fbpx

 

Skerðingar falla undir eignarréttarákvæði stjórnarskrár – þurfa því sérmeðferð þingsins

Eins og þegar hefur komið fram í fjölmiðlum var ríkið sýknað í dag af kröfum okkar í málinu þriggja félaga okkar í Gráa hernum gegn Tryggingastofnun. Kröfur okkar voru að skerðingar stæðust ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þá verður til spurning um ákvörðun þingsins – hverjir ákváðu hversu háar skerðingar mættu verða. Hins vegar var tekið undir þá grundvallarmálstástæðu okkar að kröfurnar hafi ekki verið teknar til greina. Þeim grundvelli, sem ríkið varðist á, er því alfarið hafnað í dómi héraðsdóms í dag.

Dómur héraðsdóms í dag felur því í sér áfangasigur, annan áfangasigurinn í málinu. Sá fyrsti fólst í því að vörnum ríkisins sem byggðust á réttarfari var hafnað. Annar áfangasigurinn, sem vannst í dag, er sá að vörnum ríkisins sem byggjast á því að enginn eignarréttur sé fyrir hendi í málinu er líka hafnað. Eftir standa nú aðeins varnir ríkisins sem felast í því að skerðingarnar standist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Á þær varnir er fallist í dómi héraðsdóms. En vegna þess að dómurinn telur skerðingarnar standast eignarréttarákvæði, þarf nú að fara vandlega í gegnum það hvernig þingið ákvað upphæðir skerðinga t.d. árið 2016. Það má ganga á eignir fólks við mjög sérstakar aðstæður og nú verður spurt hverjar þær aðstæður voru þegar skerðingar jukust og jukust.

Fyrir Landsrétti mun ágreiningurinn verða mun afmarkaðri en hann hefur verið hingað til. Málið snýst nú ekki lengur um hvort það sé dómtækt eða hvort stjórnarskráin setji löggjafanum nokkur mörk yfir höfuð, heldur um það sem hefur alla tíð verið kjarni málsins að okkar mati, hvar þessi mörk liggja nánar tiltekið og hvort og þá hvernig þau hafa verið virt. Þetta setur okkur í mun betri stöðu en við vorum þegar lagt var af stað.

~ Helgi Pétursson, formaður LEB