fbpx

 

Aðalfundur Félags eldri borgara á Suðurnesjum haldinn 4. mars 2022 hefur samþykkt áskorun til ríkisstjórnar og Alþingis sem Sigurgeir Jónsson úr Sandgerði lagði fram á fundinum. Áskorunina og greinargerð má lesa hér að neðan.

 

Áskorun

Aðalfundur Félags eldri borgara á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ 4. mars 2022, skorar á ríkisstjórn og Alþingi að framfylgja 69. grein laga nr. 100/2007, um að hækkanir á bótum til aldraðra og öryrkja skuli fylgja launaþróun og ef ágiskuð hækkun í fjárlögum, sem greidd er úr 1. jan. hvert ár, fyrir viðkomandi ár, reynist lægri en meðallaunaþróun ársins, samkvæmt útgefinni meðallaunaþróun af Hagstofu Íslands fyrir það ár, skuli Tryggingastofnun ríkisins greiða mismuninn til bótaþega 1. júlí.

 

Greinargerð

Á síðustu árum hefur sú ágiskaða launaþróun, sem hefur verið tilgreind í fjárlögum þegar kemur að hækkun bóta til aldraðra og öryrkja, reynst lægri en sú meðallaunaþróun útgefin af Hagstofu Íslands, hefur reynst fyrir hvert ár. Í fjárlögum fyrir árið 2020, samþykkum af Alþingi 2019, var ágiskuð launaþróun ársins 2020, 3,6%. Á vef Hagstofu Íslands um meðallaunaþróun ársins 2020, kemur fram að meðallaunaþróun ársins 2020 reyndist 7,0%. Mismunur á launaþróun 3,4%. Ágiskuð launaþróun í fjárlögum fyrir árið 2021, samþykktum af Alþingi 2020 var 3,6%. Meðallaunaþróun fyrir árið 2021, samkvæmt Hagstofu Íslands reyndist 7,5%. Mismunur 3,9%. Eðlilegt hlýtur að teljast samkvæmt 69. gr. laga nr. 100/2007, að Tryggingastofnun verði gert að greiða mismuninn og sambærilegan mismun í framtíðinni, sem upp kann að koma.

Umboðsmaður Alþingis sendi bréf til ráðherra og Velferðarnefndar Alþingis, dags. 1. október 2019, þar sem hann gerði athugasemd við afgreiðslu stjórnvalda á því ákvæði í lögum almannatrygginga er varðar viðmið um launaþróun og bendir hann á að bæta verði úr því.

Við því hafa stjórnvöld og Alþingi ekki orðið.