fbpx
Landssamband eldri borgara skorar á alþingismenn að samþykkja þingsályktunartillögu um embætti umboðsmanns aldraðra þannig að markviss undirbúningur um stofnun og uppbyggingu þess geti hafist.

Þingsályktunartillögunni var dreift í á Alþingi 10. september í fyrra. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fyrsti flutningsmaður hennar. Þingályktunartillagan er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að leggja fyrir árslok fram á Alþingi frumvarp til laga um embætti umboðsmanns aldraðra“.  Þrjár umsagnir hafa borist um þingsályktunartillöguna en frestur er til að skila inn umsögn fram á föstudag.

Landssamband eldri borgara segir í umsögn sinni að málið hafi verið um árabil eitt helsta baráttumál sambandsins og tillögur um stofnun slíks efmbættis margoft verið lagðar fram, síðast á landsfundi í fyrra. Enginn vafi sé á því að mikil þörf sé fyrir embætti umboðsmanns aldraðra, sem hefði það hlutverk að gæta réttinda og hagsmuna aldraðra. Þjónusta við aldraða dreifist á hendur ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila og löggjöf um málaflokkinn sé margþætt og taki til beggja stjórnsýslustiga. Þá séu aldraðir misjafnlega færir um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfir.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að tillögur í þessa veru hafi nokkrum sinnum áður verið lagðar fram á þingi en ekki hlotið afgreiðslu.  Gert er ráð fyrir að 67 ára og eldri fjölgi um rúmlega 26 þúsund á næstu 15 árum, um 71 prósent. Talið er að 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600, um 55 prósent. Ærin ástæða, sé að mati flutningsmanna, til að láta loks verða af því að koma á fót embætti umboðsmanns aldraðra.

Ísafjarðarbær fagnar tillögunni í sinni umsögn um hana og BSRB styður hana sömuleiðis. Í umsögn BSRB segir, að mikilvægt sé að auka yfirsýn, eftirfylgni og almenna hagsmunagæslu í málefnum aldraðra. Einnig sé mikilvægt að aldraðir og aðstandendur þeirra geti leitað til þar til bærs aðila til að leita réttar aldraðra. Þá telur BSRB að stofnun embættis umboðsmanns aldraðra í samræmi við stefnu sína um fjölskylduvænt samfélag.