fbpx

Ellert B. Schram, fráfarandi formaður Félags eldri borgara í Reykjavík skrifar kveðjuorð til félaga sinna. Hann segist vera hættur sem formaður, en ekki sem samstarfsmaður.

Hvað er að vera gamall?

Ellert B. Schram

Eins og upplýst hefur verið, gef ég ekki lengur kost á mér sem formaður FEB. Ég hef verið í stjórninni og formaður í rúmlega fimm ár, ef með eru taldir þeir mánuðir sem veiran hefur komið í veg fyrir að halda aðalfund félagsins, vegna samkomubanns. Þessum ferli mínum er sem sagt að ljúka í næstu viku. Það er gaman frá því að segja að áður en ég var kosinn í stjórn FEB var ég ekki einu sinni meðlimur í félaginu, leiddi ekki hugann að aldrinum og hafði enga hugmynd um þá fjölbreyttu starfsemi, sem félagið býður upp á, auk þess að taka þátt í baráttu um betri hag fyrir þá sem þess þurfa.

Ég dáist að þessari starfsemi og gleðst yfir þeirri miklu eftirspurn og þátttöku eldri félaga í öllu því sem boðið er upp á. Ég er glaður og montinn að hafa verið með í þessu starfi. En ég ber litla virðingu fyrir sviknum kosningaloforðum og viðbrögðum ríkisstjórnar, þegar fátækt fólk er skilið eftir og sniðgengið þegar almannatryggingar og lífeyrir eru annars vegar. Flokkurinn sem stjórnar ríkisstjórninni og forsætisráðherrann sjálf og hennar flokkur, lofuðu fyrir síðustu kosningar að “bæta kjör eldra fólks með því að hækka lífeyri eldri borgara og fyrst og fremst að tryggja þurfi að enginn sé lengur undir fátæktarmörkum.

Þetta voru kosningaloforðin en því miður engar efndirnar.

Grái herinn, í nafni eldri borgara, hefur hafið málaferli gagnvart yfirvöldum og FEB styður fjárhagslega, það dómsmál. Eldri borgarar vilja ekki og geta ekki beðið lengur.

Ég sem kominn er á níræðisaldur, enn þá spriklandi og lifandi, segi stundum við sjálfan mig: af hverju er lífið svona stutt?  Þegar ég lít til baka, og rifja upp lífshlaup mitt, sé ég og upplifi hvað það er í raun stuttur sprettur, að lifa og vera til.

Af hverju er eldri borgurum ekki veitt aðstoð við hæfi þegar kemur á efri ár?

Af hverju er ekki komið til móts við þau sem búa við einangrun og fátækt og ýmis erfið viðfangsefni, sem geta fylgt aldrinum?  Í afskiptum mínum í félagi sem starfar í þágu eldri borgara, hefur mér verið ljóst að hópurinn og fjöldinn veit og skilur að þetta eru síðustu sporin í lífinu og þeir vilja njóta tilverunnar, svo lengi og svo vel, sem örlögin bjóða upp á.

Kæru vinir

Ég er hættur sem formaður, en ekki sem samstarfsmaður. Ég er orðinn eldri en enn með í liðinu. Með í lífinu. Með ykkur öllum.

Kveðja
Ellert B Schram

Pistillinn birtist fyrst á vefritinu Lifðu núna

Aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík, sem halda átti  12. mars síðast liðinn, var frestað vegna kórónuveirufaraldursins, en nú er hann kominn aftur á dagskrá þremur mánuðum síðar og verður haldinn þriðjudaginn 16.júní klukkan 14 í Súlnasalnum á Hótel Sögu. Félagar eru hvattir til að hafa mér sér félagsskírteini á fundinn.

Nýr formaður verður kjörinn á fundinum og er þetta í fyrsta sinn sem kosið er milli manna í formannskjöri hjá FEB, eftir því sem Lifðu núna kemst næst. Þeir sem bjóða sig fram eru; Borgþór Kjærnested, Haukur Arnþórsson og Ingibjörg H. Sverrisdóttir.

Sextán bjóða sig fram til setu í stjórn félagsins, og hafa aldrei verið jafn margir í framboði til stjórnar.

Fólk þarf að hafa skráð sig í FEB Reykjavík fyrir kl. 14.00 mánudaginn 15. júní til að geta haft atkvæðisrétt á aðalfundinum. HÉR er hægt að skrá sig.

Flag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er lang stærsta aðildarfélagið innan vébanda LEB og telur um 12.600 félagsmenn.