fbpx

Þórunn Sveinbjörnsdóttir var endurkjörin formaður Landssambands eldri borgara (LEB) á landsfundi samtakanna í dag. Miklar breytingar urðu í stjórninni.

Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur í Holti, bauð sig fram gegn Þórunni í formannskjöri. Hún hlaut 68 atkvæði og hann 32 atkvæði. Sex seðlar voru auðir og einn ógildur.

Uppstillingarnefnd lagði til fjóra aðalstjórnarmenn sem voru sjálfkjörnir. Einn þeirra var í fráfarandi stjórn, Haukur Halldórsson, Akureyri. Ný í aðalstjórn eru Ellert B. Schram, Reykjavík; Dagbjört Höskuldsdóttir, Stykkishólmi, og Valgerður Sigurðardóttir, Hafnarfirði. 

Í varastjórn voru kjörin Drífa Sigfúsdóttir, Reykjanesbæ, Ingólfur Hrólfsson, Mosfellsbæ, og Ólafur Örn Ingólfsson, Reykjavík. Þrír sitja í varastjórn en fimm voru í kjöri. Drífa hlaut 89 atkvæði, Ingólfur 77, Ólafur Örn 52, Viðar Einarsson 48 og Halldór Gunnarsson 42.

Niðurstaða kosninga lá ekki fyrir þegar kom að lokum fyrri dags aðalfundar og lauk aðalfundarstörfum dagsins á því að fráfarandi stjórnarmenn, sem á vettvangi voru þá, voru kvaddir með þökkum og blómvöndum.

Landssamband eldri borgara var stofnað á Akureyri 19. júní 1989. Nær 60 félög eldri borgara eiga aðild að landssambandinu með alls um 27.000  þúsund félagsmanna.

Landsfundurinn er haldinn í aðsetri Félags eldri borgara í Reykjavík og hefur reyndar ekki verið fyrr í höfuðborginni.

Forsætisráðherra boðar starfshóp um kjör og lífsskilyrði eldri borgara

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði landsfundinn og fjallaði bæði um mál sem tengjast landsmönnum yfirleitt, þar á meðal eldri borgurum, og mál sem varða eldri borgara beinlínis. Hún sagði að ríkisstjórnin hefði „gert sitthvað til að bæta kjör eldri borgara sérstaklega“ og benti á að í nýgerðum kjarasamningum væri margt sem kæmi eldri borgurum vel, sérstaklega þeim sem byggju ekki í eigin húsnæði. Stór skref væru stigin í að byggja upp félagslegt húsnæðiskerfi til að draga úr húsnæðiskostnaði og boðaðar skattkerfisbreytingar kæmu eldri borgurum sömuleiðis til góða.

Forsætisráðherra sagði að ríkisstjórnin „blési til stórsóknar í heilbrigðismálum“ og nefndi uppbyggingu hjúkrunarrýma. Þeim myndi fjölga um 790 til ársins 2023. Í fjármálaáætlun ríkisins væri gert ráð fyrir 580 nýjum rýmum og endurbótum á 200 til viðbótar. Aukin áhersla yrði lögð á heilsueflingu og heilbrigðisráðherra hefði boðað samvinnu ríkis og sveitarfélaga um sérstakt átak í þeim efnum.

Ráðherra vék að kostnaðarþátttöku eldri borgara og kvað heilbrigðisráðherra hafa sett það mál í forgang. Komugjöld aldraðra og öryrkja í heilsugæslunni hafi verið felld niður og niðurgreiðsla aukin í tannlækningum. Stefnt sé að því að koma greiðsluþátttöku Íslendinga í heilbrigðisþjónustu í sama horf og í öðrum norrænum ríkjum á tímaskeiði fjármálaáætlunarinnar.

Þá nefndi ráðherra að tekjumark vegna atvinnutekna hefði verið hækkað og tók undir með Landssambandi eldri borgara um að hyggja þyrfti frekar að hag þeirra tekjulægstu í röðum aldraðra.

„Þegar horft er til ráðstöfunartekna eldri borgara standa mál vel en það breytir ekki því að í þessum hópi er fólk sem nær ekki endum saman og það er forgangsverkefni  að eiga við,“ sagði Katrín Jakobsdóttir og boðaði skipan nýjan starfshóps til að fjalla um „næstu skref varðandi kjör aldraðra“.

Starfshópnum er ætlað að fjalla um lífskjör og lífsskilyrði, þar á meðal hvernig eldri borgarar geti aukið ráðstöfunartekjur sínar með aukinni atvinnuþátttöku, frestun lífeyristöku og hvernig draga megi úr líkum á félagslegri einangrun aldraðra. Hópurinn fjalli líka um húsnæðismál aldraðra, fyrirkomulag öldrunarþjónustu, nútíma tæknimál og hvort breyta eigi fyrirkomulagi greiðsluþátttöku íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila (stytta biðtíma og bæta þjónustu  við íbúana).

„Aldursvæn og heilsueflandi borg“

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi ávarpaði samkomuna sem fulltrúi borgaryfirvalda í tilefni af því landsfundur eldri borgara er nú haldinn í fyrsta sinn í Reykjavík. Hún kynnti stefnu Reykjavíkurborgar sem ber heitið Aldursvæn og heilsueflandi borg og gildir til ársins 2022 Fyrsta aðgerðaætlun stefnuyfirlýsingarinnar var samþykkt í fyrri viku, sagði Heiða Björg.

„Reykjavíkurborg mun auka verulega þjónustu við eldri borgara og upplýsingaflæði til þeirra, meðal annars með sérhæfðri þjónustu, aukinni miðlun og útgáfu upplýsingaefnis.

Við leggjum áherslu á að auka tækifæri til eflingar heilsu og virkni fólks og hvatningu til meiri þátttöku í félagsstarfi, útiveru og menningu.

Við leggjum áherslu á næringu og viljum tryggja að eldri borgarar hafi aðgang að viðeigandi næringarráðgjöf. Matarstefna, sem samþykkt var á síðasta ári, gerir ráð fyrir að eldra fólki bjóðist val um rétti en sú aðgerð hefur því miður ekki verið útfærð.

Mikilvægt er að gleyma ekki að hugsa um allt fríska eldra fólkið og við lítum að sjálfsögðu einnig til hinna sem ekki hafa heilsu til að nýta sér þessa þjónustu.

Við bjóðum samþætta heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu, endurhæfingu í heimahúsum og munum skima sérstaklega eftir næringarástandi fólks í heimahúsum og bregðast við ef nauðsyn krefur.

Við munu setja á laggir þverfaglegt teymi fyrir heilabilaða og stefnum að því í samvinnu við ríkið að fjölga sérhæfðum og almennum dagdvölum.“

„Eldri borgarar í Danmörku í annarri stöðu gagnvart kjarasamningum við“

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri, borgara sagði í ársskýrslu fráfarandi stjórnar fyrir árið 2018 að hæst hefði borið starfsemi starfshóps sem félagsmálaráðherra tilnefndi og hóf störf í maí. Fyrir hópinn var lagt að kanna málefni og stöðu þeirra þeirra verst settu meðal eldri borgara:

„Margir fundir fóru í að fá sérfræðinga á staðinn til að greina stöðuna. Mikilvægar upplýsingar liggja nú þegar fyrir. Þegar þar var komið var tíminn naumur og ekki virtist mikill vilji í velferðarráðuneytinu til að koma stærri málum áfram. Varðandi skattamál var ljóst að þessi hópur fengi ekkert útspil vegna komandi kjarasamninga þar sem stjórnvöld meta það svo að betra sé að kynna nýjar þar en meðal eldra fólksins. Ljóst er þó að þar kæmu tillögur okkar fólki til góða.

Leigjendur meðal eldri borgara er hópur í vanda en þeir eru aðeins um 2.700 manns og þarf þar að kanna stöðuna vegna hækkunar á leigu og þá að styrkja þá verst settu með sértækum húsaleigubótum.

Svo var farið ítarlega yfir skiptingu hóps eldra fólks eftir tekjum og ef skoðað er eftir 10% í hverju hólfi og 10 hólf í rammanum þá eru neðsti tíundirnar, eins og það er kallað, í verulega slæmum málum. Það er loforð félagsmálaráðherra að haldið verði áfram með þessi verkefni á þessu ári og það er mikilvægt.“

Þórunn vék að nýgerðum kjarasamningum og áhrifum þeirra. Þar eigi eldri borgarar enga aðild, þrátt fyrir að rætt hafi verið við verkalýðsforingja.

„Þeir vilja okkur vel en vandinn er sá að við erum ekki í sömu stöðu og eldri borgarar í til dæmis Danmörku, þar sem danska alþýðusambandið vinnur náið með eldri borgurum. Slíku er ekki að heilsa á Íslandi.

„Þegar ég var í forystu verkalýðshreyfingarinnar var aldrei gengið frá samningum um laun á vinnumarkaði öðru vísi en fjallað væri jafnframt um kjör aldraðra í landinu. Á þessu hefur því miður orðið breyting og því ætlum við að breyta til fyrra horfs!

Við þurfum að að bretta upp ermar og kanna stöðuna miðað við kjarasamninga og setja fram kröfur. Versti óvinur okkar er orðalag 69. greinar almannatryggingalaga þar sem boðið er upp á tvær leiðir, annars vegar að fá greiddar hækkanir miðað við launaþróun eða hins vegar miðað við verðlagsþróun.

Oftast ákveða menn rétt fyrir jól að velja verri niðurstöðuna fyrir okkar eldri borgara til útborgunar 1. janúar ár hvert í almannatryggingakerfinu.“