fbpx

 

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB skrifaði eftirfarandi grein sem leiðara fyrir LEB blaðið 2020, sem kom út í tengslum við Landsfund LEB 30. júní sl.

Við erum orðin rúmlega 45 þúsund. Hvað getur svona stór hópur gert til að bæta stöðu sína? Þeir sem eru verst staddir í samfélagi eldra fólks búa við fátækt. Getur það verið að sú sé staðan árið 2020? Hvað varð um öll flottu kosningaloforðin? Eldra fólk var í öðru sæti fyrir síðustu kosningar í ummælum stjórnmálamanna um að þau mál sem þyrftu að vera í forgangi. En hvað svo?

Félagsmálaráðherra kom á landsfund LEB 2018 og tjáði hópnum að um þær mundir snérist allt um að lagfæra málefni fatlaðra. En bætti við: „Svo eruð þið næst til að verða okkar málefni númer eitt“.  Á árinu 2019 varð sami ráðherra alveg uppnuminn af því að vera barnamálaráðherra og gleymdi eldra fólkinu gjörsamlega. Mörg loforð og fjöldi samtala áttu sér stað til að koma okkar málefnum á skrið. Allt í mestri vinsem en ekkert gerðist. Nefnd um lífskjör og aðbúnað eldra fólks  vinnur hægt og mjakast lítið áfram. Loforð um að koma málum í gegnum þingið hafa tafist af óskiljanlegum ástæðum. Hvað er næst?

Í nýrri skýrslu eftir Skúla M. Sigurðsson hagfræðing um kjaragliðnun og kjörin almennt frá setningu nýrra laga um almanna tryggingar 2017 kemur fram að kjaragliðnunin hafi numið 15%. Þegar stjórnvöld ákveða árlega að miða við verðlagsþróun en ekki launaþróun er þetta afleiðingin. Einnig má þar sjá að skattar af lífeyristekjum og tekjum frá almanna tryggingum eru orðnir hærri en útgöld til málaflokksins. Þessari skýrslu eru gerð góð skil í LEB blaðinu 2020.

Mjög mörg mál hafa komið inn á borð LEB undanfarið ár. Mörg erindi og margar fyrirspurnir. Mjög mörg málanna snúast um réttindi fólks og hvert eigi að snúa sér. Leiðbeiningar fara líka fram í síma og er fólk afar þakklátt fyrir þjónustu LEB. Fjöldi funda um ólík málefni er ört sívaxandi verkefni hjá stjórnarmönnum LEB.

Vinna við að sækja um styrki til verkefna er vandasöm og mikil. Nokkrir styrkir fengust á síðasta ári og snemma á þessu ári. Má þar nefna styrk til að vinna enn betur gegn einmanaleika og félagslegri einangrun. Til stóð að halda stóran fund um þau málefni 30. mars en vegna Covid-19 verður hann væntanlega 17. september n.k. Styrkur til umhverfismála var afhentur í febrúar s.l . og verður unnið með hann í haust. Útgáfa efnis um einmanaleika og viðbrögð við honum er líka gert með styrk ráðuneytisins en því verkefni hefur Guðrún Ágústsdóttir stýrt. Þessi vinna er óhemju tímafrek og skilar litlum tekjum til LEB miðað við vinnu. En skilar miklu til okkar fólks.

Styrkur til að efla upplýsingaflæði til eldri borgara um réttindamál er nýkominn og verður mikil vinna væntanlega lögð í það verkefni.

Að lokum þetta. Gríðarleg aukning umræðu um málefni eldra fólks er tengt vinnu LEB sem hefur komið mjög mörgum málum á framfæri og einnig á skrið. Enn er mikilvægt að efla LEB. Með nýjum starfsmanni hófst nýtt tímabil fyrir LEB þar sem umsjón Viðars Eggertssonar á heimasíðu og Facebook og almennum skrifstofustörum hefur gjörbreytt stöðu LEB.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB