Þórunn Sveinbjörnsdótti formaður LEB skrifar pistil um aldursfórdóma sem eldra fólk verður fyrir og segir m.a.: „Aldursfordómar eiga ekki að vera til. LEB telur það mannréttindabrot að hafna fólki vegna aldurs.“
Það er nú svo að í okkar góða landi eru víða mannréttindabrot. Vert er að fjalla um eitt þeirra sem snýr að starfslokum fólks á vinnumarkaði. Ótalinn fjöldi kvenna og karla hefur misst vinnu löngu fyrir töku lífeyris. Hvað tekur þá við? Jú, þrautaganga á atvinnuleysisbótum og margendurteknar umsóknir um atvinnu.
Umsóknum um atvinnu er sjaldan svarað og nánast aldrei boðið viðtal. Þarna er kennitalan að verki, segja flestir. Ekki er skoðuð færni, hæfni og reynsla. Þetta upplifir fólk sem mikla höfnun og niðurlægingu. Hvað er að á vinnumarkaðnum? Hér er um að ræða fólk sem mætir alltaf og er heill reynslubrunnur í sinni starfsgrein. Við þurfum nýja ráðningarstofu með nýjar hugmyndir um mannauð sem sérhæfir sig í þessum mannauði og hvernig best er að vekja fólk til meðvitundar um tapið sem atvinnulífið verður fyrir. Nokkrar hliðar eru á þessu stóra máli. Má þar nefna endurhæfingu á atvinnuleysisbótum sem þó nokkrum sinnum leiðir til atvinnutækifæra á vinnumarkaði en fleiri fara á örorku. Sú leið er dýr bæði vegna kostnaðar lífeyrissjóða og almannatrygginga en ekki síst í niðurbroti fólks við að vera ekki virkt í samfélaginu. Það þarf sterk bein og dugnað til að bogna ekki. Við gerum langflest ráð fyrir að vinna til 65 ára og upp í 70 ára, sem mörgum finnst vera lokatala, en vilja líka vinna fram yfir 70 ára aldur. Hátt í 20% vilja vinna lengur samkvæmt könnunum. Hvers vegna að negla fólk við afmælisdaginn sinn? Atvinnufrelsi er fallegt orð og ætti að vera meira notað.
Atvinnusköpun með miðaldra fólk í huga er vænlegur kostur og ætti líka að hvetja sprotafyrirtæki til að huga að þeim mannauði sem í eldra fólki býr. Í nýsköpun í matvælaiðnaði hafa verið teknar fram gamlar uppskriftir og eru margar þeirra að gera það gott. Eitt skemmtilegt dæmi um hvernig hjónabandssælan og randalínan urðu að sparikaffimeðlæti. Ég tala nú ekki um pönnukökurnar, sem allar ömmur eru beðnar um.
Víða erlendis er fólk að vinna hluta úr degi eins og á hótelum við morgunverðarhlaðborðin. LEB telur að það sé mannréttindabrot að hafna fólki vegna aldurs. Aldursfordómar eiga ekki að vera til. Lög um endurnýjun ökuskírteina eru eitt dæmi um fordóma; gömul lög þegar fólk um sjötugt var líkt og fólk er í dag um áttrætt. Við lifum lengur og getum æði margt mun lengur en foreldrar okkar. Danir hafa aflagt sambærilegar reglur og hér eru um endurnýjun ökuskírteina. Kostnaður fyrir samfélagið er mikill; læknisferð og ferð til sýslumanns, eina sem hefur batnað er að ekki þarf mynd í hvert sinn. Skorum á stjórnvöld að aflétta þessu úrelta kerfi. Æði margir vita ekki af því að það þarf að fá nýtt ökuskírteini 70 ára því enginn er að skoða svo gamalt próf, sem getur verið 53 ára gamalt. Var einhvern tíma á þessum 53 árum boðið upp á endurmenntun? Nei, en lítil tilraun var gerð fyrir nokkrum árum í ökuendurhæfingu með samgöngustofu. Það námskeið líkaði mjög vel og þarf að taka upp að nýju.
Vinnum að fjölbreyttara starfsvali á efri árum og sýnum fólki virðingu.
Verndum störfin okkar, gott fólk.
Höfundur er formaður Landssambands eldri borgara.
– Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu.