fbpx

Breytingar hafa verið gerðar á lögum sem felast m.a. í því að útgreiðslur séreignarlífeyris frá lífeyrissjóðum sem byggjast á skyldubundnu iðgjaldi munu teljast til tekna við útreikning á ellilífeyri og tekjutryggingu örorkulífeyris frá TR, hjá þeim sem byrja að taka lífeyri hjá stofnuninni frá og með 1. janúar 2023. Markmið laganna er að jafna áhrif lágmarksiðgjalds á lífeyri frá TR.

Undanþága gildir fyrir þau sem nú þegar hafa hafið töku lífeyris hjá TR eða sækja um lífeyri fyrir 1. janúar 2023, að því gefnu að sótt sé um lífeyri fyrir árið 2022 eða fyrr. Útgreiðslur séreignarlífeyris munu ekki teljast til tekna við útreikning á framangreindum greiðslutegundum hjá þeim.

Engin breyting verður á viðbótarlífeyrissparnaði sem takmarkast við allt að 4% framlag sjóðfélaga og 2% framlag launagreiðanda. Hann mun áfram ekki teljast til tekna við útreikning á lífeyri frá TR.

Hverja varðar þá breytingin?

Breytingin hefur fyrst og fremst áhrif á þau sem hafa greitt skyldubundin iðgjöld í séreignarsjóði hjá Almenna lífeyrissjóðnum, Frjálsa lífeyrissjóðnum, Íslenska lífeyrissjóðnum, Lífsverki og Lífeyrissjóði Tannlæknafélags Íslands.

Einnig getur breytingin haft áhrif á þau sem ráðstöfuðu hluta af sínu skyldubundna iðgjaldi í tilgreinda séreign sem ákveðnir lífeyrissjóðir hafa boðið upp á frá árinu 2016.

Breytingin hefur engin áhrif á þau sem hafa hafið töku lífeyris hjá TR eða þau sem sækja um lífeyri fyrir 1. janúar 2023 og upphaf lífeyristöku er á árinu 2022 eða fyrr. Undanþága gildir fyrir þann hóp eins og fram kemur hér að ofan.

Þá hefur breytingin engin áhrif á þau sem hafa greitt sín skyldubundnu iðgjöld eingöngu í samtryggingarsjóði eins og t.d. Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóð verslunarmanna eða Gildi sem og þá sem hafa greitt til viðbótar aðeins í viðbótarlífeyrissparnað 4%+2%.

Hvað þarf að gera?

Mikilvægt er að þau sem hafa ráðstafað skyldubundnu iðgjaldi í séreignarsjóði og hafa ekki hafið töku lífeyris hjá TR kynni sér vel áhrif breytinganna. Það á sérstaklega við um þau sem geta átt rétt á ellilífeyri frá TR fyrir 1. janúar 2023 en til þess að falla undir „gömlu“ regluna þarf umsókn að hafa borist stofnuninni í síðasta lagi 31. desember 2022 og upphaf lífeyristöku að vera á árinu 2022 eða fyrr. Í því sambandi er rétt að geta þess að hægt er að hefja töku ellilífeyris allt frá 65 ára aldri.

Hér má nálgast lögin.

Nánari upplýsingar um áhrif breytinganna má finna í spurt og svarað hér.

Mynd til frekari skýringar:

Picture1.png

Myndin er úr glærukynningu fjármála- og efnahagsráðuneytis sem fór fram til kynningar á frumvarpi til laganna.