Grein sem birtist á vefsíðunni Lifðu núna, þriðjudaginn 17. september 2019.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur skipað starfshóp sem er ætlað að fjalla um málefni aldraðra á breiðum grundvelli. Áður hafði ráðherrann skipað starfshóp um kjör aldraðra og skilaði hann skýrslu í desember 2018 þar sem fram komu tillögur um hvernig bæta megi kjör þeirra sem búa við lökustu kjörin í þjóðfélaginu. Frumvarp þess efnis verður lagt fram í vetur, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Nýja hópnum er ætlað að skoða málefni aldraðra í víðara samhengi. Ráðherra segir mikilvægt að bregðast við yfirvofandi fjölgun í elstu aldurhópum og breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Gera þurfi öldruðum kleift að auka ráðstöfunartekjur sínar með aukinni atvinnuþáttöku þegar það á við, en á sama tíma þurfi að tryggja fullnægjandi mönnun og þjónustu innan öldrunargeirans.
Nefndir á nefndir ofan
Nokkur gagnrýni hefur komið fram á það í hópi eldri borgara, að þeirra málefni fái að dúsa í nefndum árum saman, án þess að nokkuð gerist og horfa menn þá helst á lægstu eftirlaun og skerðingarnar í almannatryggingakerfinu. „Meðan við höfum engan samningsrétt er þetta eina leiðin, að reyna að komast að samkomulagi um okkar málefni“, segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara, sem á sæti í starfshópnum, um þessa gagnrýni. Hún var einnig í fyrri starfshópnum. Hún segir nýja starfshópinn hafa mörg mál á dagskrá, bæði velferðar og kjaramál og ályktarnir síðasta landsfundar sambandsins séu í góðu samræmi við það sem þarna verður lögð áhersla á. „Við erum að horfa til framtíðar, það er enginn búinn að móta stefnu vegna fjölgunar aldraðra á næstu 30-40 árum. Þetta málefni er eins og brennheit kartafla um alla Evrópu. Það eru allir að tala um þetta, skrifa og velta vöngum og mest allt beinist það að heilsu, heilsueflingu og að fólk geti með aðstoð, séð um sig sjálft eins lengi og hægt er.
Óhress með breytt almannatryggingalög
En hvað ætla fulltrúar Landssambandins í starfshópnum að gera varðandi skerðingarnar? Þórunn segist ekki geta tjáð sig um það á þessari stundu, þetta sé önnur heit kartafla. „Við erum mjög óhress með þetta. Við gagnrýndum það á fyrsta fundi starfshópsins að lífeyrir almannatrygginga skuli ekki fylgja launaþróun í landinu. En fengum engin svör. Það sjá allir hvernig ástandið er í heilbrigðismálunum og á bráðadeildunum. Við ætlum að berjast í þessu einu sinni enn og það á að funda ansi hratt að þessu sinni. Í fyrra var eingöngu verið að skoða kjör þeirra verst settu. En í þessum starfshópi eru fleiri mál undir. Við getum við tekið afmörkuð mál, klárað umræðuna og skilað af okkur skýrslu þannig að eitthvað sé hægt að gera, og haldið svo áfram með önnur mál. Við bindum vonir við að það komi eitthvað út úr þessu. Ég er ekki búin að gefa upp alla von ennþá. Við gagnrýndum það líka harðlega á fundinum að ekki skuli vera staðið við kosningaloforðin. Hvar eru þau? Við spurðum að því en það var fátt um svör á fundinum.“ Þórunn bætti við að eldri borgarar þyrftu að láta meira í sér heyra varðandi þessi mál og þeir þyrftu greinilega einnig að spyrja sig hvort tími væri til kominn að endurskoða baráttuaðferðirnar.
Starfshópurinn
Formaður nýja starfshópsins er Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og framkvæmdastjóri Læknastofa Akureyrar. Aðrir meðlimir eru Arnar Þór Sævarsson, tilnefndur af félagsmálaráðuneytinu, Guðlaug Einarsdóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðuneytinu, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, tilnefnd af Landssambandi eldri borgara, Haukur Halldórsson, tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, Þorbjörn Guðmundsson, tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, Bergþóra Benediktsdóttir, tilnefnd af forsætisráðuneytinu og Steingrímur Ari Arason, tilnefndur af fjármálaráðuneytinu.
Starfshópnum er heimilt að skila áfangaskýrslu eftir því sem vinnunni vindur fram. Gert er ráð fyrir að hann skili lokatillögum í síðasta lagi vorið 2021.
Athugasemd: Það virðist hafa gætt misskilnings á fundi starfshópsins þar sem rætt var um kjör eldri borgara og tengingu þeirra við launaþróunina fyrir helgina. Lögum hefur ekki verið breytt eins og sagt var í upphaflegri útgáfu fréttarinnar. Hún hefur því verið leiðrétt.
Landssamband eldri borgara telur að ellilífeyrir eigi að fylgja launaþróun, eins og kveðið er á um í almannatryggingalögunum, en í lögunum segir þó jafnframt að lífeyririnn skuli aldrei hækka minna en neysluverðsvísitalan. Stjórnvöld túlka lögin hins vegar þannig að lífeyrir eigi aldrei að hækka minna en neysluverðsvísitalan segir til um, að öðru leyti sé það þeirra að ákveða hækkunina.
Í frumvarpi til fjárlaga 2020 er gert ráð fyrir 3,5% hækkun lífeyris um áramót, en gert er ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 3,2%. Eldri borgarar segja það ekki í samræmi við launaþróun í landinu. Á vef Hagstofu Íslands var greint frá því í apríl á þessu ári að launavísitalan hefði þá hækkað um 5.5% s.l 12 mánuði.