Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB – Landssambands eldri borgara skrifar:
Nú stöndum við frammi fyrir að veiran Covid-19 vill ekki gefa eftir og læðist um í samfélaginu. Hvað er þá til ráða fyrir okkur eldra fólkið? Við viljum standa okkur og erum að gera það. Samkvæmt öllu sem okkar færustu aðilar í sóttvörnum segja eru varnir til, s.s. handþvottur, sprittun, hanskar og grímur, og ef farið er eftir reglum um nánd þá ættum við að geta lifað með þessu um einhvern tíma. Það er mikilvægt að við stöndum saman og þannig munum við komast í gegnum nokkra skafla þar til bólusetning verður raunhæfur möguleiki.
Á næsta leyti er svo hefðbundin flensa sem mun koma síðar í vetur en bóluefni er á leiðinni og er það sérstaklega ætlað heilbrigðisfólki, framlínufólki og svo eldra fólki. Verið því á verði og látið bólusetja ykkur fyrir hinni árlegu flensu. Samstaðan mun sigra í þessu eins og öðru. Vinnum líka að því að styðja fólkið okkar sem þess þarf, t.d. vegna einmanaleika og óöryggis. Margar lausnir eru til, s.s. símavinir, heimsóknarvinir og göngufélagar. Hreyfingin er alveg ómissandi og alls ekki hætta henni. Nota allt sem býðst bæði innan- og utanhúss svo og morgunleikfimi í útvarpi sem hjálpar mörgum. Við skorum á RÚV að koma líka með leikfimina í sjónvarp.
Nýr bæklingur um hvað er til ráða í einmanaleika er til og hægt að fá hann hjá LEB og félögum eldri borgara um allt land.Unnið verður að því á næstunni að finna eldra fólk af erlendum uppruna sem talið er vera félagslega einangrað.Mörg önnur verkefni eru í vinnslu og mun þar reyna á gang veirunnar líka. Þau verkefni snúa að mismunandi þáttum í okkar daglega lífi, s.s. akstri á efri árum til að skoða hvað fólk vill gera þegar akstur verður of erfiður eða veikindi hindra. Unnið verður í samvinnu við Samgöngustofu en þar erum við að skoða nýjar leiðir sem vert er að skoða vel.
Þá er mikilvægt að minna á spjaldtölvukennslu og kennslubæklinga (sjá nánar HÉR) sem voru unnir á vegum LEB til að efla tölvufærni eldra fólks. Nú er sérstök þörf á að efla færni þeirra sem hafa misst af rafrænu breytingunni, s.s. að geta sótt um allt mögulegt á netinu, skilað gögnum eða farið í netbanka. Þetta eflir sjálfstæði eldra fólks auk þess sem samskipti við hina nánustu eflast. Þessi rafræna færni er gríðarlega mikilvæg í dag því margar skrifstofur eru illa mannaðar vegna áhættu um smit. Áskorun til fólks og aðstandenda er að hjálpast að við að fjölga notendum rafrænna leiða.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er nú að hvetja fólk til að vernda andlegu heilsuna m.a. með því að hlusta ekki á marga fréttatíma á dag um þessi veikindi um allan heim og gang þeirra því það geti leitt til þunglyndis og mikillar vanlíðunar. Jafnframt skorar stofnunin á fólk að hreyfa sig oft og reglulega. Við þetta má bæta að það að nota jákvæða hugsun og uppbyggjandi samtöl er gott og gagnlegt okkur öllum.
Fólk er hvatt til að leita læknis ef minnsti grunur leikur á einhverjum veikindum. Allt aðgengi að læknaþjónustu hefur stórbatnað og kemur Heilsuvera.is sterk inn. Heilsuvera.is er enn eitt dæmið um mikilvægi þess að geta verið virkur á netinu fram eftir aldri.
Sú nýja leið sem er að opnast um sálfræðiþjónustu er afar brýn, einmitt við þessar aðstæður sem nú eru. Kynningu á hvernig og hversu oft hver getur sótt sér slíka hjálp munum við birta sem fyrst.
Hvatning okkar í stjórn LEB til allra eldri borgara er að huga að hollustu næringar daglega. Holl rétt næring eflir mótstöðuafl hverrar manneskju. Mótstöðuaflið er máttur líkamans til að bregðast við áföllum og veikindum og eiga gott líf. Munum líka eftir lýsinu sem gefur okkur alltaf styrk. Sameiginlega munum við öll berjast fyrir því að eiga góð efri ár alla daga fram undan. Við getum öll hjálpast að við að ná góðum árangri gegn veirunni.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB – Landssambands eldri borgara
formadur@leb.is