fbpx

 

„Við hvað eru þeir hræddir, af hverju hafa þeir frestað málinu aftur og aftur? Trúlega vita þeir uppá sig sökina og vita ekki hvernig þeir eiga að haga sér. Þetta snýst um  svo mikla peninga. En gætu stjórnmálamennirnir ekki bara farið að spara hjá sjálfum sér? Það eru alls kyns fríðindi sem þeir hafa sem almenningur hefur ekki. Ættu þeir ekki bara að mæta í vinnuna eins og annað fólk, án þess að vera með einkabílstjóra og alls kyns fríðindi?“ segir Sigríður J. Guðmundsdóttir á Selfossi,  ein þremenninganna sem fór í mál við ríkið fyrir hönd Gráa hersins, vegna skerðinganna í almannatryggingakerfinu. Hin eru Ingibjörg H. Sverrisdóttir og Wilhelm G. Wessman. Aðalmeðferð málsins átti að fara fram 7.september, en var frestað til 5. október. Síðan var málinu enn frestað og nú er aðalmeðferðin fyrirhuguð föstudaginn 29. október.

Mál Gráa hersins tekið fyrir í nóvember í fyrra

Ekki heiðarlegt að gera eignir fólks upptækar með þessum hætti

Sigríður sem yfirleitt er kölluð Sirrý, skrifaði fyrir nokkrum árum grein þar sem hún gagnrýndi skerðingarnar harðlega og var í kjölfarið spurð hvort hún gæti hugsað sér að taka þátt í að stefna ríkinu vegna málsins. „Ég var fyrst ein og síðan bættust þessi tvö við. Lögmönnunum fannst sterkara að við værum fleiri, ekki bara ein lítil kerling frá Selfossi“, segir hún hlæjandi. „Með skerðingunum er verið að taka ófrjálsri hendi peninga sem fólkið á. Þegar lífeyrissjóðirnir voru að byrja árið 1969 kom skýrt og greinilega fram að þetta væru sjóðir sem við launafólkið myndum eiga til elliáranna þegar við hættum að  vinna. Þetta átti að vera viðbót við greiðslur almannatrygginga. Þegar ég hætti að vinna lenti ég eiginlega strax í skerðingunum. Þetta er ekki boðlegt og við getum ekki tekið þessu með þegjandi þögninni. Sumir eru undir lágmarkslaunum vegna skerðinganna. Það er kannski ljótt að segja að þetta sé þjófnaður, en það er ekki heiðarlegt að gera eignir fólks upptækar með þessum hætti. Þess vegna var ákveðið að fara í mál við ríkið, þannig að það hætti að seilast ofan í vasa launþeganna“.

Viljum að skerðingunum verði hætt

Sirrý er heitt í hamsi og hún er líka þeirrar skoðunar að það eigi ekki að skattleggja fólk sem er undir lágmarkslaunum.  „Þetta fólk er búið að borga skatta alla sína hunds og kattar tíð.Við erum ekki að fara þess á leit að ríkið greiði fólki skerðingarnar til baka langt aftur í tímann. Við viljum bara fá þetta leiðrétt, að skerðingunum verði hætt og að við fáum réttláta málsmeðferð“. Hún hefur trú á að málið geti unnist og að dómur náist jafnvel fyrir jól. „Það væri besta jólagjöfin, jólagjöf ársins 2021!“ segir hún.

Kostar hjón á Selfossi 25.000 krónur að bregða sér á söngleik

Sirrý telur að eldra fólk á Selfossi líði ekki skort og hafi það nokkuð sæmilegt, en ekkert fram yfir það. Það hafi ekki efni á að leika sér. „Það eru ekki nærri allir sem geta það þó þeir vildu“ segir hún og bendir á að það kosti hjón á Selfossi 25.000 krónur að fara til dæmis á söngleik í borginni. „Þetta er mikill peningur fyrir þann sem er rétt undir 300.000 krónum á mánuði. Ég er til dæmis með undir 300.000 krónum. Skrifstofustörfin sem ég var í stóran hluta ævinnar voru ekki vel borguð, þótt titillinn væri kannski flottur „einkaritari kaupfélagsstjóra“ Þá voru launin ekkert til að hrópa húrra fyrir“, segir hún en hún var í hálfu starfi þegar börnin voru lítil, en í fullu starfi eftir 1983, þar til hún hætti störfum á vinnumarkaði árið 2010.

Var ekkert um freknurnar og krullurnar gefið

Umferð í Bankastræti 1965

Sirrý fæddist á Hofsósi. Faðir hennar var úr Fljótunum en móðir hennar Húnvetningur. Fólkið hennar keypti jörðina Hraun í Fljótum, sem er stór hlunnindajörð. „Nú er búið að selja hana útlendingunum sem eru að leggja Fljótin undir sig“, segir hún. „Ég er alin upp í Reykjavík frá 5 ára aldri en tel mig vera mikinn Skagfirðing. Ég var alltaf í sveit hjá afa og ömmu og móðurbróðir mínum  þangað til ég var orðin svo mikil dama að mér fannst það fyrir neðan mína virðingu að vera í sveit“, rifjar hún upp. Líka að hún var á þessum árum rauðhærð, freknótt og rosalega hrokkinhærð. Henni var ekkert um krullurnar og freknurnar gefið og vildi, rétt eins og Vigdís Finnbogadóttir, fá að fara í Reykjavíkurapótek til að kaupa freknukrem. „Ég gleymi því aldrei hvað pabbi fékk mikið hláturskast þegar ég bað um pening fyrir kreminu“, segir Sirrý.

Ætlaði að vera eitt ár á Selfossi

Eiginmaður Sirrýar er Jón Pétursson rafvélavirki en þau kynntust fyrir utan Þórskaffi. Hann er Reykvíkingur og örlögin höguðu því þannig að Sirrý var í bíl með strák sem hún þóttist skotin í, fyrir utan skemmtistaðinn umrætt kvöld. „Hann skrúfar niður rúðuna og kallar í Jón sem kemur inní bílinn til okkar og Jón Pétursson lét mig bara ekki í friði eftir það“, segir hún blátt áfram.  Þetta átti að vera vinskapur en málin þróuðust þannig að þau urðu hjón, eignuðust tvö börn og fluttu á Selfoss árið 1965. Þar hefur Sirrý sem sagt búið meirihluta ævinnar. En hvers vegna Selfoss?  „Ég kom til að vera í eitt ár, bara til að þóknast foreldrum mínum. Þau höfðu flutt þangað fjórum árum áður, en pabbi var forstjóri Litla-Hrauns um tíma. Þau fluttu austur og linntu ekki látunum fyrr en ég kæmi líka. Ég sagði öllum vinum mínum að ég yrði komin í bæinn aftur eftir eitt ár, en ég er hér enn. Fólkið mitt fór hins vegar í burtu og skildi mig eftir“.  Sirrý segir að það hafi verið gott að búa á Selfossi og gott að ala þar upp börn.

Fór niður í þorp en þá var það orðið bær

Selfoss

Þegar þau fluttu til Selfoss  bjuggu þar um 1300 manns en núna eru um 11.000 manns í Árborg.  „Þetta er mikil breyting, bærinn hefur þanist út en þegar ég flutti var þetta þorp. Ég leigði hjá foreldrum mínum fyrir utan á. Þá gekk ég  yfir brúna til að fara niður í bæ. Það var hlegið að mér þegar ég talaði um að fara niður í bæ. „Þetta er þorp“ sögðu menn. Þegar ég svo loksins lærði að maður færi niður í þorp, þá var þetta orðinn bær“, segir Sirrý hlæjandi.  Hún hefur ævinlega verið áhugasöm um félagsmál og var um tíma formaður Félags eldri borgara í bænum og tekur ennþá þátt í ýmsu þar, til dæmis Íslendingasögunum. „Ég var að lesa í morgun, við erum að lesa Njálu“, segir hún. Sjálf stjórnar hún svokölluðum Öndvegisleshópi þar sem lesin eru öndvegisrit eins og nafnið gefur til kynna. Þar er verið að lesa Vesturfarasögur Böðvars Guðmundssonar.

Þetta er allt heilagur sannleikur

Sirrý hefur gaman af Íslendingasögunum. „En upptalning ættartengslanna er erfið. Sumir kunna þetta frá a til ö og ræða málin eins og þetta sé þeirra eigin ætt. Þeir eru svo dásamlegir þessir karlar. Svo er þrasað um söguna, hvort hún sé trúverðug eða ekki. Þar til einn kallaði upp. „Þið skuluð muna það elskurnar mínar að þetta er allt heilagur sannleikur“. Í tímanum í morgun lásum við lýsinguna á Gunnari Hámundarsyni. Hann var mikill á velli og stökk hæð sína í loft upp. Bent var á að Bjarni Harðarson hefði lýst Gunnari sem pínulitlum karli þess vegna gat hann stokkið hæð sína í fullum herklæðum. Það var hlegið að þessu og líka bent á að nú væri notuð ný tækni við stökk, þannig að menn stykkju nú afturábak. Þannig hefði þessi litli karl líklega stokkið, afturábak og upp í loft“.

Alltaf föstudagur og mánudagur

Sirrý finnst alltaf vera föstudagar og mánudagar

Dagarnir líða hratt hjá Sirrý. „Það segja sumir að ég sé ofvirk, svo hröð að ég mæti stundum sjálfri mér í dyrunum“, segir hún. Við ræðum um hvað það er skrítið að tíminn virðist líða hraðar og hraðar eftir því sem maður eldist. „ Já það er alltaf föstudagur eða mánudagur, það eru að verða tveir dagar í vikunni. Fimmtán ára langömmustelpan mín talar líka um þetta, að tíminn líði svo hratt. Þegar ég var fimmtán þá beið ég og beið. Eftir að komast í bíó, á böll, í ríkið og fá bílpróf. Mér fannst tíminn aldrei ætla að líða. Svo lítur maður um öxl og hrekkur við. Hvert fóru árin? Þetta er svo ótrúlegt, manni finnst maður ekki vera orðinn svona gamall. Þegar ég varð sjötug fannst mér ég ekkert vera það, á morgun verð ég 79 ára, ég er að verða áttræð! Hugurinn eldist ekki. Mér finnst þegar ég hugsa ég vera á sama róli og þegar ég var fimmtug, en ekki að ég sé að verða áttræð kerling. Það finnst mér engan veginn. Skrokkurinn er farinn að segja  til sín en hugurinn ekki“.

Vona að ég detti bara útaf einn góðan veðurdag

En þó Sirrý sé frísk, þá er Jón maðurinn hennar kominn með Alzheimer, en hann er orðinn 85 ára. Það varð til þess að þau seldu einbýlishúsið sem þau byggðu fyrir rúmlega hálfri öld og keyptu sér minni íbúð á jarðhæð, skammt frá þjónustunni við eldri borgara. Sonur þeirra lést ungur en dóttirin býr  í Reykjanesbæ.  Barnabörnin eru þrjú og eitt langömmubarn. „Þetta er lítil og pen fjölskylda, það er ekki verið að fjölga sér of mikið“, segir hún glettin.  Sirrý segir að það hafi ekki verið neitt vit í  öðru en selja húsið. „Þegar annar makinn er orðinn veikur og tekur ekki þátt, þá verður maður að taka sér tak og breyta, til að létta undir með sjálfum sér“, segir hún. Jón er á daginn á heimili fyrir heilabilað fólk, sem heitir Vinaminni. „Ég velti stundum  vöngum yfir framtíðinni, ég er orðin fullorðin og heilsan er happdrætti. Ég vona þegar þar að kemur að ég detti bara útaf einn góðan veðurdag og verði engum til ama. Ef maður gæti nú pantað það!“.

Greinin birtist fyrst hjá LIfðu núna.