fbpx

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, minnti eldri borgara á að hreyfa sig og huga að heilsunni á upplýsingafundi Almannavarna miðvikudaginn 4. nóvember. Næstum 200 manns yfir sextugu eru í einangrun með COVID-19.

Þórunn sagði að þriðja bylgjan hefði lagst þungt á eldri aldurshópa og hvatti fólk til dáða: „Við verðum að berj­ast. Við verðum að halda áfram og við vitum það. Við þekkjum líf­ið, við erum lífs­reyndar mann­eskjur og við gef­umst ekki upp svo gletti­lega – en það tekur í.“

Þekkja tím­ana tvenna

Þór­unn skor­aði jafn­framt á eldra fólk að geyma þau erindi sem ekki skipta máli í bili. „Bara salta þau á blaði og eiga þau til góða þegar við förum að mega hreyfa okkur aðeins meira. En við megum ekki gleyma að fara út. Við megum ekki gleyma að fara og hreyfa okk­ur. Það skiptir alveg höf­uð­máli.“

„Þessi stóri hóp­ur, þessi 45.000 manna hópur rúm­lega, sem er yfir sex­tugt, er sterkur hópur og dug­leg­ur. Hann er ótrú­lega seigur og hann skiptir höf­uð­máli í okkar sam­fé­lagi.

Og við þekkjum tím­ana tvenna. Margt af okkar fólki lifði af og lifði í krepp­unni ’30 og ’31. Margir muna skömmt­un­ar­seðla. Þegar ég var barn man ég eftir skömmt­un­ar­seðlum og ég man að mamma beið í bið­röð eftir að kaupa kjólefni. Við erum ekki í neinu slíku, þrátt fyrir kreppu. Við þurfum þess vegna að vera sterk og við verðum sterk – og ég ætl­ast til þess að fjöl­skyldur standi saman og hlúi að sínu fólki.“

Mikilvægt væri að fara út að hreyfa sig daglega og að oft væri líka hægt að hreyfa sig innanhúss. Þá sagði hún gott að horfa fram á við, til þess tíma þegar útbreiðsla veirunnar hefur róast. „Það er stutt í að íþróttahús opni aftur fyrir aldraða. Það er á dagskrá ÍR að opna nýtt íþróttahús svo eldra fólk geti gengið innanhúss þegar hálkan skellur á,“ sagði hún.

Þá hvatti hún eldri borgara til að hringja í sitt fólk og jafnvel gerast sjálfboðaliðar, til dæmis Símavinir. „Íslendingar eru eftirbátar Dana í því að eldra fólk sé sjálfboðaliðar. Við þurfum að vera virk í því að hjálpa öðrum,“ sagði hún, enda hefðu ótal rannsóknir sýnt fram á að það hefði góð áhrif á líðan. HÉR er tengill á símavinaverkefnið

Hún minnti fólk á kennsluhefti LEB – Landssambands eldri borgara um spjaldtölvur en hvatti fólk auk þess til að biðja barnabörn um hjálp. Þá minnti hún á mikilvægi þess að nærast vel og benti fólki á að forðast leiðinlegar fréttir stuttu fyrir svefn.

 

Daglegt líf

  • Skipuleggja matarinnkaup.
  • Fara með innkaupalista í búðina.
  • Eða panta matvörur á netinu og fá sendar heim.
  • Geyma erindi sem ekki liggur á.

Heilsa

  • Nærast vel og borða hollan mat.
  • Hreyfa sig daglega, úti eða inni.
  • Nýta íþróttahús til hreyfingar þegar hálkan kemur.
  • Gæta þess að fá nægan svefn.

Samskipti

  • Hringja í fólkið sitt.
  • Gerast sjálfboðaliði, t.d. símavinur.
  • Nýta tæknina, t.d. spjaldtölvur til að komast í samband við fólk.