun getur seinkað eða dregið úr áhrifum aldurstengdra breytinga.
Á Heilsustofnun NLFÍ fer fram fjölbreytta endurhæfing og þangað koma um 500 einstaklingar 70 ára og eldri á hverju ári. Dvalargestirnir eru þar í fjórar vikur, allan sólarhringinn í hvíld frá daglegu amstri. Þar hittir fólk aðra í sömu stöðu sem eru að vinna að sama markmiði, að bæta heilsuna.
Þverfaglegt teymi heldur utan um einstaklinga í endurhæfingu og í teyminu eru sjúkraþjálfarar, íþróttafræðingur, sjúkranuddari, sjúkraliðar, læknir og hjúkrunarfræðingur. Í upphafi dvalar er viðtal við hjúkrunarfræðing og lækni og í framhaldi er sett upp stundaskrá fyrir dvalargestinn þar sem tekið er mið af þörfum og getu hvers og eins.
Meðferðin byggir á faglegu mati, en ávallt eru hafðar til hliðsjónar óskir dvalargests um meðferðina og áhersla lögð á mikilvægi heildrænnar nálgunar. Stundaskráin samanstendur af fjölbreyttum hóptímum, t.a.m. leikfimi, vatnsleikfimi, þjálfun í tækjasal, jafnvægisæfingum, grindarbotnsæfingum, göngu, núvitund og minnisþjálfun. Ýmis konar fræðsla er í boði, svo sem svefnfræðsla, fræðsla í tengslum við byltuvarnir, stoðkerfið, þunglyndi og kvíða svo fátt eitt sé nefnt.
Einnig eru einstaklingsmeðferðir eftir þörfum, eins og sjúkraþjálfun, sjúkranudd, nálarstungur, samtalsmeðferðir, hita-/kuldameðferðir og viðtal hjá næringarfræðingi. Það er ekki síður mikilvægt að huga að réttu mataræði þegar við eldumst, fá rétt magn af næringarefnum og huga að meltingunni.
Stundaskráin getur breyst þegar líða tekur á dvölina og eru slíkar ákvarðanir teknar í samráði við dvalargest.
Alltaf er hætta á að fólk fari í sama farið þegar heim er komið og er þv mikið lagt upp úr því að meðan á dvölinni stendur og fyrir útskrift að aðstoða einstaklinginn við að setja sér raunhæf markmið til að viðhalda þeirri færni sem náðst hefur. Áhersla er lögð á að fólk fái verkfæri með sér heim, t.d. æfingar, ráðleggingar og fræðslu varðandi bjargráð. Einnig er aðstoðað við að finna rétta þjálfun í heimabyggð eftir þörfum og áhuga hvers og eins.
Af hverju finnst okkur svona auðvelt að viðurkenna nauðsyn þess að halda veraldlegum eigum okkar við en síður okkar dýrmætustu eign – okkar eigin lífsgæðum?
Því ekki að uppfæra „to do“ listann okkar og setja inn árlegt viðhald á sama tíma á ári ?
Upphafleg grein Guðrúnar Ástu Garðarsdóttur sjúkraþjálfara og Margrétar Jóhannsdóttur íþróttafræðings birtist á heilsustofnun.is