fbpx

 

Að venju er margt fróðlegt að lesa í Fréttabréfi U3A – Háskóla 3ja æviskeiðsins. Þar á meðal um næstu fyrirlestra sem fluttir eru á þriðjudögum. Þeir eru teknir upp og síðan eru upptökurnar sendar út til áskrifenda.

 

U3A Reykjavík
Fréttabréf í mars 2024
Efnisyfirlit

Að lifa lengi og vel

Skjáskot af vef Blue Zones LLC
Í fréttabréfi septembermánaðar 2022 birtist stutt grein um hin „bláu svæði“ heimsins sem skera sig úr öðrum svæðum vegna óvenjulegs langlífis íbúa þessara svæða. Hér eru talin Okinawa í Japan, Sardinía á Ítalíu, Nicoya í Kostaríka, Ikaria í Grikklandi og Loma Linda í Kaliforníu. Bent er á að á öllum þessum svæðum tíðkist sérstakar lífstílsvenjur.

Vefsíða fyrirtækisins Blue Zones LLC er https://www.bluezones.com, og má finna þar ýmiss konar greinar og fréttir um það hvernig vinna má að því að lifa vel sem lengst með tilvísunum í lífsstíl sem um aldir hefur tíðkast á þessum langlífissvæðum. Auk þess er vitnað þar í ýmsar greinar og rannsóknir um hvað stuðlar að betri heilsu og langlífi.
Hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi fyrirtækisins og fá vikulega áhugaverðar hugmyndir og tillögur um hvað við getum gert til að vinna markvisst að eigin vellíðan, heilsu og lengra lífi.

Í fréttabréfinu eru  t.d. greinar um mikilvægi birtunnar, mikilvægi hreyfingar og ekki síst mikilvægi þess sem við látum í okkur, mataræðisins. Á vefsíðu Blue Zones má svo finna safn margvíslegra uppskrifta að ýmiss konar gómsætum réttum, sem byggja á heilsusamlegum matarvenjum fólks á „bláu svæðunum“ og styðjast við matvælaleiðbeiningar Blue Zone: https://www.bluezones.com/wp-content/uploads/2019/12/BZL_Food-Guidelines-Printable_02.pdf

Hér kemur uppskrift af áhugaverðum aðalrétti sem er í ætt við Risottó og er að finna í uppskriftasafninu undir “Learn & discover” á vefsíðunni.

“Byggottó” með Butternut graskeri
(Aðalréttur fyrir 4. Undirbúningur: 10 mín. Eldun: 40 mín.)

Innihald:
2 msk jómfrúar ólífuolía
½ Butternut grasker eða sæt kartafla í teningum
1 blaðlaukur, sneiddur
3 sellerístilkar, sneiddir
3 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð
½ tsk þurrkuð salvía
250 g perlubygg (frá Móður Jörð)
9 dl grænmetiskraftur
30 g Parmaostur (Parmesan), rifinn
150 g spínat eða annað blaðgrænmeti, saxað
sjávarsalt, svartur pipar
smávegis ólífuolía
2 msk graskersfræ
4 fersk salvíublöð (eða fáein þurrkuð)
20 g Parmaostur, heflaður með ostaskera eða kartöfluflysjara
smávegis rifinn börkur af lífrænni sítrónu

Leiðbeiningar:
Mýkið grasker, blaðlauk og sellerí í ólífuolíunni og hrærið af og til. Bætið hvítlauk og þurrkaðri salvíu út í og eldið þar til þetta fer að ilma. Bætið síðan perlubyggi og grænmetiskrafti út í og látið suðuna koma upp. Látið sjóða rólega í u.þ.b. 30 mínútur og hrærið af og til. Bætið smávegis af vatni út í ef þarf.

Bætið rifnum Parmaosti út í ásamt spínatinu. Sjóðið þar til spínatið hefur hjaðnað, u.þ.b. 3-4 mínútur. Bragðbætið með salti og pipar eftir þörfum.

Hitið smávegis af ólífuolíu á pönnu og ristið graskersfræin (og fersku salvíublöðin). Stráið þessu yfir byggottóið ásamt hefluðum parmaostinum og rifnum sítrónuberkinum.
(Ef þið viljið hafa réttinn 100% vegan má nota 2 matskeiðar af næringargeri í stað Parmaostsins)

Perlubygg er mun trefjaríkara en hrísgrjón auk þess að vera alíslensk lífræn framleiðsla. Bygg inniheldur líka flókin kolvetni sem halda sykurstuðlinum jöfnum og gefa þér orku og úthald yfir daginn. Ferskt grænmeti og sítróna eru stútfull af vítamínum og um hollustu ólífuolíu er óþarfi að fjölyrða.

Sólveig Hulsdunk Georgsdóttir

Grafðu þar sem þú stendur

Ég var að segja fólki sem sat hjá mér námskeið í greinaskrifum að skýr hugsun væri forsenda skýrra skrifa þegar einn þátttakenda spurði:

– Hvernig get ég gert hugsun mína skýrari?

Mig setti hljóða enda hafði enginn spurt þessarar eðlilegu spurningar áður. Andartak fylltist hugurinn minninga um ævilanga viðleitni við að skerpa mína eigin hugsun en svo laukst svarið upp:

-Þú öðlast skýra sýn með því að temja þér að skrifa skýran texta.

Já, ég veit, röksemdafærslan hefur hér farið í hring og bitið í skottið í sér. Ég stend samt við svarið: Skýr hugsun og skýr skrif haldast í hendur og hafa óhjákvæmilega gagnkvæm áhrif.

Auðvitað sækjast ekki allir eftir því að skrifa alltaf ákaflega skýran stíl. Hina textana þarf líka að skrifa, þessa djúpu og marglaga, teygjanlegu og túlkanlegu. En óræður texti krefst ekki síður skýrleika í hugsun enda þarf lesandinn enn fremur að geta treyst leiðsögn höfundar þegar merkingin blasir ekki við.

Myndlistarnám ritlistarkennarans
Öfugt við aðrar listgreinar eiga skapandi skrif (creative writing) sér stutta sögu sem námsgrein. Hefði ég vitað þegar ég setti upp stúdentshúfuna vorið 1977 að út í Ameríku væri farið að kenna ritlist hefði ég örugglega hoppað um borð í næstu vél vestur. Hér heima hafði ég aldrei heyrt minnst á að skrif væri hægt að kenna heldur var ritfærnin talin aðeins útvöldum í blóð borin.

Ritlist byrjaði að skjóta rótum í bandarísku menntakerfi upp úr síðari heimstyrjöld. Það þurfti hins vegar kapphlaup Bandaríkjamanna og Rússa til tunglsins til að námskrárfræðingar og ráðamenn vestra skildu að til þess að geimfarar gætu stigið risaskref fyrir mannkyn þyrfti allur almenningur að geta tjáð sig skammlaust í ræðu og riti. Jákvæð aukaverkun stjörnustríðsins var námskrárbylting í bandarískum skólum sem lagði meðal annars áherslu á munnlega og skriflega tjáningu á öllum skólastigum.

Sjálf valdi ég myndlistarnám og lærði þar að taka eftir því sem ég sé, færni sem gagnast rithöfundum ekki síður en myndlistarmönnum. Kennslufræði myndlistar, sem ég lærði í Myndlista- og handíðaskólanum, hefur líka nýst mér ákaflega vel í ritlistarkennslu, einkum það að kunna að fá fólk til að vinna. Þegar ég er spurð hvað sé besta aðferðin til að byrja að skrifa svara ég ævinlega:

– Ég þekki enga aðferð til að byrja að skrifa aðra en þá að byrja að skrifa.

Ævistarfið
Ritlistarkennslu var ég svo heppin að kynnast norður í Lapplandshéraði Svíþjóðar á níunda áratug síðustu aldar. Ég fékk að taka þátt í þróunarverkefni með þekktum, sænskum rithöfundum sem fengust við að þróa aðferðir til að kenna sitt fag. Ég heillaðist af nýstárlegum hugmyndunum og yfirskrift verkefnisins greyptist í huga mér:  Gräv där du står.

Orðin hafa æ síðar verið mér leiðarljós í allri kennslu: Grafið þar sem þið standið. Leitið ekki langt yfir skammt. Vökvið ræturnar. Verið þið sjálf.

Kennslureynslunni ríkari hef ég í þrjátíu og fimm ár fengið að þróa sex ólík ritlistarnámskeið og kenna þau öllum almenningi. Ég leiðbeini fólki með áherslu á sköpunarhæfni, áhugahvöt og flæði. Ég leiði fólk um ólíkar frásagnaraðferðir í skálduðum jafnt sem óskálduðum sögum og horfi á höfunda takast á við þroskandi átök við skrifin. Hátt á fjórða áratug hef ég fengið að skyggnast inn í hugarheim hundruða höfunda af öllum stéttum og stigum, hérlendis og erlendis. Er hægt að vera heppnari með ævistarfið?

Björg Árnadóttir er rithöfundur, ritlistarkennari, MA í menntunarfræðum skapandi greina og eigandi Stílvopnsins. www.stilvopnid.is

Lífsháski eða listin að lifa. Hvort viltu?

Lífs­lík­ur Íslend­inga eru nokkuð góðar miðað við um­heim­inn og eru Íslend­ing­ar í 22. sæti lang­líf­ustu þjóða heims. Kon­ur sem fæðast á Íslandi geta reiknað með að verða um 84 ára en karl­ar um 81 árs að meðaltali.

Lífs­lík­ur við heil­brigða ævi er mæli­kv­arði sem seg­ir til um hversu lengi fólk má vænta þess að lifa án þess að van­heilsa hamli dag­legu lífi.

Í nýlegri skýrslu frá heil­brigðisráðuneyt­inu má sjá að heil­brigð ævi kvenna á Íslandi mæld­ist árið 2021 tæp­lega 64 ár og karla tæp­lega 70 ár. Þetta þýðir að meðal­kona á Íslandi get­ur reiknað með að búa við skerta heilsu og skert lífs­gæði síðustu tvo ára­tug­ina og karl­ar um 11 síðustu ævi­ár­in. Ef þetta er ekki ævikvöldið sem þú vilt sjá fyr­ir þér þá er ým­is­legt til ráða.

Það er aldrei of snemmt að byrja að huga að þriðja æviskeiðinu, efri árunum. En ef við höfum gleymt okkur þá er betra seint en aldrei!

Þriðja æviskeiðið á að vera uppskerutími í lífinu og ætti því að vera besta æviskeiðið þar sem lífsgæða er notið og tíminn nýttur eins vel og mögulegt er til að gera það sem maður vill. En hvað viljum við? Því verður hver og einn að svara fyrir sig. En mikilvægt er að spyrja sig og helst að komast að niðurstöðu. Þegar niðurstaða er fengin þá byrja að hefjast handa! Tíminn bíður ekki. Tíminn er núna.

Lífsgæði snúast um marga þætti, yfir sumum þeirra höfum við vald og öðrum ekki.

Hreysti, virkni, félagsleg tengsl, andleg og líkamleg líðan og fjárhagur skiptir miklu máli.

Það er lífshættulegt að lifa en við getum minnað áhættuna. Það gerum við fyrst og fremst með því að auka líkur okkar á að lifa eins góðu og innhaldsríku lífi og okkur er unnt. Til að svo geti orðið verðum við að vera meðvituð um stöðu okkar og hvernig við getum eflt lífsgæðin.

Hvernig lífi viljum við lifa?

Það er hægt að setja sér markmið með utanaðkomandi aðstoð. Alheimsvefurinn er fullur af góðum ráðum til þeirra sem vilja finna góð ráð og sjálfsagt að verja góðum tíma til að afla sér upplýsinga og hugmynda um allt það sem getur eflt lífsgæðin.

Síðan eru fjölmargir aðilar sem veita ráðgjöf í ýmsum þeim málaflokkum sem fólk vill efla hæfni sína og getu til að takast á við þriðja æviskeiðið með auknum gæðum.

Vegna þess hve þessi aldurshópur fer sístækkandi þá eru æ fleiri sem bjóða upp á sérfræðiþjónustu við að veita ráðgjöf og hreinlega að mennta fólk í því að vera á þriðja aldursskeiðinu. Það er jafnvel hægt að ganga í háskóla til þess. Þá erum við ekki bara að tala um U3A (University of the Third Age) – Háskóla þriðja æviskeiðsins, heldur einnig menntastofnun eins og Háskólann í Reykjavík.

Sem dæmi um það má nefna námið MAGNAVITA sem er haldið í samvinnu við  Háskólann í Reykjavík. Það er „eins árs nám sem er fjárfesting í framtíðinni“ eins og það er kynnt. Námið er ætlað fólki á aldrinum 55 – 75 ára. Kennt er einu sinni í viku. Námið er tvær annir, alls tíu námskeið og hvert þeirra í einn til þrjá daga. Boðið hefur verið upp á þetta nám síðan 2022 og æ fleiri sækja til að undirbúa sig fyrir „bestu árin“.

Viðar Eggertsson

Þetta reddast

Mynd: Hans Kr. Guðmundsson
Samstarfsaðili U3A Reykjavík til margra ára er UPUA (Universidad Permanente de la Universidad de Alicante), einn af háskólum þriðja æviskeiðsins á Spáni. Samstarfið hófst árið 2014 með BALL verkefninu og síðar með HeiM verkefninu, hvort tveggja evrópsk samstarfsverkefni styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins, en afrakstur beggja verkefna hefur vakið athygli og hlotið viðurkenningu víða um heim. Sjá má umfjöllun um þessi verkefni á vefsíðu U3A Reykjavík um erlent samstarf .

Síðastliðið vor kom átta manna hópur eldri nemenda frá UPUA til Íslands sem fengið hafði Erasmus+ hreyfanleikastyrk til fullorðinsfræðslu. Móttökuhópur félaga í U3A Reykjavík tók á móti þessum gestum og skipulagði dagskrá í eina viku fyrir hópinn í samræmi við markmið heimsóknarinnar um að kynnast Íslandi, náttúru landsins, samfélagi og menningu. Skemmst er frá að segja að hópurinn var  vel undirbúinn með vel skilgreind námsmarkmið. Óhætt er að segja að þessi vika var afar ánægjuleg upplifun fyrir gestgjafa jafnt sem gesti. Sjá má stutta frásögn af þessari heimsókn hér á vef U3A Reykjavík.

Meðal þess sem gestirnir lærðu um íslenskt samfélag var orðtakið „Þetta reddast“ sem óspart var notað í samræðum um hið íslenska samfélag og gangverk þess. Tóku gestirnir þetta til sín með ríkum skilningi og ánægju yfir því að fá innsýn í íslenska þjóðarsál á svo hnitmiðaðan hátt.

Alicante hópurinn hefur  eftir að heim var komið unnið úr upplifun sinni á Íslandi og því sem þau lærðu um land og þjóð. Við viljum vekja athygli á nýjum vef sem einn gestanna, Guillermo Blanco Labandera, hefur sett upp með það að markmiði að stuðla að jákvæðum samskiptum Íslands og Spánar með skoðanaskiptum, þekkingarmiðlun og ánægjuauka. Og hvað haldið þið að vefurinn heiti. Auðvitað „Þetta reddast“ með slóðina www.zetta-reddast.org

Vefurinn er enn í burðarliðnum og að mestu enn á spænsku en verður einnig aðgengilegur á ensku eins og við verður komið. Þetta verkefni er stutt af UPUA og hefur U3A Reykjavík  boðist að taka þátt og geta félagar  nú þegar skoðað vefinn og tekið þátt í skoðanaskiptum. Ein af félögum U3A Reykjavík, Auður Leifsdóttir, sem tók þátt í móttöku hópsins í fyrravor, hefur þegar tekið virkan þátt í þessum samskiptum fyrir Íslands hönd og mun hún halda erindi í Alicante 4. mars um menntun á Íslandi, „Próxima Actividad: La Educación en España e Islandia: II Parte“ en menntamál eru fyrsti málaflokkurinn sem tekinn er til skoðunar í þessu samstarfi.  Auður mun halda erindið á spænsku og verður því streymt,  og upptaka gerð aðgengileg á vefnum með enskum undirtexta.

Þetta skemmtilega frumkvæði Guillermos er allrar athygli vert og við hvetjum ykkur sem hafið áhuga á samskiptum við Spán, og þá sérstaklega Alicante, til þess að skoða þennan vef og njóta þess sem hann býður uppá.

Hans Kr. Guðmundssonn

Skjáskot af vef zetta-reddast.org

Ný upplýsingagátt fyrir eldra fólk

Rýnihópur upplýsingagáttar eldra fólks
Í Fréttabréfinu okkar í í febrúar 2023 fjölluðum við um drög heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráherra að aðgerðaráætlun sem nefnist Gott að eldast. Aðgerðaráætlunin er til fjögurra ára, og er heildarendurskoðun á þjónustu Ríkisins við eldra fólk. Málefni eldri borgara heyra að mestu leyti undir þessi  tvö ráðuneyti, að viðbættu fjármálaráðuneytinu sem heldur utan um pyngjuna. Drögin að aðgerðaáætluninni voru birt í Samráðsgáttinni og bárust 21 umsögn sem hægt er að lesa hér https://island.is/samradsgatt/mal/3366

Eitt af því sem aðgerðaáætlunin felur í sér er að búa til og reka upplýsingagátt þar sem safnað er saman upplýsingum um hvað eina sem tengist þjónustu við eldra fólk svo sem réttindum þess og heilsueflingu.  Hópur eldra fólks var fengin til að aðstoða starfsfólk ráðuneytanna við að rýna nýju upplýsingagáttina, og voru elstu þátttakendurnir í rýnihópnum á tíræðisaldri. Í framhaldinu verður starfsfólki í öldrunarþjónustu boðið í sams konar rýni og svo að lokum aðstandendum eldra fólks.

Þó að rýni upplýsingagáttarinnar sé ekki lokið hefur hún þegar verið opnuð og hægt er að skoða hana með því að fara inn á island.is og smella á Að eldast. Þar má nálgast yfirgripsmikla umfjöllun um heilsueflingu, dagdvalir og dagþjálfun, íbúðir fyrir eldra fólk, breytingar á heilsufari eldra fólks, eftirlaun og stuðning við aðstandendur – svo nokkur dæmi séu tekin. Í ítarlegri umfjöllun í hverjum flokki er lesandanum síðan bent áfram á frekari upplýsingar.

Starfsfólki Gott að eldast hafa borist margar gagnlegar ábendingar og hvetjum við lesendur Fréttabréfsins til að leggja verkefninu lið og senda inn sínar ábendingar.

Hjördís Hendriksdóttir

Viðburðir U3A Reykjavík í mars 2024

F.v.: Freyr Eyjólfsson, Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason
Sjóminjasafnið í Reykjavík
Í mars höldum við áfram að bjóða upp á áhugaverða fyrirlestra og viðburði.

Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík.

Kíktu í Vöruhús tækifæranna

Vöruhús tækifæranna er markaðstorg tækifæra fólks á þriðja æviskeiðinu sem vill móta framtíðina á eigin forsendum.