Ýmsar sögur hafa birst í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og spurningar vakna hvort þessar sögur um aðbúnað og ummönnun á þessum stöðum sem ganga manna á milli séu réttar.
Stjórn LEB hefur rætt málið og var ákveðið að Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB, óskaði eftir fundi með Landlækni, Ölmu Dagbjört Möller, um stöðuna.
Fundurinn var haldinn í húsakynnum Landlæknis við Rauðarárstíg í Reykjavík þann 28. ágúst 2019. Þar lýsti formaður LEB áhyggjum sínum spurði og hvort hægt væri að gera úttekt á þjónustunni á hjúkrunarheimilunum og inn á heimilunum. Eitt aðalmálið er vöntun á starfsfólki. Mjög mikið vanmat er á því fjármagni sem þarf til að geta rekið þessar stofnanir eins og þörf er á.
Landlæknir kvaðst deila þessum áhyggjum með LEB og sagði starfsfólk embættisins muni gera allt sem í þeirra valdi stæði til að greina þann vanda sem væri hér um að ræða og ráðast í þær úrbætur sem embættið gæti.
Sama dag samþykkti ríkisstjórnin að setja á fót starfshópa þar sem heilbrigðis-, mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið munu koma saman að því að finna leiðir til að bæta mönnun í heilbrigðisþjónustunni. Menntun heilbrigðisstarfsfólks og mönnun heilbrigðisþjónustunnar verður meðal annars til umfjöllunar á opnum fundi sem ber yfirskriftina Horft til framtíðar og haldinn verður í Veröld, húsi Vigdísar 5. september 2019.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar um mönnun heilbrigðisþjónustunnar í blaðagrein í Morgunblaðinu daginn eftir, eða 29. ágúst. Greinin er eftirfarandi:
MÖNNUN HEILBRIGÐISÞJÓNUSTUNNAR
Á síðustu árum hefur reynst vandkvæðum bundið að manna stöðugildi í tilteknum greinum heilbrigðisþjónustunnar. Því er aðkallandi að finna leiðir til að fjölga starfsfólki í mörgum heilbrigðisstéttum, auka starfshlutfall og snúa við atgervisflótta.
Ríkisstjórnin samþykkti í gær að setja á fót starfshópa þar sem heilbrigðis-, mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið munu koma saman að því að finna lausnir á þessu mikilvæga verkefni. Fjallað verður um menntun hjúkrunarfræðinga og leiðir til að fjölga í hópi þeirra sem útskrifast ár hvert, á sama hátt verður fjallað um menntun sjúkraliða og einnig um möguleika á viðbótarmenntun þeirra á ákveðnum sviðum og enn fremur verður fjallað um sérfræðinám lækna og aðgerðir m.a. til að skoða viðurkenningu sérnáms hérlendis í öðrum löndum.
Ríkisstjórnin ákvað einnig að skipa sérstakan starfshóp á vegum heilbrigðisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem m.a. á að leggja mat á raunhæfar leiðir til að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta, m.a. á grundvelli niðurstöðu könnunar meðal heilbrigðisstofnana, niðurstöðu samanburðar við aðrar þjóðir og fleira sem hópurinn metur málefnalegt. Markmiðið er að koma fram með tillögur sem leitt geta til þess að heilbrigðisstarfsfólk haldist í starfi og að þeir sem farið hafa í önnur störf leiti til baka í heilbrigðisþjónustuna. Starfshópunum er gert að skila tillögum til ráðherra í desember á þessu ári.
Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi í byrjun sumars eru sett fram sjö lykilatriði. Eitt þeirra ber titilinn „Fólkið í forgrunni“ og fjallar um mannauð og starfsumhverfi í heilbrigðisþjónustunni. Vel menntað heilbrigðisstarfsfólk og fullnægjandi mönnun er forsenda þess að hægt sé að veita þeim sem þurfa örugga og skilvirka heilbrigðisþjónustu.
Starfsumhverfið skiptir miklu máli, því endurteknar kannanir á vinnustöðum sýna skýrt hvaða þættir eru mikilvægastir til að laða að starfsfólk og halda því. Stjórnun, vinnutími, aðbúnaður og laun vega þungt þótt fleiri þættir komi til og því þarf að gaumgæfa þessa þætti og vinna markvisst að úrbótum þar sem þess gerist þörf. Með þessari áherslu ríkisstjórnarinnar og með nýrri heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sýna stjórnvöld svo ekki verður um villst að litið er á mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu sem brýnt verkefni og forgangsmál. Um það og aðrar áskoranir í heilbrigðiskerfinu verður rætt á opnum fundi sem ber yfirskriftina Horft til framtíðar og haldinn verður í Veröld, húsi Vigdísar fimmtudaginn 5. september kl. 17- 19. Fundurinn er liður í því að kynna og hefja innleiðingu nýrrar heilbrigðisstefnu og verður sérstök áhersla lögð á hlut menntastofnana, aðkomu þeirra og ábyrgð, meðal annars þegar kemur að menntun heilbrigðisstétta og mönnun heilbrigðisþjónustunnar.
Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 29. ágúst 2019.