fbpx
Mynd með færslu
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir að um fjögur þúsund eldri borgarar hafi ekki efni á heyrnartækjum þar sem styrkur til heyrnartækjakaupa hafi ekki fylgt verðlagi. Þetta kom fram í viðtali við hana á Morgunvakt Rásar 1.

 

Yfir fimm ár eru síðan styrkurinn var síðast hækkaður, úr 30 þúsund krónum í 50 þúsund, en síðan þá hafa heyrnartæki hækkað í verði. Jafnvel miðtekjufólk hafi ekki lengur efni á bestu tækjunum. Þórunn segir stöðuna alvarlega því langvarandi heyrnarskerðingu fylgi félagsleg einangrun sem aftur eykur líkurnar á sjúkdómum á borð við Alzheimer.

„Þeir sem eiga lítil eftirlaun, þeir eiga engan séns þarna. Og við erum nokkuð klár á því, við höfum verið í sambandi við Heyrnarhjálp, að um fjögur þúsund manns hafi ekki efni á heyrnartækjum,“ sagði Þórunn á Morgunvakt Rásar1. „Ef við værum stödd í sumum af norrænu löndunum að þá væri þetta talið vera mikið brot á mannréttindum að fá ekki að vera með í samfélaginu. Þetta finnst mér vera bara skammarlegt.“

Í viðtalinu fór Þórunn vítt og breytt yfir stöðu kjaramála hjá eldri borgurum í ljósi nýrrar skýrslu sem stjórn LEB hefur látið vinna um stöðu mála í þessum málaflokki. Skýrslan verður kynnt á Landsfundi LEB sem verður haldinn í Súlnasal Hótel Sögu, þriðjudaginn 30. júní nk.

Ellilífeyrir hefur ekki hækkað til jafns við – t.d. lægstu laun, þingfararkaup og heildarlaun – samkvæmt samantekt Landssambands eldri borgara. Það er ekki nógu gott – reyndar ótækt segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður í viðtalinu við Morgunvaktina á Rás 1. Hún segist ekki finna neinn áhuga á því innan stjórnmálanna að laga þau mál sem eldri borgarar hafi bent á.

Viðtalið í heild við Þórunni má hlusta á HÉR