Á aðalfundi Félags eldri borgara í Húnaþingi sem var haldinn 28. mars sl. var samþykkt ályktun og einnig samþykkt, sem eru hér fyir neðan:
Ályktun frá aðalfundi Félags eldri borgara í Húnaþingi 28. mars 2023.
Við könnun á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins vegna greiðslna á lífeyri til eldra fólks, kemur í ljós að allt að helmingur þessa hóps hefur lífeyri undir lágmarkstekum á vinnumarkaði til að framfleyta sér á. Orsök þessa margar meðal annars of lágur lífeyrir frá TR og miklar skerðingar á greiðslum úr lífeyrissjóðum. Landssamband eldri borgara ( LEB) hefur á undanförnum árum vakið athygli á þessu óréttlæti og rætt hefur við ráðherra og stofnanir sem með þessi mál fara.
Þar virðist áhugaleysi ríkja hvað þessi málefni varðar.
Raunveruleikinn er sá að bilið á milli lífeyris almannatrygginga og lágmarkslauna er alltaf að breikka . Lífeyrir frá TR er ekki að hækka í takt við launaþróun og frítekjumörk hækka ekki í takt við breytt verðlag.
Aðalfundur FEBH , haldinn 28. mars 2023 , skorar á stjórnvöld þessa lands að gera breytingar á regluverki TR og lífeyri þaðan, svo allir sem eftirlauna eiga að njóta, geti lifað með reisn í okkar ríka land.
Pólitískur vilji er allt sem þarf.
Samþykkt frá aðalfundi Félags eldri borgara í Húnaþingi.
Aðalfundur Félags eldri borgara í Húnaþingi, haldinn 28. mars 2023 styður málssokn Gráa hersins gegn íslenska ríkinu .
Grái herinn hefur nú áfrýjað dómi Hæstaréttar Íslands frá byrjun nóvember á síðasta ári til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg .
Með áfrýjuninni er reynt til að fá það viðurkennt að núgildandi skerðingarreglur almannatryggingalaga séu úr hófi og standist hvorki íslensku stjórnarskrána né Mannréttindasáttmála Evrópu.
Margir hafa lagt sitt lið við kostnað þessa málareksturs þar á meðal mörg félög eldri borgara og lagði okkar félag kr. 50.000 í málskostnaðarsjóðinn sem hefur staðið undir málarekstrinum og stendur á sléttu í dag.
Aðalfundur Félags eldri borgara í Húnaþingi samþykkir að ábyrgjast allt að 100 þúsund kr. framlag til málssóknar Gráa hersins, gerist þess þörf.