fbpx


Helgi Pétursson formaður LEB skrifar pistilinn:

 

Við félagar í LEB – Landssambandi eldri borgara, stjórn þess, kjaranefnd og 55 félög eldra fólks um allt land höfum gengið frá sameiginlegri stefnu í kjaramálum og kynnt hana á fjölmörgum fundum víða um land. Umfangsmesta kynningin var á málþingi í Reykjavík núna í haust sem var mjög fjölsótt og streymt til þúsunda manna um allt land.

Þingmenn, ráðherrar og aðilar vinnumarkaðarins komu til málþingsins þar sem við lögðum  m.a. áherslu á hækkun almenna frítekjumarksins, að ellilífeyrir almannatrygginga verði aldrei lægri en lægsti launataxti og að árlegar hækkanir þessa fylgi launavísitölu.

Við höfum lagt sérstaka áherslu á aðgerðir fyrir þau verst settu, en eins og fram hefur komið er talið að uppundir tuttugu þúsund manns séu við eða undir lágmarksframfærslumöguleikum. Þar höfum við rætt um sérstakt skattþrep, engar skerðingar og að skoðaðar verði sérstakar greiðslur til þeirra sem eru undir almennu framfærsluviðmiði.

Gera þarf fjölmargar breytingar á stagbættu lífeyriskerfi svo að auðvelda megi og það verði hvetjandi fyrir þá sem geta og vilja vinna lengur öllum til hagsbóta.

Við höfum sótt samráðsfundi með Tryggingastofnun ríkisins sem m.a. telur að fullbúnir launaseðlar frá TR sjái dagsins ljós á fyrstu mánuðum nýja ársins.

Sérstaka ánægju vekja viðbrögð forystu Alþýðusambands Íslands sem telja eðlilegt að verkalýðshreyfingin styðji  baráttu sinna fyrrum félagsmanna sem flestir hafa tengst launþegahreyfingunni með einum eða öðrum hætti í meira en fimmtíu ár. Hugmyndir LEB falla vel að sameiginlegum áherslum aðila vinnumarkaðarins um breytingar á tilfærslukerfum.

Ég vil að endingu þakka formönnum og stjórnarmönnum eina fimmtán fjarfundi um allt milli himins og jarðar sem viðkemur málefnum eldra fólks og geng glaður til starfa á nýju ári.

Gleðilegt ár!

Helgi Pétursson, formaður LEB – Landssambands eldri borgara