Aðalfundur Nordisk samarbeidskomité for pensjonistorganisasjoner, Norræns sambands landssambanda eldri borgara, var í Drammen í Noregi í maímánuði. Þar eiga sæti tveir fulltrúar frá hverju Norðurlandanna og eru Færeyjar að sjálfsögðu í þeim hópi. Rætt hefur verið um að bjóða Grænlandi þátttöku en af því hefur ekki orðið enn.Fyrri daginn voru hefðbundin aðalfundarstörf í mikilli sátt og miklu samlyndi en mikið var rætt um þátttöku í AGE sem er félag eldri borgara innan Evrópusambandsins og á döfinni voru væntanlegar kosningar til Evrópuþingsins undir lok mánaðarins.
Ísland tekur ekki þátt í starfi AGE en fær fréttir af því hvað þar er rætt og ákveðið. Lögð var áhersla á að það skipti máli að rödd norðursins heyrist þar. Við hér í norðrinu getum tekið mikilvæg mál á dagskrá, hvatt til rannsókna og gert samanburð á umönnun aldraðra í löndum Evrópu. Það skiptir líka máli fyrir okkur hér að hafa þekkingu á því sem er bæði betra og verra en hjá okkur. AGE vinnur náið með Sameinuðu þjóðunum.
Seinni fundardaginn fluttu fulltrúar landanna skýrslu um starfsemi landssambanda á síðasta ári og kenndi þar margra grasa. Rauður þráður var samt í máli allra:
- Einmanaleiki meðal eldra fólks er ofarlega í huga allra landanna og aðferðir til að vinna gegn honum.
- Velferðartæknilausnir til að auka sjálfstæði og öryggi eldra fólks.
- Fátækt sem verður að koma í veg fyrir. Bent var á að snjalltækin sem skipta svo miklu máli t.d. í velferðartækninni og samskiptum manna á milli eru svo dýr, að fátækasta fólkið hefur ekki efni á að eignast þau.
Fundarmenn voru sammála um að á haustfundi yrði fátæktin aðalumræðuefnið. Gera þarf Norrænu ráðherranefndinni ljóst hvernig ástandið er og hverjar afleiðingarnar fátæktar eru. Gerð verður grein fyrir ástandinu í hverju landi fyrir sig fyrir fundinn og síðan verður niðurstaða fundarins afhent bæði AGE og Norrænu ráðherranefndinni.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB, sagði frá nefnd á vegum ráðuneytanna hér á Íslandi þar sem kortlagt hefur verið hverjir það eru sem eru fátækastir og hvernig hægt væri að bregðast við. Nú þurfi aðgerðir. Hún sagði frá auglýsingunum í RÚV sem LEB lét gera um gráhærða fólkið okkar sem allir treysta til góðra verka þrátt fyrir aldur og fékk góð viðbrögð við þeim.
Þórunn endaði mál sitt á því að við ættum endilega að taka höndum saman við unga fólkið okkar sem berst gegn umhverfisvánni. Að því var gerður góður rómur.
Drammen er í klukkutímalestarfjarlægð frá Gardemoen/Oslóarflugvelli. Fyrra kvöldið fengum við dýrindis mat í elsta starfandi brugghúsi Noregs, Aass bryggeri, stofnað 1834. Sumir smökkuðu bjórinn þeirra, aðrir gosdrykkina og fórum svo í vettvangsskoðun um þetta gamla fjölskyldufyrirtæki sem líka er safn. GÁg