fbpx

 

Samhliða innleiðingu á nýju rafrænu greiðslukerfi Strætó, KLAPP, 16. nóvember voru einnig gerðar breytingar á gjaldskrá Strætó, sem skipt er í nokkra flokka. Meðal breytinga má nefna að árskort fyrir aldraða hækkaði úr 25 þúsund krónum í 40 þúsund krónur, eða um 60%. Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, segist sannfærður um að hækkun sem þessi verði ekki til þess að auka nýtingu eldra fólks á strætisvögnum.

Helgi segist hafa saknað þess að ekki væri í boði árskort fyrir eldra fólk á viðráðanlegu verði. „Ég þekki vel til í Danmörku og þar sem ég bjó var eldra fólki boðið að kaupa árskort á 365 krónur eða fyrir krónu á dag. Alls staðar í kring- um okkur er verið að stefna eldra fólki úr bílum í almenningssamgöngur, að minnsta kosti er verið að búa þannig um hnútana að þetta sé raunhæfur valkostur. Hugsunin er allt önnur og þar er ekki verið að íþyngja fólki á þennan hátt.

Mér finnst þetta mjög sérkennileg ráðstöfun og sem gamall formaður Strætó finnst mér þetta alveg út úr kú. Ég hefði aldrei samþykkt þetta,“ segir Helgi Pétursson.

Stakt fargjald á 490 krónur

Árskort án afsláttar kostar 80 þúsund krónur, en aldraðir eiga rétt á 50% afslætti. Samkvæmt eldri gjaldskrá hefur afsláttur til 67 ára og eldri minnkað verulega samkvæmt framansögðu.

Sama á við um árskort fyrir ungmenni 12-17 ára, en þau hækkuðu við gjaldskrárbreytinguna úr 25 þúsund krónum í 40 þúsund eins og hjá öldruðum. Nemar 18 ára og eldri greiða 40 þúsund krónur fyrir árskort, en það kostaði áður 54 þús- und krónur. Árskort fyrir öryrkja lækkar úr 25 þúsundum í 24 þúsund krónur.

Stakt fargjald með Strætó, án afsláttar, er nú 490 krónur og breyttist það ekki.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. nóvember 2021

Eigendur Strætó 

Strætó er í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.

Stjórn Strætó er skipuð einum fulltrúa og einum til vara frá hverju aðildarsveitarfélagi. Fulltrúinn skal vera aðalmaður í sveitarstjórn eða framkvæmdastjóri viðkomandi sveitarfélags. Sömu skilyrði gilda um varamenn sem hver sveitarstjórn tilnefnir.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og skal formennska skiptast milli aðildarsveitarfélaganna. Kjörtímabil stjórnar er 2 ár.

 

Heimasíða Strætó